14.02.1951
Sameinað þing: 42. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 101 í D-deild Alþingistíðinda. (3935)

92. mál, skömmtun á byggingarvörum

Frsm. (Jóhann Jósefsson) :

Herra forseti. Það liggur við, að ég sé farinn að finna þörf á að velta því fyrir mér, hvernig þessi þjóð hefur hjarað og þraukað í 1000 ár og meira, áður en fjárhagsráð varð til. Þegar verið er að bera fram svo alsanngjörn tilmæli sem felast í þeirri till., sem hér um ræðir, þá leikur allt á reiðiskjálfi, ef eitthvað í þeim brýtur í bága við hinn hágöfuga vilja fjárhagsráðs og aðstandenda þess. Ég held, að sumir þeirra ræðumanna, sem hér hafa talað um þetta mál, gætu varla lagt öllu meira upp úr 10 boðorðum Móses en þessu kjánabulli uppi í fjárhagsráði, sem er marghrakið á ári hverju. Hv. 3. landsk. sá allt í einn fyrir sér einhvern voða, ef þessar litlu íbúðarhúsabyggingar yrðu gefnar frjálsar. Ég ætla, að það sjónarmið hans sé samkvæmt hans lærisetningum. En braskið og bellibrögðin, sem hann þóttist sjá hilla undir, ef þetta litla frelsi yrði gefið, það brask og þau bellibrögð eru þegar komin inn í byggingar- og verzlunarlífið í heild og ekki hvað sízt vegna of mikillar afskiptasemi þess opinbera. Ég átti þátt í því á sínum tíma, að fjárhagsráð tók við völdum. En ef við athugum nú þau lög, sem því voru sett, og síðan framkvæmdina, þá ber þar mikið á milli. Fjárhagsráði var fyrirhugað að halda áfram þeirri nýsköpun, sem þá hafði átt sér stað hjá þjóðinni um nokkurt skeið. Ég ætla ekki að fara ýtarlega út í það hér, hvernig fjárhagsráð hefur rækt það hlutverk. Það atriði væri efni í langa ræðu út af fyrir sig. En þegar svo nokkrir hv. þm., tilknúðir af vandræðum og vandkvæðum sinna kjósenda, fara fram á, að einum lagabókstaf í lögunum um fjárhagsráð, sem í öndverðu var gert ráð fyrir að hefði gildi, sé breytt, þá ætlar allt um koll að keyra. Hæstv. landbrh. er nú farinn úr salnum og hefur líklega þótzt gera vel að miðla Alþ. af sinni speki, og hann fræddi okkur um tíðarfarið. Ég hélt nú satt að segja, að allir vissu, hvernig það hefur verið í vetur. En það var fleira, sem hrökklaðist út úr hæstv. ráðh., er hann var að hlaupa í skarðið fyrir viðskmrh. Hann gerði ráð fyrir því, að hæstv. viðskmrh. hefði þegar látið Alþ. í té skoðun sína á þessum málum. Því miður er það nú ekki svo. Hæstv. landbrh. hefur gert ráð fyrir meiri ötulleik af hálfu viðskmrh. í þessu máli en raun ber vitni, því að hann hefur enn ekki tekið til máls um það. Þá sagði hæstv. ráðh., að till. frá ríkisstj. um frelsisaukningu væri von á næstunni. Það er ekki í fyrsta skipti, sem slíku er haldið fram og okkur lofað, að till. séu á næsta leiti. En þær vilja bara vera nokkuð lengi á næsta leiti, og ég verð að segja það, að mér finnst sækjast nokkuð seint að leitinu því. Og það er ekki í þessu máli einu, sem fyrirheit og loforð hafa verið gefin um till. til úrbóta á næstu grösum, en hefur síðan dregizt von úr viti, að þær birtust. Hann minntist einnig eitthvað á vöruflutninga til landsins, og ef ég hef heyrt rétt, þá var svo að skilja, að hann vildi halda því fram, að leyfin fyrir þeim hefðu alltaf verið tímanlega á ferðinni. Þarna er hann að mæla fyrir munn annars manns, og það verður að nægja honum til afsökunar, en þarna hefur hann hætt sér út á klaka, sem hann er ekki kunnugur. Honum mun ekki sjálfum kunnugt um það, hve ríkisstj. hefur verið viðbragðsfljót í þessu efni, og því virðist afar hæpið af honum að halda þessu fram. Því miður er það svo, að vegna aðgerða fjárhagsráðs höfum við verið mikils til of seint á ferðinni með útvegun á hinum nauðsynlegustu rekstrarvörum. Það er hægt að sanna það reikningslega, að fyrir aðgerðir fjárhagsráðs voru framleiðendur saltfisks skaðaðir um eina