10.12.1950
Neðri deild: 33. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 118 í B-deild Alþingistíðinda. (399)

24. mál, aðstoð til bænda á óþurrkasvæðunum

Landbrh. (Hermann Jónasson):

Herra forseti. Ég ætla ekki að bæta miklu við þetta mál. Það þarf ekki að endurtaka, að hér á þinginu hefur verið veitt fjárhagsaðstoð ár eftir ár vegna síldarleysis, og nú er hér á þinginu till. um aðstoð við vélbátaútveginn, sem telja má raunverulega hliðstæðu þessa, sem hér liggur fyrir. Viðkomandi ástandinu á Vestfjörðum, þrátt fyrir aðstoðina til sjávarsíðunnar, vil ég segja þetta: Sjálfsagt stafar þetta að verulegu leyti af aflabresti, a.m.k. er það svo norður við Húnaflóa, þar sem tæpast hefur fengizt bein úr sjó, t.d. er ástandið mjög slæmt af þessum sökum á Hólmavík. Það er ekki heldur þess að dyljast, að það hefur vitanlega einnig haft áhrif á atvinnuástandið á Ísafirði, að togarinn, sem þeir gera út, stöðvaðist um langan tíma. En þegar hv. þm. Ísaf. talar til ríkisstjórnarinnar viðvíkjandi þessu atriði, þá veit hann vel sjálfur, að jafnframt því, sem ég ber fram till. um hjálp til landbúnaðarins, sem er á fullum rökum byggð, þá er ekki eðlilegt að snúa sér til mín viðvíkjandi ástandinu á Vestfjörðum, nema sem þingmanns Strandamanna. Það er vitanlega sjútvmrh., sem ber að ræða það mál við. Það er ekkert því til fyrirstöðu, að það mál verði tekið fyrir sérstaklega, og það liggur hér fyrir till. um það. Það er hægt að taka afstöðu til þessa máls án þess að setja það í samband við hitt og hafa sömu vinnubrögð við bæði. Ég hef lýst því yfir, að ég er reiðubúinn að taka upp umræður um þetta í ríkisstj., að sjálfsögðu undir forsæti þess ráðherra, sem fer með þau mál. Mér er það alveg ljóst, að ef þessu fer fram við Húnaflóa, þar sem er sérstakt aflaleysi meira en menn þekkja um langan tíma; þá verður að taka það til athugunar, en það er ekki fyrst og fremst leiðin að hnýta því við þetta mál eða snúa sér til mín, það verður að ræða við sjútvmrh.