26.10.1950
Sameinað þing: 9. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 130 í D-deild Alþingistíðinda. (3961)

40. mál, vélræn upptaka á þingræðum

Flm. (Þorsteinn Þorsteinsson) :

Herra forseti. Ræður þessar hafa nú staðið um stund, og ég sé ekki ástæðu til að lengja mikið umræður. Hæstv. forseti Ed. gat þess, að forsetar Alþ. hefðu þetta mál til athugunar og ættu þeir að geta verið fljótir að ganga frá málinu. Og ef hv. allshn. skilar því fljótlega frá sér, þá geri ég ráð fyrir, að það tæki ekki langan tíma, unz hægt verður að byrja með þessa tilhögun í annarri deildinni nú þegar á þessum vetri. Þegar hefur verið gerð tilraun með þetta í efri deild og hún riðið þannig á vaðið, og án þess ég vilji fara út í nokkurn meting á milli deildanna, þá tel ég eðlilegt, að hið nýja fyrirkomulag verði tekið upp þar fyrst, þar sem líka er minna starf og auðveldara að koma tækjunum þar fyrir. Þetta mætti gera þegar á þessum vetri og spara með því kostnað við þá deildina. — Annars hefur lítið verið talað um till. okkar. Þó hneykslaðist hv. 8. landsk. mjög á því, að við segðum að það væri dýrt að prenta umræðupart Alþt. Ég er nú þó ekki horfinn frá þeirri skoðun, sannast að segja. Eftir því sem ég kemst næst, mun nú kostnaður við þá prentun vera kominn á annan milljónarfjórðunginn, þótt ég geti ekki nefnt þar nákvæmar tölur, og við smábændur teljum það enn þá nokkurt fé. Annars vil ég segja, að hugmynd mín var sú, að það væri nauðsynlegt, að fólk gæti fylgzt með því, sem gerist á Alþingi, og fengi í hendur þingtíðindi þannig úr garði gerð, að þau yrðu lesin. En ef langar ræður reka hver aðra, þá lesa menn þær ekki yfirleitt. Hitt mundi mönnum þykja árennilegra og fremur festa sér í minni, ef menn fengju í hendur ágrip af þingræðum vel gerð og mundu þá fylgjast betur með þingstörfum en ella. Ég játa, að það væri nokkur vandi að gera slíkan útdrátt úr ræðum þingmanna, en ef það tækist sæmilega, hygg ég, að stórt spor væri þar með stigið í þá átt að venja þjóðina á að lesa þingtíðindin. Annars er það svo um ýmis stærri mál, eins og þegar þingmenn fara í eldhúsið eða stjórnarbyltingar verða tvisvar á þingi, að þessu er þá útvarpað og menn hafa ókeypis aðgang að ræðum þingmanna og heyra þá einnig rödd þeirra, og þetta útvarp gerir það að verkum, að menn verða heldur minna áfjáðir í að lesa þingtíðindi en ella mundi, svo óaðgengilegt og síðbært lesmál sem þau eru. Hins vegar gæti ég trúað, að ef útdráttur væri gerður af þingtíðindum, þá væri það ekkert óaðgengilegt fyrir útgefendur að fá rétt til að gefa þau út svo gerð, og sú útgáfa kostaði þannig ekkert fyrir ríkissjóðinn. En hitt er ég í vafa um, hvort bókaútgefendur vildu taka öll þingtíðindin upp á sína arma. Þetta liggur vitaskuld fyrir hv. n. að athuga eins og annað.

Hv. þm. N-Þ. sagði m. a. í ræðu sinni, að það væri annað að skrifa niður ræðu eða tala. Þetta fer nú raunar stundum saman, því að ég álít, að samvizkusamir þingmenn hafi það til að skrifa niður framsöguræður sínar, sem þannig eru svo haldnar sem upplestur á rituðu máli; en á framsöguræðum byggist líka oft skilningur þingmanna á ýmsum vafasömum atriðum mála. — Ég ætla annars ekki að fara að deila við menn um þetta mál; en ég vil endurtaka þá ósk mína, að málinu verði vísað til hv. allshn.umr. lokinni.