09.02.1951
Sameinað þing: 40. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 73 í D-deild Alþingistíðinda. (3924)

92. mál, skömmtun á byggingarvörum

Frsm. (Jóhann Jósefsson):

Herra forseti. Þessi till. til þál. um afnám skömmtunar á byggingarvörum o. fl. er flutt hér á Alþ. löngu fyrir áramót, og fór hún í svipaða átt og frv., sem Nd. var búin að afgr. og er komið til Ed., en stendur þar fast að sögn forseta samkv. ósk einhverra úr ríkisstj. Ég vil geta þessa þegar í upphafi, vegna þess að ég heyrði það á ýmsum dm., að þeir kusu heldur, að frv. gengi fram heldur en þáltill. Nú hefur allshn., sem hafði þetta mál til meðferðar, athugað það og leggur til, að þessi þáltill. á þskj. 157 verði samþ. án breyt., eins og sést á þskj. 624.

Allshn. leitaði umsagnar fjárhagsráðs um till., og lagðist það að vísu á móti samþykkt hennar, en byggði andmæli sín svo að segja eingöngu á því, að með samþykkt till. yrði aðstaða ráðsins til að gera grein fyrir meðferð svokallaðs mótvirðissjóðs torvelduð og ekki nægilega tryggilega séð fyrir dreifingu á byggingarvörubirgðum þeim, sem fyrir hendi eru. Í þessu sambandi og án þess að vefengja á nokkurn hátt góðan tilgang fjárhagsráðs er vert að athuga, að þegar l. um fjárhagsráð voru upphaflega sett, þá var heimilað að hafa undanþegnar þessar smáhúsabyggingar, sem hér um ræðir. En fjárhagsráði þótti handhægara, enda hefur það heimild til þess, að fela það líka: í sína ráðstöfun allt saman, en þó er heimildin, sem þeir hafa notað og er í l., byggð á því, að fjárhagsráð telji, að þessar framkvæmdir, sem máttu vera lausar og frjálsar, feli í sér óeðlilega sóun á vinnu og efni. Það er náttúrlega svo að segja tómt mál að tala um., að innan um allar þær stórhýsabyggingar, sem hér hafa fram farið, þá geti það talizt óeðlileg sóun á vinnu og efni, að menn, oft og tíðum mest af eigin rammleik, komi upp yfir sig smáíbúðarhúsum. En fjárhagsráð hefur tekið þá afstöðu að hafa þessa skoðun til þess að hafa heimild til þess samkv. l. að hafa íhlutun um þessi minni íbúðarhús. Meiri hl. allshn. hefur ekki getað fallizt á röksemdir fjárhagsráðs í þessu. Það er einu sinni svo um þessar stofnanir, að þeim finnst, þegar þær hafa ráð á hlutunum, að himinn og jörð forgangi, ef eitthvað gangi undan krúnu þeirra í þessum efnum; þess vegna má alltaf reikna með, að það sé ekki hægt að taka það sem einvaldan úrskurð, þó að ráðið sé á þessari skoðun. Hitt er vitað, að það hefur verið svo að segja þjáningarefni fyrir hina smærri borgara þessa lands á ýmsum stöðum utan Reykjavíkur, hvað mikil flækja af höftum hefur vafizt um fætur þeirra við það fyrirtæki, sem er eðlilegast af öllu eðlilegu, að koma upp yfir sig smáíbúðarhúsum eins og gerast hjá öllum almenningi, og ég þykist vita, að ég standi ekki einn uppi með þann vitnisburð sem þm. að hafa orðið í mörgum tilfellum að berjast fyrir því að fá þessi leyfi í gegn. Það er víða svo úti um land, að menn leggja sérstaka áherzlu á að geta unnið að byggingum sínum að haustinu, þegar slaknar á um stóratriði, og þannig sparað sér mikið fé með því að vinna sjálfir mikið við byggingarnar. Þannig er það þar, sem ég er kunnugastur, og ég ætla, að þannig sé víða.

