22.02.1951
Sameinað þing: 45. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 70 í D-deild Alþingistíðinda. (3910)

168. mál, landhelgisgæzla og aðstoð til fiskibáta

Sigurður Ágústsson:

Herra forseti. Ég vil aðeins benda á þann misskilning, sem kom fram í ræðu hjá hv. formanni fjvn. og hv. 6. landsk. þm., sérstaklega í sambandi við það, að það þyrfti mörg skip til landhelgisgæzlunnar við Breiðafjörð. Það var þeirra skoðun, að það þyrfti 20 skip. Málið er ekki þannig, því það þarf að haga landhelgisgæzlunni eftir því, sem þörf er á hverjum tíma á þessum stöðum, og þess vegna er þáltill. mín fram komin. Við álítum, að við Breiðafjörð þurfi sérstaklega að hafa landhelgisgæzlu með höndum þessa mánuði, eða aðallega á vertíðinni frá byrjun febrúar til maíloka. — Hv. 6. landsk. var að minnast á það, ef það ættu að vera tvö gæzluskip í Faxaflóa, þá þyrfti fjögur skip á Vestfirði miðað við strandlengju. Það er mesta villa að fara eingöngu eftir strandlengjunni, það kemur margt til greina. Í öðru lagi hlýtur það líka að fara eftir því, hve mörg skip eru að veiðum á hverjum stað. Það segir sig sjálft, að það þarf töluvert mikla landhelgisgæzlu hér í Faxaflóa, og ekki einungis til þess, heldur líka til að aðstoða bátana, sem hér eru að veiðum. Það er meira en það eitt, sem þarf að taka til greina, hvað strandlínan er löng. Það, sem ég benti sérstaklega á, er, að nauðsynlegt sé, að landhelgisgæzlunni sé hagað eftir því, sem þörf er á hverjum tíma. Þess vegna er ég dálítið undrandi yfir þeim mætu mönnum, sem skipa meiri hl. fjvn. í þessu máli, hvað þeim liggur í léttu rúmi, hvernig fer um afgreiðslu þessa máls, þó svo að þeir segi, að þeir skuli að lokinni rannsókn, ef skipin, sem nú eru fyrir hendi til gæzlunnar, geta ekki annazt gæzlu við Breiðafjörð og sunnan Snæfellsness, fá leigt skip til landhelgisgæzlunnar.

Eins og ég tók fram áðan, þá er ég hræddur um, að sú rannsókn taki það langan tíma, að vertíðinni við Breiðafjörð verði lokið, þegar loksins verður komizt að raun um, að nauðsynlegt sé að leigja slíkan bát til landhelgisgæzlunnar við Breiðafjörð. — Ég skal svo ekki hafa orð mín fleiri, vona, að hv. alþm. viðurkenni nauðsyn þessa og að þáltill. á þskj. 583 verði samþ. eins og hv. minni hl. fjvn. hefur lagt til.