05.12.1950
Neðri deild: 33. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 113 í B-deild Alþingistíðinda. (394)

24. mál, aðstoð til bænda á óþurrkasvæðunum

Emil Jónsson:

Herra forseti. Ég kvaddi mér hljóðs vegna þess, að ég tel, að komið hafi fram í þessum umr., að hæstv. ríkisstj. hafi ekki litið jafnvinsamlega til allra sinna þegna, þá er hún gerði ráðstafanir vegna óþurrkanna á síðastliðnu sumri. Það er að vísu alveg óvefengjanlegt, að það gengu yfir landið óþurrkar svo miklir, að á tímabili leit svo út sem öll hey á stórum svæðum eyðilegðust eða yrðu fyrir miklum skemmdum. Þetta var svo voveiflegt, að sjálfsagt var að taka tillit til þess og reyna að bæta úr. Á sama tíma herjaði aflabrestur Vestfirði og síldarleysi fyrir Norðurlandi, og var þarna ekki um einstakan atburð að ræða, heldur endurtekið óhapp, og því enn frekari ástæða til að taka tillit til þess. En viðbrögð hæstv. ríkisstj. urðu ólík, því að strax um mánaðamótin september— október gerði hæstv. ríkisstj. út menn til að kynna sér ástandið á óþurrkasvæðunum og gaf strax út bráðabirgðalög til að bæta úr erfiðleikunum. Þetta ber sízt að lasta, en viðbrögðin eru næsta ólík, því að nú, þegar hið erfiða ástand sjávarútvegsins hefur staðið í langan tíma, þá fæst hæstv. ríkisstj. ekki til að gera ráðstafanir til að bæta úr því erfiða ástandi, sem þar hefur skapazt. Nú virðist mér, að það sé komið eitt nýtt til í þessu máli, og langar mig að fá upplýsingar því viðvíkjandi. Í þeim fréttum, sem við fengum af óþurrkasvæðunum, var okkur sagt, að svæðin austan til í Þingeyjarsýslu og Múlasýslu norðanverðri hefðu orðið verst úti. En ótíðin varaði fram í október, eftir því sem mér hefur skilizt, en þá voru bráðabirgðalögin gefin út. En síðan bregður til betri tíðar, og menn ná nokkru af heyjum, sem ekki leit út fyrir að yrði hægt að ná, er lögin voru sett. Ég les því til staðfestingar úr Degi kafla úr viðtali við hollvin þess blaðs, bónda austan úr Þistilfirði. Hann er spurður almennra tíðinda og síðan segir hann, með leyfi hæstv. forseta, — hann sagði: „að mikla veðurblíðu hefði gert þar eystra með vetrarkomunni, og stóð góðviðrið í hálfa aðra viku. Gerbreytti það ástandinu í fóðurbirgðamálunum. Menn náðu mestöllum heyjum sínum, og var það, sem slegið var í september, alls ekki illa farið. Áður en þetta góðviðri kom, var talið, að heyfengur manna væri 2/3 af meðalheyfeng, en nú mun láta nærri, að flestir hefðu meðalheyfeng, enda þótt sumt af heyjum mundi vafalaust reynast lélegt fóður.“ — Samkv. þessu hafa menn þá þar eystra hirt upp undir meðalheyfeng að vöxtum. Þetta eru út af fyrir sig ágætar fréttir. Nú eru þær spurningar, sem ég vildi leggja fyrir hæstv. ríkisstj., þessar: Í fyrsta lagi: Hefur hún aflað sér upplýsinga um það, hvað ástandið hefur breytzt mikið til batnaðar, og er nauðsynlegt að nota sömu upphæð í þessu skyni sem upphaflega var ætlað eftir fyrstu athugun í september? Liggja fyrir upplýsingar um það, hve ástandið hefur breytzt mikið til batnaðar? Í öðru lagi: Ef svo upplýsingar leiða í ljós, að þarna hafi rætzt úr betur en á horfðist um tíma, er þá ekki hægt að verja hluta þessa fjár, sem átti að fara á óþurrkasvæðin, til hjálpar hinum aðilunum, sem engar ráðstafanir hafa verið gerðar til að hjálpa? Er ekki hægt að beina hluta þessa fjár til þeirra staða, þar sem sjávaraflinn hefur verið svo lítill, að til stórvandræða horfir? Um þetta vildi ég spyrja hæstv. ríkisstj., því að mér virðist, að þarna hafi orðið breyting á til batnaðar síðan ríkisstj. lét gera sínar athuganir í haust, sem ég efast ekki um að hafa verið réttar. Og ef til vill gæti þetta breytt miklu um þörf fyrir fjárhagslega aðstoð, svo að hægt yrði að nota þetta fé til hjálpar öðrum, sem þyrftu þess með.