05.12.1950
Neðri deild: 33. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 114 í B-deild Alþingistíðinda. (396)

24. mál, aðstoð til bænda á óþurrkasvæðunum

Landbrh. (Hermann Jónasson):

Ég veit ekki, hvort það er almenn skoðun hjá mönnum, að það hefði ekki verið þörf á þessari hjálp til bænda á óþurrkasvæðinu. En ég vil segja það strax, að það er mjög miður farið, að þegar komið er fram með till. um að rétta landbúnaðinum hjálparhönd, þá kemur það naumast fyrir öðruvísi en svo, að komið sé fram með aðrar till., sem eru bundnar við þær fyrri, og þær látnar falla í þá átt, að ekki er hægt að samþ. sjálfa aðaltill., nema hinar séu samþ. um leið. Ég hygg, að menn geri sér ekki nægilega ljóst, hvað hér er um að ræða. Í vorharðindunum 1949 var ástandið svo, að bóndinn þurfti að ganga með hníf um hagann til að skera lömbin, jafnóðum og þau fæddust. Í einum hrepp, þar sem ég þekki vel til, voru þannig 500 lömb skorin. Það hafa verið samþ. hér till. um það að bæta sjómönnum sinn skaða, og það hefur aldrei verið talið eftir, sem sjávarútveginum hefur verið veitt. En þannig er tekið í þetta mál, og ég fullyrði þó, að það eru margir áratugir síðan nokkur stétt hefur átt við aðra eins örðugleika að stríða og nú að undanförnu. Fé hefur verið eytt til að bæta upp halla á síldarvertiðinni, og það hefur verið gert í fimm sumur, því að í fimm sumur hefur sjómönnum verið greitt beint og óbeint til þess að þeir gætu haldið bátunum á floti, og við, sem að þessari till. stöndum, höfum aldrei komið fram með till. um hjálp handa landbúnaðinum í sambandi við það, þegar það hefur verið rætt. Og nú er eins og aldrei hafi verið brugðizt eins fljótt við og nú, er bændur eiga í hlut. Nei, það hefur ekki verið brugðizt fljótt við, þótt sjómönnum hafi verið veitt aðstoð í fimm sumur og fyrirmæli um slíkt gefin með dags fyrirvara. Það er líka vitað, að beint framlag vegna óþurrkanna er ekki nema 1,5 millj. kr., því að 3 millj. eru lán; og við erum hér í þinginu með mál, sem á að gera upp bátaflotann. Samanburður á því fé, sem varið hefur verið til bænda og sjómanna, sýnir, hve réttlátt þetta mál er, og okkur hefur aldrei dottið í hug að binda slík mál saman, enda sjálfsagt að afgreiða þau sitt í hvoru lagi.

Það er spurt um það af þm., hvort þessarar aðstoðar hafi verið þörf og hvort hennar sé nú þörf. Það eru nú líklega varla þeir menn til, sem ekki fylgjast með fréttum, og þegar það skeði, sem ekki hefur skeð síðan 1903, að ekki stytti upp mánuðum saman á stórum svæðum á landinu, þá ættu menn að sjá, hver þörfin er. Ég vil undirstrika það, sem ég hef sagt hér áður, að þetta er al]s ekki eingöngu hjálp til bænda. Á þessu svæði eru fleiri smáþorp en á nokkrum öðrum stað á landinu, og þar lifa menn af landbúnaði með sjósókninni. Þegar byrjað var að hjálpa í haust, þá var þannig ástatt þar víða, að það var ekki til strá handa kúnum, og það varð að senda hey strax norður til að bjarga þeim. Það þurfti ekkert annað en kalla á þessa menn og láta þá gefa skrá um ástandið, og sýndi sig, að erfiðleikarnir eru stórkostlegir. Ef nefndin vill athuga þessa skrá, þá skal ég koma fram með skrá þessa. — En þá er það þetta atriði, hvort það er nauðsyn á svona mikilli hjálp. Farið hafa fram nákvæmar rannsóknir í hverjum hreppi. — Ekki er ætlunin að bæta nema lítinn hluta þess tjóns, sem orðið hefur, eða þar, sem heyfengur er 20% minni en venjulega. En þar, sem heyfengur er 20% minni, þarf að bæta tjónið. Athugið, að þessi svæði hafa oft verið mjög tæpt sett og búin eru lítil, það lítil, að ef nokkuð er dregið saman hjá bændunum þar, geta þeir ekki lifað. Nú eru þessi hey, sem náðst hafa, svo léleg, að tapið er meira en 20%. Ef það væri athugað, kæmi í ljós, að heyin eru svo miklu lélegri en fyrr, að þar kemur a.m.k. 20% tap í viðbót. Þeir, sem þekkja til heyja, vita, að þetta hey er ekki hægt að bera saman við venjuleg hey, og leikur enginn vafi á, að tapið er miklu meira, og yrði því ekki bættur upp nema hluti þess tjóns, sem orðið er. Halda menn í raun og veru, að íslenzkir bændur viti ekki, hvað hefur skeð á Norður- og Austurlandi, eða þeir færu að efna til almennra samskota, ef þess væri ekki þörf? Þeir vita vel, hvernig stéttarbræðrum þeirra líður. Þar, sem hey hafa náðst, þarf ekki að segja neinum bónda það, hvernig þau eru orðin um veturnætur, þegar snjóað hefur í langan tíma í sáturnar. Þið getið hugsað ykkur, að næring þess er ekki mikil, þó að hægt sé að nota það sem magafylli. Reiknað hefur verið með þessum heyfeng, en nú kemur í ljós, að mikill hluti hans er gersamlega ónýtur. Heyin eru svo léleg, að skepnur éta þau ekki. Við, sem eitthvað höfum verið við búskap, vitum, hvaða tjón bændur bíða við að gefa þennan rudda. Enn er ekki reiknað með því, hvaða afleiðingar það hefur að gefa slíkt hey heilan vetur. Áreiðanlega vitum við allir, að óþurrkar af þessari tegund hafa ekki komið í hálfa öld, og ekki undarlegt, að það hafi alvarlegar afleiðingar þar, sem votheyshlöður eru ekki til. Einn hreppur í Suður-Þingeyjarsýslu, sem hefur votheyshlöður fyrir verulegan hluta heysins, fær enga hjálp. En á óþurrkasvæðunum er lítið um votheyshlöður, og er ekki hægt að lá bændum það. Útreikningur hefur verið gerður um, að kostnaður við að gera votheyshlöður fyrir helming heyja landsmanna yrði um 32 millj. kr. í erlendum gjaldeyri.

Eftir þeim upplýsingum, sem ég hef getað aflað mér, og eftir því, sem ég bezt veit, er ég sannfærður um, að hjálpin er sanngjörn og má ekki minni vera. Því get ég greitt atkv. með þessu, og hjálpin er ekki meiri en sú, sem veitt hefur verið öðrum stéttum undir svipuðum kringumstæðum. Nákvæmlega eins er með sjómenn og verkamenn í þorpum, þeir geta ekki lifað án stuðnings frá landbúnaði um leið. En eiginlega er það leiðinlegt, að menn skuli nú vilja hnýta öðru við þessi bráðabirgðalög. Aldrei hefur verið hnýtt neinu nýju við, þegar um aðstoð við sjávarútveginn hefur verið að ræða.