millj. króna, vegna þess að þeir máttu ekki kaupa strigaumbúðir, er þeir vildu. Svona er það á fleiri sviðum, að víða eru leyfi seint á ferð. Ég hef fyrir langalöngu bent viðkomandi ráðun. á, að það eru ekki til í landinu lýsisumbúðir nema utan um 1/10 hluta eða svo af því lýsi, sem framleitt er. En fjárhagsráð fæst ekki til að sinna viðvörunum um þetta efni, og það er nú komið undir náð, hvort við fáum þessa vöru. Það kann að þykja óviðeigandi af manni, sem talinn er í stjórnarliðinu, að mæla svo sem ég hef nú gert. En þegar gengur svo fram af mér, get ég ekki horft þegjandi á það, sem fer aflaga í ýmsum efnum, og samþ. það mótmælalaust. Það má hver virða það þann veg sem hann vill. Það er orðið of mikið af því, að ef menn eru í þessum og þessum stjórnarflokki, þá megi menn ekki sjá agnúa á ríkisstj., heldur beina allri gagnrýni sinni að stjórnarandstöðunni. Ég ætla, að hreinskilni í þessum efnum sem öðrum sé réttust. Og ég get kinnroðalaust bent á þessa hluti vegna þess, að ég hef eftir öðrum leiðum gengið eftir því, að útveginum yrði séð fyrir þeim vörum, sem hann nauðsynlega þarfnaðist, án þess að neitt hafi verið á það hlustað. Hæstv. ráðh. komst svo loksins heim í ríki sitt í ræðulokin. Og þar kom hann með eina fullyrðinguna enn, og hún var á þá leið, að þær einu vörur, sem áreiðanlega seldust erlendis nú í svipinn, væru landbúnaðarvörur. Þetta er alveg rétt, að nú eru þær seljanlegar á góðu verði, og er það vel farið. Það er gleðilegt, að landbúnaðarvörur seljast nú vel, það gleður þjóðina, þegar vörur hennar seljast vel. En ég ætla, að það sé mælt af nokkuð mikilli vanþekkingu að segja, að landbúnaðarvörur séu einu vörurnar, sem hægt sé að selja, því það er flestallar okkar vörur, sem hægt er að selja, svo fremi að þær séu í því ástandi að vera frambærilegar á markaðnum. Það veltur svo á ýmsu með verðið, það fer með sjávarútvegsvörurnar alveg á sama hátt eins og fer með landbúnaðarvörurnar, að framboð og eftirspurn skapar eða hefur a. m. k. mikil áhrif á verð vörunnar í hvert eitt sinn. Styrjaldarástandið virðist hafa kallað fram mikla eftirspurn eftir ullarvörum, og þá er það náttúrlega eðlilegt, að íslenzkar gærur t. d. séu í háu verði, sem þær eru nú, sem betur fer. En það er ekki sérlega langt síðan landbúnaðarvörur áttu líka erfitt undir fót, ég er ekkert að hælast um af því, en bendi á það í sambandi við fullyrðingu hæstv. ráðh. Ég veit ekki betur en að landssjóður hafi stundum hlaupið undir bagga og keypt landbúnaðarvörur, t. d. ull, af því að ekki hafa verið möguleikar að koma þeim út á erlendum markaði. Þessi till. gefur ekkert tilefni til, að hæstv. landbrh. sé að koma með neinn slíkan meting eins og hann var með í sinni ræðu. Þessi till. er fram borin til þess, að því sé loksins hætt að láta menn, sem eru störfum hlaðnir, til sjós eða lands slíta út miklu af sínum tíma og kröftum til að fá leyfi fyrir því að mega reisa sér lítið hús, að hætt sé að angra bændur í sveitum með því, að þeir þurfi að vera að skrifa til Reykjavíkur, ef þeir vilja byggja sér for eða koma einhverjum smáframkvæmdum í verk. Þetta á allt að athuga, segir hæstv. ráðh., það er ekki nema stutt stund þangað til tekin verður ákvörðun um þetta allt saman samkv. þeirri miklu áætlun fjárhagsráðs, sem lögð var fyrir ríkisstj. fyrir 2 dögum. — Við erum fyrir löngu búnir að heyra þessar og líkar upphrópanir, ekki úr munni þessa hæstv. ráðherra eins, heldur úr annarra munni. En ég held, að það sé alveg óhætt fyrir þann hluta Alþ., sem annars vill rýmka eitthvað til í þessum efnum, að samþ. þá þáltill., sem hér er rætt um, þrátt fyrir að það komi þá kannske eitthvað enn rýmra frelsi fram hjá hæstv. ríkisstj., það skaðar þá ekki, að Alþ. sé búið að láta sinn vilja í ljós.

