08.11.1950
Sameinað þing: 12. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 136 í D-deild Alþingistíðinda. (3978)

73. mál, loftskeytastengurnar á Melunum í Reykjavík

Viðskmrh. (Björn Ólafsson):

Herra forseti. Hv. þm. Vestm. er manna bezt kunnugt um það, að heimild á 22. gr. fjárl. er engin fjárveiting, og þess er ekki að dyljast, að ríkissjóður hefur ekki til þessa séð sér fært að leggja fram þá peninga, sem til flutningsins þarf. Skal ég ekki fara frekar út í það, en geri ráð fyrir, að hæstv. fjmrh. geri nánari grein fyrir því. Ég vil hins vegar fara nokkrum orðum um málið, vegna þess að mér skilst á hv. þm., að hann telji að hér væri um mikið sinnuleysi að ræða af hendi ríkisstj. eða þess ráðh., sem fer með þessi mál. Það eru allir sammála um, að nauðsynlegt sé að fjarlægja þessar stengur og koma þeim fyrir annars staðar. — Þetta mál kom fyrst til umr. árið 1947, er þáverandi flugmrh. fór fram á það í bréfi til póst- og símamálastjóra, að stengurnar yrðu fjarlægðar. Vorið 1949 hóf svo flugráð á ný máls á þessu, og áður höfðu verið haldnir margir fundir um það, eins og hv. þm. Vestm. tók fram. Hinn 7. febr. 1950 var boðað til fundar hjá þáverandi póst- og símamrh., Jóni Pálmasyni, og árangurinn af fundinum varð sá, að samþ. var að skipa n. til að athuga um flutning eða lækkun loftskeytastanganna. Þessi n. hefur verið að störfum síðan, og má kannske segja, að það hafi tekið hana óþarflega langan tíma að senda sitt álit, en mér barst í hendur álitsgerð hennar þann 21. okt. s. l. Hún er í stuttu máli þess efnis, að Rjúpnahæð sé eini staðurinn, sem eigi að flytja stengurnar á, ef til flutnings þeirra komi, og er áætlaður kostnaður við verkið 790 þús. krónur. N. gerir að sjálfsögðu engar aðrar till., enda mun þetta hafa verið það verkefni, sem henni var ætlað. Jafnframt þessu nál. bárust mér í hendur till. póst- og símamálastjóra þess efnis, að landssíminn mundi vilja taka að sér að kosta og sjá um flutning á stöngunum, ef sendararnir á Rjúpnahæð verði yfirfærðir til landssímans sem hans eign, og ef tveggja ára leiga af Rjúpnahæð, 200 þús. krónur, renni til hans til þess að standa straum af kostnaði við verkið, og verði það þá unnið svo fljótt sem unnt er, ef veður og önnur skilyrði leyfa. Þetta kostar þá ríkið beint um 400 þús. króna, og mundi landssíminn þá greiða afganginn, með því móti að þessar vélar á Rjúpnahæð yfirfærist sem hans eign. Þessar till., sem mér bárust 21. okt., eru nú í athugun, og verður því flýtt eins og hægt er að komast að endanlegri niðurstöðu, sem leitt gæti til þess, að flutningur stanganna kæmist í framkvæmd. Ég er þess mjög hvetjandi, að þetta geti orðið, en málið stendur svona, og ég kann ef til vill síðar að geta gefið hv. þm. nánari upplýsingar um þetta, áður en mjög langur tími er liðinn.