05.12.1950
Neðri deild: 33. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 117 í B-deild Alþingistíðinda. (398)

24. mál, aðstoð til bænda á óþurrkasvæðunum

Gísli Guðmundsson:

Herra forseti. Ég ætla ekki að vera langorður um málið, sem er til umræðu, en ég kvaddi mér hljóðs vegna þess, að hv. þm. Hafnf. var að skýra frá viðtali við bónda í Norður-Þingeyjarsýslu, en viðtalið birtist í Degi 45. nóv. s.l. Af því vildi hv. þm. draga vissar ályktanir varðandi ástandið í þessari sýslu, sem um er rætt. Ég vil benda á, að fréttir bóndans gefa ekki til kynna ástandið í þessari sýslu, heldur í einni sveit, sem var ekki með þeim verstu. Ég átti tal við þennan bónda hér í Reykjavík fyrir skömmu, og sagði hann, að í þessum ummælum, sem birzt höfðu, væri ekki komizt rétt að orði. Í fyrsta lagi hefði orðið tíðarbreyting um veturnætur, og í öðru lagi var ekki rætt um nema þann sveitarhluta, sem hann er búsettur í. Þarna hafa bændur komið sér upp votheysgryfjum, sem þeir hafa flestir. Auk þess hafa þeir súgþurrkun, en því miður eru þeir fáir. Þessir bændur fóru nokkru betur út úr óþurrkunum en bændur annars staðar. En af þessu ástandi eru engar ályktanir dregnar. Það er kunnugt, að ástandið í sýslunum var misjafnt. Í sumum sveitum var það svo, að það hirtist bókstaflega ekkert allt sumarið, ekki fyrr en eftir veturnætur. Þá komu þurrkar og menn náðu allverulegu af heyjum. En það er hægt að ímynda sér, hvernig hey er, sem slegið er í júli eða ágúst og liggur fram til veturnótta, hvaða næringargildi það hefur. En það getur samt komið að gagni með fóðurbæti, þótt það sé einskis virði sem fóður. — Nú ætla ég ekki að hafa þessi orð fleiri, en nefni þetta vegna ummæla hv. þm. Hafnf.