Ég var áður búinn að minnast á brtt. hv. þm. V-Húnv. og fann, frá mínu sjónarmiði, ekkert við hana að athuga. Nú er komin ný brtt. frá hv. þm. Ísaf. Það má segja, að hún í sjálfu sér hljómar vel, þegar hún er lesin upp, en mig uggir samt, að hún geti orðið, ef hún er samþ., þál. fjötur um fót, og það munu vera einhverjir, sem líta þannig á, að með því sé stigið of fast í ístaðið, að bægja frá nauðsynlegum byggingum, þó þær tilheyri ekki þeim flokki bygginga, sem þáltill. fjallar um. Hv. þm. Ísaf. sagði í sinni ræðu á dögunum, að fjárhagsráð hefði bjargað mörgum. Hamingjan hjálpi mér! Þeir, sem sitja yfir öllu byggingarefni í landinu, þeir, sem ráða yfir hverjum sementshnefa og hverju borðfeti, skyldu þeir geta komizt hjá því að hjálpa einhverjum, ef það á að heita hjálp að veita leyfi? Ég vil vel trúa því, að þeir hafi hjálpað mörgum. Það gerir timburkaupmaðurinn, sementskaupmaðurinn og verkamaðurinn, sem er að byggja, þeir eru allir að hjálpa til þess að byggingarnar komist upp. En það er engin röksemd fyrir því, þessi hjálparstarfsemi, sem hv. þm. Ísaf. hóf fram, að það megi ekki samþ. þá þáltill., sem hér liggur fyrir, því henni er svo í hóf stillt, að með henni er aðeins farið fram á að létta oki fjárhagsráðs af þeim herðum, sem eiga erfiðast með að standa undir því, þegar um er að ræða svo smávægilegar framkvæmdir eins og t. d. framkvæmdir í sveitum, því það gengur barnaskap næst að vera að láta stofnun í Reykjavík skrifa upp á skírnarattesti fyrir forir og annað, sem byggt er og nauðsynlegt er við búskapinn. Ég vona því, að hv. alþm. fallist á að samþ. þessa rýmkun, ég sé ekki nokkra hættu á því, að samþykkt hennar mundi auka á brask, heldur þvert á móti.

