26.10.1950
Sameinað þing: 9. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 131 í D-deild Alþingistíðinda. (3962)

40. mál, vélræn upptaka á þingræðum

Gísli Guðmundsson:

Herra forseti. Aðeins örfá orð. Ég er enn sömu skoðunar og áðan, að réttast sé að spara þessa milljón, sem það kostar að gefa út ræðupart þingtíðinda, að því er hv. flm. upplýsti. (ÞÞ: Ég sagði á annan milljónarfjórðung.) Já, hvort sem það er nú ½ milljón eða 1 milljón. Ég held nú annars, að milljón hljóti að vera of lágt áætlað. En hvort sem er, þá held ég, að réttast væri að spara það fé, þar sem árangur af útgáfu Alþingistíðinda er ekki meiri en raun er á. En um það virðast flestir sammála, að ræður manna í þingtíðindum séu lítið lesnar í landinu. Það kann að vera von um, að þær yrðu lesnar af fleirum, ef þær væru teknar á stálþráð og þingtíðindin gefin út fyrr en nú tíðkast; en ég hef samt ekki mikla trú á, að menn læsu þær almennt nú, þótt svo væri á 19. öld.

Hv. 1. þm. N-M. sagði m. a., að þingskjöl, svo sem grg. fyrir frv. og nál., gæfu ófullkomnari hugmynd um málin en þingræðurnar, sumpart vegna þess, að það tíðkaðist ekki, að greinargerðir fylgdu með brtt. — Ég sé nú ekki, hvað ætti að vera því til fyrirstöðu að taka upp þann hátt, að grg. séu látnar fylgja brtt. Sjálfsagt yrði að setja einhverjar reglur um lengd þeirra grg. En þetta ætti að vera vel framkvæmanlegt og mundi ekki lengja skjalaplöggin nema um brot af ræðupartinum.

Annars er það eitt, sem mér kemur til hugar í sambandi við þetta, en það er um aðra röðun á þingskjölum en nú tíðkast. Nú er skjalapartur Alþt. gefinn út jafnóðum, og skjölin þar í þeirri röð, sem þau fá við framkomu á þinginu. Hitt væri þó, hygg ég, aðgengilegra, að raða þeim eftir málum, þannig að öll þingskjöl í sama. máli væru á sama stað. Svo raða t. d. þingmenn málskjölum á borðum sínum í þingsölum. Þetta þýðir að vísu, að ekki er hægt að prenta þennan hluta þingtíðinda fyrr en þingi er lokið, en ég sé ekki, að það saki mikið. Og ég er þeirrar skoðunar, að skjalaparturinn ætti að geta verið fullnægjandi sem þingtíðindi, en fella beri niður prentun þingræðna.