08.11.1950
Sameinað þing: 12. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 133 í D-deild Alþingistíðinda. (3977)

73. mál, loftskeytastengurnar á Melunum í Reykjavík

Flm. (Jóhann Jósefsson) :

Herra forseti. Eftir að ýtarlegar umræður höfðu farið fram á síðasta ári milli fulltrúa frá flugmálastjórninni og landssíma Íslands um þetta verk, loftskeytastengurnar á Melunum og brottflutning þeirra, flutti ég þáltill. hér á Alþ. á þskj. 648 um þetta mál og rökstuddi ýtarlega þörf þess að nema brott þennan farartálma fyrir flugvélar. Sú till. varð ekki útrædd, en samþ. var á fjárlögum heimild fyrir ríkisstj. til að framkvæma þetta verk, og var það því sama sem samþ. þáltill. og þingvilji fékkst látinn í ljós. Nú hefur ekkert verið aðhafzt, svo að ég viti, og farartálminn sá sami og áður. Um þá hættu geta þeir bezt dæmt, sem við flugmál eru riðnir. Sumir hafa snúið sér til flugmálastjórnarinnar hvað eftir annað, og sumir hafa skrifað í blöðin um þetta mál hvað eftir annað, og sá maður, sem fer með yfirstjórn þessara mála og ætti að vera þeim bezt kunnugur, flugvallastjóri, hefur haft þau orð um þetta, að hættan væri ægileg. Ég hygg, að varla verði kveðið fastar að orði. Og ég ætla, að sá maður ætti að hafa þá þekkingu í þessum efnum, að hans orð verði að nokkru metin. Mér virðist grípa menn mikill uggur og kviði, þegar eitthvað bjátar á fyrir flugvélum ekki síður en þegar eitthvað hendir skip. En það er stundum eins og það ríki eitthvert sinnuleysi í því efni að nema brott þá farartálma, sem slysum geta valdið, og það jafnvel eftir að slys hefur orðið.

Nú er það svo, að sýnt var fram á á síðasta þingi, að þörf væri skjótra ráðstafana. Síðan þetta gerðist, hefur önnur ástæða komið fram varðandi flugumferðina, sem herðir enn meir á því, að ekki sé hafður slíkur farartálmi við inn- eða útflug af vellinum, og það er bygging stefnuvitans á Seltjarnarnesi. Fyrir nokkrum mánuðum var þessi stefnuviti byggður og er orðinn nothæfur, en hann á að gera það nokkurn veginn öruggt, að flugvélar geti nálgazt Reykjavíkurflugvöll í svo að segja hvað dimmu veðri sem er. En stefnuvitinn einn út af fyrir sig er ekki nægilegur. Til þess að af honum verði full not er nú til á vellinum sérstakur ljósaútbúnaður á þeirri flugbraut, sem liggur oftast nær næst við að nota, og hún mun vera hér kölluð suðaustur-flugbrautin, en heitir 1–4 á tæknimáli flugþjónustunnar. Þessi útbúnaður er þannig, að stefnuvitinn á að vera leiðbeinandi um öruggt flug að vellinum, en síðan, þegar komið er niður í hæfilega hæð, eiga hin sterku ljós, sem hafa verið sett á flugbrautina 1–4, — sem auðveldast er og fljótlegast að nota með aðstoð stefnuvitans á Seltjarnarnesi, af því að sú stefna liggur beint inn á þessa flugbraut, og aðfljúgandi vélar geta þá sparað þann tíma, sem annars færi í hringflug til að ná inn á þessa braut, — þessi sterku ljós eiga að taka við og leiðbeina flugvélunum við lendingu. En sá mikli kostnaður, sem flugmálin hafa tekið á sig til þess að koma upp þessum stefnuvita og þessum sérstaka ljósaútbúnaði, hefur enn sem komið er ekki komið að notum nema að litlu leyti, vegna þess að þegar myrkur er á annað borð, þarf flugvélin að komast í mikinn námunda við flugvöllinn til að hafa fullt gagn af þessum ljósum, sem hér hafa verið sett upp sérstaklega til leiðbeininga við dimmviðrislendingar, en þá baga loftskeytastengurnar. Hættan af þeim ónýtir því umræddar öryggisráðstafanir. Einn af okkar elztu og reyndustu flugmönnum hefur sagt mér, að það sé tæplega hægt að hafa gagn af þessum ljósum án þess að lækka sig niður í tæp 400 fet, en þá kemur það til greina, að þegar ekkert sést á annað borð, þar til ljósin verða sýnileg á vellinum, þá nægir það ekki af öryggisástæðum, þótt stefnuvitinn sýni rétta stefnu, vegna þess að það er vitanlegt að hér eru þessar háu stengur, sem skaga langt upp í loftið, og það er ekki vogandi að dómi reyndra flugmanna að lækka sig svo mikið, að þeir geti haft gagn af lendingarljósunum. — Þetta er það, sem hér bætist við til að rökstyðja þá nauðsyn, sem fyrir er til að nema í burtu stengurnar, sem eru réttnefndur farartálmi og hann mjög hættulegur fyrir flugið. Ég þykist vita, að ég sé ekki að segja þeim, sem með þessi mál fara, neitt af því, sem þeir viti ekki, en ég hef hér viljað fram telja þær ástæður fyrir þörf þessa máls, sem hinir reyndustu meðal flugmanna okkar hafa sagt mér, og á ég þar við flugstjórana Þorstein Jónsson og Jóhannes Snorrason, auk þess sem allir flugmenn álíta stengurnar stórhættulegar, og hefur formaður flugráðs farið eins sterkum orðum um þessa hættu og ég tel að hægt sé.