Ég vil spyrja hv. 3. landsk., hvort hann álítur, að þær glæsilegu byggingar, sem eru að renna hér upp t. d. úti á Melunum, sem sýnilega eru ekki byggðar fyrir verkamenn eða slíka, það eru byggingar stórstarfsmanna hins opinbera, — ég vil spyrja, hvort hann álítur, að slíkar byggingar séu til orðnar fyrir brask. Ég geri ekki ráð fyrir, að hann haldi því fram. Hins vegar er það upplýst við umr. um þetta mál, síðast af hv. þm. Barð., að þess væru dæmi, að menn sæktu um byggingarleyfi og byggðu svo ekki sjálfir, heldur einhver annar. Ég vil ekki fullyrða, að hv. þm. hafi sagt, að byggingarleyfin væru gerð að verzlunarvöru, en hann sagði, að þau færu manna á milli. Áætlanir og skipulag, hvort sem það er heldur hjá fjárhagsráði, ríkisstj. eða Alþ., verður að beygja sig fyrir lífsins lögum á hverjum tíma. Öll áform, jafnvel þó lögfest séu, eiga yfir sér þann dóm, sem lífið og framvinda þess hlýtur ávallt að hafa í för með sér, og þess vegna er það, að ég hef fyrir löngu fundið til þess, hvað það er barnalegt að byggja svo mjög á þessari ársáætlun fjárhagsráðs, sem hæstv. ráðh. var að vitna til, ekki sízt fyrir það, að venjulega eru þessar áætlanir, síðan fjárhagsráð fór að starfa, ekki tilbúnar fyrr en drjúgur hluti er liðinn af hverju ári. — Fyrir tveimur dögum, sagði hæstv. ráðh., lagði fjárhagsráð sína merkilegu áætlun fyrir ríkisstj., og það væri fróðlegt að vita, hvað margir tveir dagar líða þangað til lokaorðið verður sagt hjá hæstv. ríkisstj. eða fjárhagsráði um þessar framkvæmdir, sem fyrirhugaðar eru.

Að lokum vil ég segja þetta: Þegar við erum að tala almennt um þetta ástand, þá er það ekki nema villandi að draga inn í umr. þær stórframkvæmdir, sem hafðar eru í huga, þær fossavirkjanir, sem nú eru nefndar, á þann veg að ætla bráðnauðsynlegum framkvæmdum almennings að stranda á þeim. Þær hleypa vitanlega áætlun fjárhagsráðs fram um margar milljónir, og það eru ekki nema hálf rök í þessu máli að segja við flutning á þessu eða við ákvörðun á þeirri þáltill., sem hér liggur fyrir, að fjárhagsráð sé þegar með 5–6 hundruð milljóna áætlun um framkvæmdir. Það er ekki venjulegt ástand í þessu landi, að verið sé með slíkar stórframkvæmdir á ferðinni. — Ég skal svo ekki tefja umr. lengur án þess að tilefni gefist til, en mér fannst það vera óhjákvæmilegt, eins og ræðum hefur verið háttað upp á síðkastið, að gera nokkrar aths. við þær fullyrðingar, sem hér hefur verið fleygt fram vanhugsað að mestu leyti.

Að síðustu vildi ég segja nokkur orð við hv. 2. þm. Reykv. Hann fór í ræðu sinni — ekki við þetta tækifæri, heldur fyrr þegar málið var á dagskrá, — dálítið óvarkárum orðum um mína sveitunga og kjósendur, Vestmannaeyinga. Ég veit, að hann hefur ekki gert það til að kasta rýrð á þá, en hann komst nokkuð sterkt að orði um það, að þeir hefðu sniðgengið fjárhagsráðslögin við byggingarframkvæmdir. Ég ætla, að þess kunni að finnast dæmi, og þá hefur verið rekizt í því eftir öllum kúnstarinnar reglum, en slíkt skeður víst oft á þeim sjó, ekki einasta í Vestmannaeyjum, heldur víða á þeim sjó, sem alþýða þessa lands hefur verið neydd til að sigla undir þeirri harla fávíslegu ofstjórn, sem innleidd hefur verið í byggingarmálum hér á síðustu tímum.