05.12.1950
Neðri deild: 33. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 114 í B-deild Alþingistíðinda. (395)

24. mál, aðstoð til bænda á óþurrkasvæðunum

Jóhann Hafstein:

Herra forseti. Þegar mál þetta lá á sínum tíma fyrir fjhn., sem ég á sæti í, þá var það að sjálfsögðu athugað þar, og n. mælti með, að frv. verði samþ. Það stóð þannig á, að ég gat ekki mætt á þeim fundi, er þetta mál var afgreitt, en ég hafði þó hugsað mér að fá frekari upplýsingar um málið, en vildi ekki við umr. málsins tefja það. En ég vildi nú leita frekari upplýsinga hjá hæstv. ráðherra, og ástæðurnar fyrir því eru að nokkru leyti þær sömu og komu fram hjá hv. þm. Hafnf. Þetta mál hefur í aðalefnum víst áreiðanlega meiri hluta þings á bak við sig, en er þó viðkvæmt mál, og þegar aðstæður eru þannig, að málið er búið að vera lengi í meðferð þingsins, þá er það eðlilegt, að þingmenn óski eftir að fá frekari upplýsingar um framkvæmd þess og annað, og ég held, að það yrði mjög til skaða, ef það kæmist inn hjá þingmönnum, að sú hjálp, sem hér um ræðir, væri að einhverju leyti ástæðulaus vegna breytts ástands. Þessi efasemd kom fram hjá hv. þm. Hafnf., og maður verður var við hana víða utan þingsins. Ég vildi því mælast til þess, og það var aðalástæðan fyrir því, að ég stóð hér upp, að ráðherra gæfi upplýsingar um ýmislegt í sambandi við málið, t.d. fóðurbirgðakaup og fleira, og á annan veg gerði grein fyrir því, að menn væru nú í engu minni þörf fyrir hjálp en áður. Hv. þm. Hafnf. sagði, að bændur hefðu hirt mikið af heyjum eftir að bráðabirgðalögin voru gefin út. Ég hef rætt um þetta mál við bændur úr S-Þingeyjarsýslu, og það er álit þeirra, að þetta væri miklu meira til að sýnast, því að heyin væru mjög kraftlaus og skemmd. En það er engu að síður skaðlegt, ef það kemst inn hjá mönnum, að breytt ástand geri þörfina fyrir þessa hjálp mun minni, og ekki sízt vegna þess, að málið hefur dregið með sér fylgifiska um hjálp á aðra staði, og ég tel því á þessu stigi málsins, að rétt væri, að ráðherra gerði gleggri grein fyrir málinu.