22.02.1951
Sameinað þing: 45. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 59 í D-deild Alþingistíðinda. (3895)

157. mál, hitaveita á Reykhólum

Frsm. (Gísli Jónsson) :

Herra forseti. Ég þarf ekki að vera margorður um þetta mál. Þáltill. fer aðeins fram á það að fela hæstv. ríkisstj. að láta gera uppdrætti og kostnaðaráætlun yfir hitaveitu á Reykhólum í Austur-Barðastrandarsýslu, er sé nægileg fyrir fyrirhugaðar byggingar í landi staðarins. Skal verkið framkvæmt í samráði við skipulagsnefnd Reykhóla og því lokið á þessu ári.

Nefndin hefur athugað þetta mál og sent það til umsagnar raforkumálastjóra ríkisins, og hefur hann svarað því með bréfi, dags. 7. febr., eins og nál. á þskj. 682 ber með sér. Raforkumálastjóri leggur til, að till. verði samþ., og telur fulla ástæðu til þess, að þessi áætlun verði gerð um hitaveitu á Reykhólum. Hann telur, að frumáætlun muni ekki fara yfir 2000 kr. og að fullnaðaráætlun með uppdráttum muni ekki fara yfir 5000 kr.

Ég get upplýst, að Reykhólum berast svo að segja daglega óskir um úthlutun á lóðum í landinn á Reykhólum, svo að það er frá mínu sjónarmiði og n. nauðsynlegt, að þetta verk verði framkvæmt þegar á þessu ári. Ég legg til fyrir hönd n., að till. verði samþ. eins og hún liggur fyrir á þskj. 528.