Nú hef ég vakið máls á þessu enn, til þess að hæstv. ríkisstj. noti þá heimild, sem Alþ. hefur þegar veitt henni, til þess að nema stengurnar burtu. Það er gefinn hlutur, að þegar samþ. er heimild til handa ríkisstj. um verklega framkvæmd, þótt hún sé á 22. gr., þá er þar með samþykkt goldin til, að einhverju fé verði varið til að framkvæma verkið, og það er enginn, sem ætlast til, að ríkisstj. geri það á eigin kostnað. Mér er það mikið áhugamál, að endir verði bundinn á þetta mál, og vil taka fram, að ég lagði talsvert mikla vinnu í að láta gera rannsókn á því þann stutta tíma, sem ég fór með flugmálin. Þátt í þeirri rannsókn tóku bæði aðilar frá landssímanum og flugráði, og niðurstaða þessara aðila varð sú, að stengurnar væru óþarfar, þar sem þær væru, og hættulegt að hafa þær þar vegna flugsins. Það, sem þá stóð á, var að fá samþykki Alþ. fyrir, að í verkið væri lagt, og tel ég, að hún sé nú fengin með afgreiðslu síðustu fjárl. — Ég veit ekki, hvort ástæða er til að óska eftir að þessari till. verði vísað til n., þ. e. fjvn., eins og málið er vaxið. Alþ. hefur samþ. í fjárl. að ríkisstj. hafi heimild til að láta framkvæma þetta verk og till. sú, sem ég flyt hér nú, er aðeins til þess að skora á hæstv. ríkisstj. að nota þessa heimild. Ég ætla, að ég þurfi ekki að benda á, hvað fyrir gæti komið, ef stengurnar verða látnar vera við flugvöllinn ár eftir ár, og er þakkarvert meðan ekkert óhapp kemur fyrir. Það er því mjög íhugunarvert að bjóða ekki hættunni heim lengur með því að hafa stengurnar á þessum stað. Ég hef t. d. spurt Þorstein Jónsson flugstjóra, sem er manna fróðastur um flugmál, hvort hann viti til þess, að sams konar farartálmi sé við nokkurn flugvöll, þar sem hann hefur farið um, og svaraði hann því afdráttarlaust neitandi.

Ég skal svo ekki orðlengja um þetta frekar. Það kemur væntanlega í ljós, ef hæstv. ríkisstj. lætur sig málið skipta, af hvaða ástæðum heimildin hefur ekki verið notuð, en þótt gott sé að fá það upplýst, álít ég enn betra og legg mikla áherzlu á, að brottflutningi loftskeytastanganna á Melunum verði ekki lengur skotið á frest.