09.02.1951
Sameinað þing: 40. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 86 í D-deild Alþingistíðinda. (3928)

92. mál, skömmtun á byggingarvörum

Finnur Jónsson:

Herra forseti. Ég gat ekki fylgt meðnm. mínum um afgreiðslu þessarar till., og finnst mér rétt að gera grein fyrir afstöðu minni sérstaklega, af því að ég hef ekki gefið út neitt sérstakt nál. — Ég óttaðist, að ef þessi till. yrði samþ. eins og hún liggur fyrir, þá mundi hún ekki ná tilgangi sínum, sem er „að greiða fyrir byggingu hæfilegra íbúðarhúsa og útihúsa í sveit“.

Menn tala hér mikið um það, að fjárhagsráð hafi ekki alltaf verið nógu fljótt til svara og jafnvel neitað beiðnum manna óhæfilega mikið. Nú er vitanlegt, að til fjárhagsráðs hafa borizt fleiri beiðnir um byggingarleyfi en unnt hefur verið að sinna, og má vera, að það hafi oft tekið langan tíma að vinza úr þessu. En eins og byggingarvöruinnflutningnum hefur verið hagað og ástandið verið undanfarin ár, þá er ekki hægt að ásaka fjárhagsráð fyrir að hafa veitt of fá leyfi, heldur miklu fremur of mörg, og einkanlega hefur verið veitt of mikið af leyfum til stærri bygginga, sem vel hefðu mátt bíða, og þá allajafna fyrir áróður stjórnmálamanna og þeirra ráðherra, sem verið hafa húsbændur fjárhagsráðs í það og það skiptið.

Ég veit, að það dylst engum, sem lesið hafa skýrslur fjárhagsráðs, að það hefur bjargað fjölda manna, sem hafið höfðu húsabyggingar, frá því að verða öreigar með því að láta þá fá efni til þess að halda áfram byggingum sínum, en eins og gjaldeyrisvandræðin voru í landinu, þá höfðu þeir engan möguleika á því að afla sér efnis til áframhaldandi byggingarframkvæmda. Ég veit, að það eru ýmsir, sem neita þessu, en eigi að síður hygg ég, að enginn maður geti neitað því eftir að hann hefur lesið skýrslur fjárhagsráðs. Enn fremur er það alveg víst, að fjárhagsráð hefur hjálpað mörgum smærri íbúðarhúsabyggjendum, sem ekki gátu komizt öðruvísi af stað. Og það er einnig vitanlegt, að vissar stofnanir höfðu möguleika á, með umráðunum yfir fjárfestingarleyfunum, að byggja stórhýsi, en voru stöðvuð af fjárhagsráði og efnið sett í nauðsynlegustu íbúðarhúsabyggingar. Nú tel ég, að með samþykkt þessarar till. gæti verið stefnt í þessa átt, þar sem fjárhagsráð fær ekki yfirlit yfir, hvað óskað er eftir að byggja í landinu, og ef ætlazt er til, að smáíbúðir verði teknar undan fjárfestingareftirlitinu, en fjárhagsráð segi áfram til um efni handa hinum stærri byggingum, þá er hætt við því, að þeir, sem ráða mestu í ríkisstj., geri það, sem í þeirra valdi stendur, til þess að hjálpa þeim, sem standa þeim næst. Niðurstaðan yrði sú, að fjárhagsráð héldi áfram fjárfestingarleyfum handa stærri byggingunum, og tilgangur þessarar till. yrði gagnstæður því, sem till. menn vilja vera láta. En öðru máli væri að gegna, ef till. fæli í sér, að það byggingarefni, sem afgangs yrði af því byggingarefni, sem flutt væri inn til smærri íbúðarhúsabygginga, væri látið ganga til stærri bygginga. Þá mundi þetta líta allt öðruvísi út, og þá fyrst ætti þessi till. rétt á sér. En eins og till. er flutt, finnst mér það vera rétt aths., að hún geti orðið til þess að veita efninu í þann farveg, sem till. menn vilja ekki gangast við, að ætlunin sé. Ég hefði því viljað beina því til frsm. og flm. till., hv. þm. Vestm., hvort ekki væri hægt að taka þá aths. til greina, að till. yrði breytt á þann hátt, að ekki mætti byggja stærri byggingar nema eftir því sem efni yrði afgangs til byggingar á hæfilegum íbúðarhúsum og útihúsum í sveit. Með því móti gætu þessar till. náð tilgangi sínum.

