26.10.1950
Sameinað þing: 9. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 125 í D-deild Alþingistíðinda. (3958)

40. mál, vélræn upptaka á þingræðum

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Ég er einn af þeim þm., sem les ræður mínar, þegar það er hægt, en það er ekki ævinlega hægt. Skrifarar þeir, sem hingað veljast, eru mjög misjafnir, þó að ég efist ekki um, að reynt sé að velja þá eins góða og hægt er, og hér áður fyrr voru þeir látnir ganga undir hæfnispróf, en því mun nú vera hætt. Það er mikill munur að lesa ræður, sem varla þarf að breyta nokkrum stafkrók í, eða lesa í ræðum eftir sig hluti, sem aldrei hafa verið sagðir. T. d. voru hjón austur á landi, sem hétu Sigríður og Sölvi og ég minntist á í sambandi við sölu kristfjárjarða, orðin í meðförum skrifara að Sigurði og Sólveigu, og þetta kom ekki aðeins einu sinni fyrir í kaflanum, heldur þrisvar sinnum. En þetta er ekki það versta, því að slíkt er hægt að leiðrétta, en hitt er verra, þegar maður fær aldrei ræðurnar, af því að búið er að glata þeim. 4 eða 5 dögum fyrir þetta þing var komið til mín og ég beðinn að skrifa upp ræðu, sem ég hafði haldið á síðasta þingi. Ég reyndi að semja þarna inn í og fletti í því sambandi upp í umr. um málið, og kom þá í ljós, að þar vantaði einnig inn í ræður, sem þeir hv. þm. Barð. og hv. þm. Dal. höfðu haldið, en ekki er mér kunnugt um, hvort einnig hefur verið komið til þeirra í þessum erindum eða hvort þeir hafa samið upp sínar ræður. Þá er ekki enn búið að númera allar ræðurnar frá síðasta þingi, en slíkt er með öllu ómögulegt, og eiga forsetar og skrifstofa að sjálfsögðu sök á því. Til að fyrirbyggja allt þetta þarf vélræna upptöku þingræðna. Hæstv. utanrrh. sagði, að slíkt mundi ekki vera mögulegt á þessu þingi, þar sem gera þyrfti hér allmiklar breytingar, svo að slíkt væri mögulegt. Ég er ekki viss um, að þetta sé rétt. Ef hver maður talar úr sínu sæti, þá þarf eðlilega að gera hér allmiklar breytingar, en ef talað er úr ræðustól, þarf ekki miklar breytingar og er miklu ódýrara, og ætti að vera hægt að koma þessu í framkvæmd nú á þessu þingi, ef tækin eru þá til í landinu, sem mér cr ekki kunnugt um. Hv. þm. N-Þ. taldi óþarfa að prenta þingræður og taldi að allt, sem máli skipti, gæti komið fram í grg. Svo gæti orðið með frv., en ekki brtt. Mér vitanlega hefur aðeins einu sinni komið fram prentuð grg. með brtt., en hún var frá hv. 2. þm. Rangæinga við fjárl. um fjárframlag til Handíðaskólans. Ég ætlaði einu sinni að fá prentaða grg. með brtt., en var neitað um það. Það mundi því vanta rökstuðning fyrir brtt., ef þessi háttur væri á hafður. En það er slæmt, að ekki skuli vera leyft að prenta grg. með brtt., því að oft koma t. d. fram við afgreiðslu fjárl. brtt., sem eru algerlega sjálfstæðar og þyrfti því grg. fyrir. Ég held því ekki, að hægt sé að ná þeirri opnun á þinginu og kynningu til alþjóðar á störfum þingsins, sem menn eru sammála um að þurfi, nema með prentun umræðnanna daglega eða vikulega, eins og nú er lagt til, en slíkt fyrirkomulag mundi algerlega breyta sniði á prentun þingtíðinda frá því, sem nú er. Nú er hvert mál prentað út af fyrir sig sem heild, en með því móti að prenta þingtíðindin vikulega, kæmi ekkert mál í heild. Fyrir mann, sem síðar þyrfti að athuga gang málanna, yrði þetta miklu erfiðara en nú er, en samt sem áður tel ég slíkt enga frágangssök, en mikils um vert að fá umr. fljótt prentaðar og komið til almennings. En af því leiðir aftur það, að óhjákvæmilegt er fyrir menn utan þingsins, sem fylgjast vilja með umr., að hafa till. þær og frv., sem fram koma. Það þarf því að athuga, hvort ekki sé þörf á að prenta meira en ræðurnar sjálfar, því í þeim er oft aðeins vitnað í þskj., sem sá, er ræðurnar les, hefur þá ekki handa á milli. Ég vona, að n. ýti á forseta, að þeir láti gera tilraun með vélræna upptöku þingræðna og láti gera kostnaðaráætlun um það og eins með vikulega útgáfu þingtíðinda, því að sé það ekki dýrara en núverandi fyrirkomulag, þá tel ég slíkt ákaflega mikinn ávinning, svo að kjósendur geti fylgzt með gangi mála hér á Alþingi. En meðan þingfréttir eru ekki öðruvísi en nú er, þá er ákaflega erfitt fyrir menn utan þingsins að gera það svo, að vel sé.

Út af því, sem hv. 8. landsk. þm. sagði, vildi ég segja það, að ég tel mikla von á því, að fengi bæjarfólkið vikulega nákvæmar fréttir af því, sem væri að gerast innan veggja þingsins, þá mundi það ekki múgsefjast, en athuga málin af meiri skynsemi, en hrópa ekki „hallelúja“, þó að einhverjir lýðskrumarar haldi yfir því æsingaræður eins og við höfum dæmi um.