22.02.1951
Sameinað þing: 45. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 133 í D-deild Alþingistíðinda. (3972)

40. mál, vélræn upptaka á þingræðum

Þorsteinn Þorsteinsson:

Herra forseti. Ég vil þakka hv. allshn. fyrir afgreiðslu málsins, þótt hún hefði gjarnan mátt vera hraðari en raun hefur orðið á. Ég sé, að það er ýmislegt, sem n. hefur þurft að athuga og getur verið þungt í vöfunum, þar sem tæki hafa ekki verið við höndina til þess að athuga hina vélrænu upptöku og margt fleira hefur verið til trafala í störfum n. En þar sem fyrirtæki eitt hefur boðizt til að útvega tæki til upptöku á þingræðum til reynslu, eftir því sem n. segir, vænti ég þess nú, að forsetar þ. láti hendur standa fram úr ermum hvað þetta mál snertir og komi því í framkvæmd, reyni þetta tæki og kannske fleiri tæki, sem hægt verður að ná í, og undirbúi svo málið þannig, að það verði sannreynt fyrir næsta þ., hvort þetta sé bezta aðferðin eða ekki. Ég sé, að hv. allshn. er sammála okkur flm. um, að umbóta sé þörf á því fyrirkomulagi, sem er á þingskriftum, og í því trausti, að forsetar Sþ. sem og hinir aðrir deildarforsetar gangi rösklega fram í þessu fyrir næsta þ., þannig að komið verði á nýju fyrirkomulag varðandi þingskriftir, ef mögulegt er, hvað sem ofan á kann að verða, lýsi ég yfir, að eins og nú er komið málum, mun ég greiða atkv. með rökst. dagskránni, þegar hún verður borin undir atkv.