Annars tala menn gjarnan um verzlunarmálin hér á Alþingi nú, og sumir virðast halda, að ekkert sé annað en gefa verzlunina frjálsa, og þá muni allt fyllast af vörum, og ekki þurfi annað en setja þessa og þessa vöru á frílista, þá muni verða nóg af öllu í landinu. Ef þessir menn meina það, sem þeir segja, virðist mega af því ráða það, að alþingismenn viti yfirleitt ekki, hvernig umhorfs er á vörumarkaðinum í heiminum. Eftir því sem mér er bezt kunnugt, þá er svo komið, að margar vörutegundir eru ófáanlegar. Og mér er nær að halda, að til að tryggja innkaup á helztu nauðsynjavörum okkar þyrfti frekar öflug ríkisafskipti en hið gagnstæða, því að margar þessar vörur, sem erfiðlegast gengur að fá, fást ekki nema í vöruskiptasamningum eða með sérstöku samkomulagi við erlend ríki, og þar á meðal er sement, steypustyrktarjárn, þakefni og rúðugler.

Það er gott að fá tillögur um það frá hv. þm. V-Húnv., að vissir menn fái forgangsrétt til byggingar vissra húsa, með sérstöðu til vissra efna. Það er gott, að einhverjir fái forgangsrétt. Þetta er allt gott. En það er bara nokkur hluti þessara vara ófáanlegur á erlendum markaði. Nú, það var hér tillaga frá einhverjum hv. þm. um sérstakar ráðstafanir vegna ófriðarhættu. Ég man ekki, hvort hún náði nema til sjúkragagna. En það er ekki síður ástæða fyrir Alþingi að taka verzlunarmálin til alvarlegrar athugunar í sambandi við þann skort á nokkrum nauðsynjavörum, sem hlýzt vegna ófriðarhættunnar. Ég hef rekið mig á það um eina vöru, sem nauðsynleg er til áframhaldandi ræktunar. Gaddavír hefur verið ófáanlegur, og ég ætla, að hann hafi ekki fengizt síðan í október, og svo mun vera yfirleitt um járnvörur, t. d. steypustyrktarjárn. Og yfirleitt mun það nú vera að verða svo, að járnsmíðaverkstæði eru að stöðvast vegna hráefnaskorts, og má mikið vera, ef svo fer ekki um mest af öðrum byggingarvörum. Við getum því talað um verzlunarfrelsi, en ég hygg nær að fela ríkisstj. að gera sérstakar ráðstafanir til að tryggja iðnaðinum og framleiðslunni innflutning á nauðsynlegustu byggingarvörum.

Ég hef haft sérstaka aðstöðu til að fylgjast með því, að ákaflega mikið hefur verið sótzt eftir því að undanförnu að flytja inn alls konar vörur til klæðnaðar, svo sem flónel og léreft, á sama tíma og ég hef horft upp á, að engin eftirspurn hefur verið eftir að flytja inn útgerðarvörur. Þetta kann að liggja í tvennu. Að menn telja sér hag í því að flytja það inn, sem almenningur þarfnast, eða í öðru lagi, að erfitt er að útvega útgerðarvörur til landsins. T. d. má nefna segldúk, sem margar verzlanir segja, að ómögulegt sé að fá. Og ég óttast, að svo kunni að fara sem í síðustu heimsstyrjöld, þegar viðskiptaþjóðir vorar, sem þó voru soltnar og þörfnuðust íslenzka fisksins, voru orðnar svo fátækar, að þær gátu ekki látið okkur hafa útgerðarvörur.

Ég bið forseta afsökunar, ef ég hef farið of langt út fyrir efnið. En ég gat ekki látið hjá líða að benda á, að verzlunarfrelsið í þessum innflutningi hefur litla þýðingu, nema ríkisstj. geri sitt til að halda opnum samböndum við útflutningslönd okkar, sem nú eru sem óðast að loka sig inni.

Ég ætla svo ekki að orðlengja þetta frekar. En mér þætti vænt um, ef hv. frsm. vildi láta í ljós þá skoðun, að hann féllist á þá breyt. á till. að takmarka byggingarvörur til stóríbúða.