Ein ástæðan, sem kom fram frá þm., sem ekki vildi aðhyllast niðurstöður meiri hl., var sú, að hann væri hræddur um, að þessar smærri byggingar, eða þeir, sem að þeim stæðu, yrðu útundan u.m að afla sér efnis, ef skömmtun yrði afnumin, Það lítur óneitanlega þannig út af sjónhendingu, ef við lítum á reglurnar, að þetta gæti átt sér stað. Ég leitaði umsagnar ýmissa byggingarmeistara um þetta, fyrir utan þá persónulegu reynslu, sem ég hef af einstaka tilfellum, og ég hef jafnan orðið þess var, að þeir gera ekki mikið úr því að það væri ómögulegt fyrir þessa menn að afla sér byggingarefnis án aðstoðar fjárhagsráðs, og ýmsir menn hafa á 1–2 árum viðað að sér sementi, járni og timbri, þannig að oft hefur ekki staðið á öðru en því, hvort þeir yrðu lögbrjótar fyrir að grafa fyrir kjallaranum eða ekki. Ég geri þess vegna heldur lítið úr þeirri mótbáru, en það var einasta mótbáran á móti þessari till., sem kom fram innan n.

Ég hef ekki séð neitt minnihl. álit koma fram og get því ekki gert það að umræðuefni, en brtt. frá hv. 2. þm. Reykv. var til athugunar í n. jafnhliða aðalmálinn, og skal ég aðeins minnast á hana. Hún gengur í þá átt að afnema ekki einungis skömmtun, heldur gefa innflutning á byggingarvörum frjálsan. Ég hefði fyrir mitt leyti, og ég held að fleiri séu á þeirri skoðun, talið mjög æskilegt, að svo gæti orðið, en það er alltaf verið að láta hilla undir það nú hjá ríkisstj., að það eigi að gefa svo og svo mikið frelsi í verzluninni. Þetta gengur frá viku til viku, og maður hlýtur að leggja trúnað á, að það sé einhver meining í því, og þá er ekki ólíklegt, að hið helzta og fyrsta, sem gefið væri frjálst, væru einmitt þessar vörur, sem þarf til bygginga, og það var með þetta fyrir augum, að við töldum ekki rétt að taka svo djúpt í árinni í þessari till. eins og hv. 2. þm. Reykv. hefur hér lagt til, þó við höfum fulla samúð með hans skoðun í þessu efni. Ég veit ekkert, hvað hæstv. ríkisstj. hyggst fyrir í þessu, en ég hlýt að leggja trúnað á, að þetta frelsishjal beri ávöxt, og þá tel ég líklegt, að það mundi beinast að þessum vörum.

Ég held, að það væri bara til góðs að slaka til í höftum um þessar byggingar, sem hér eru nefndar, og þessi till. takmarkar sig við þær byggingar einar, sem þarna eru settar í l. um fjárhagsráð upphaflega og menn töldu að mundu geta fengið að vera í friði, þó þær yrðu það ekki. Það er vitað, að þrátt fyrir það, hvað erfitt er að fá leyfi til þess að byggja fyrir ýmsa, jafnvel þessi smáhús, þá hafa á sama tíma verið í uppsiglingu töluvert glæsilegar húsbyggingar, og þegar maður horfir á það og viðurkennir svo þau vandræði, sem ýmsir eiga við að búa, sem vilja stilla sínum kröfum í hóf, þá finnst mér, að það sé ákaflega erfitt að standa á móti því að greiða fyrir þeim, sem hér eiga hlut að máli.

Á þskj. 648 er brtt. frá hv. þm. V-Húnv. um að bæta við till. eins og þar segir. Hann gengur þar út frá, að innflutningur á þessu efni geti verið háður innflutnings- og gjaldeyrisleyfum, og vill láta þau hús, sem talin eru í 1. málsgr., sitja í fyrirrúmi um leyfi fyrir timbri, sementi, járni og fleira, sem þarf til byggingar húsanna. Ég sé ekki annað en að á bak við þessa brtt. felist nákvæmlega sami tilgangurinn eða sama hugsunin og er í upphaflegu till., þó ég hafi ekki haft tækifæri til að bera hana undir meðnm. mína, og ég segi það sem mína persónulegu skoðun, að ég hef ekki neitt á móti því, að hún sé samþ.

Ég ætla þá að ég hafi gert nægilega grein fyrir þessu fyrir hönd meiri hl., og ég hef gert grein fyrir því, af hvaða ástæðum meiri hl. tók ekki upp brtt. hv. 2. þm. Reykv. á þskj. 199. — Ég vil svo vænta þess, að hæstv. Alþ. geti fallizt á sama sjónarmiðið eins og hér liggur fyrir í till. og áliti meiri hl. sem og í brtt. á þskj. 648, sem ég hygg, að sé til tryggingar því, hvernig sem allt veltist með frelsi eða ekki frelsi í þessum innflutningi, að þá verði sérstakt tillit tekið til þarfa þeirra, sem eru í rauninni að koma upp yfir sig nauðsynlegum íbúðarhúsum fyrir sig og sína fjölskyldu.