08.11.1950
Sameinað þing: 12. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 140 í D-deild Alþingistíðinda. (3981)

73. mál, loftskeytastengurnar á Melunum í Reykjavík

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson) :

Herra forseti. Ég er alveg sammála hv. þm. Vestm. um það, að öryggisráðstafanir í flugmálunum eigi að sitja fyrir öðru í þeim efnum. Og þann stutta tíma, sem ég hef haft með þessi mál að gera í ríkisstj., hef ég fylgt þeirri stefnu og hvatt flugráð til að gera tillögur, sem miðaðar væru við það. Þess vegna held ég, að það hefði verið skynsamlegra að vera búinn að verja einhverju af fé, sem varið hefur verið til flugmála, einmitt til þess að fjarlægja þessa hættu, sem hér er um að ræða, og knýja landssímann til þess að leggja fram eitthvert fé þar á móti. En það er náttúrlega tómt mál að tala um slíkt nú, og sleppi ég því frekar.

Hv. þm. Vestm. sagði, að sér hefði þótt verra að heyra þá yfirlýsingu mína, að ég teldi ekki fært að nota fjárgreiðsluheimild fjárl. til flugmálanna í þessu skyni, án þess að taka það fé frá flugmálunum að öðru leyti, og sagði, að hér væri mikið í húfi og að það þyrfti að hægja stórkostlegri hættu frá. Ég bendi á, að tillögur um það, hvernig þessu verði haganlegast fyrir komið, eru nýlega gerðar, og að ríkissjóður hefur ekki fé til þess að standa undir því, sem beinlínis er ákveðið á fjárl. Það er því hér úr vöndu að ráða. En höfuðatriðið frá mínu sjónarmiði í þessu efni er það, að ef Alþ. lítur svo á, að þessa framkvæmd verði að gera, þá verður að setja fjárhæðina á fjárl. sjálf og horfast í augu við hana þar, en ekki á heimildargr. Og þetta er mitt sjónarmið, að ef háttv. alþm. komast að þeirri niðurstöðu sem mér þykir líklegt eftir upplýsingum, sem gefnar hafa verið, að þessi framkvæmd megi ekki dragast, verður að koma með þetta á fjárlög, annaðhvort á þá gr., þar sem veitt er fé til flugmála, eða annars staðar. Og ég sé ekki að þetta sjónarmið mitt muni tefja málið, enda mun það sýnt, að flugráð mun hafa tillögur um þetta á takteinum.