18.10.1950
Sameinað þing: 6. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 160 í D-deild Alþingistíðinda. (4012)

25. mál, friðun rjúpu

Viðskmrh. (Björn Ólafsson) :

Herra forseti. Ástæðan fyrir því, að ég hef ekki að svo stöddu sett þessa reglugerð, sem þál. fer fram á, er ekki sú, að ég vilji ekki fara að vilja Alþ. í þessu efni. Það eru til þess tvær ástæður. Í fyrsta lagi sú, að samkvæmt þeim l., sem um þetta gilda, þá getur verið álitamál, hvort hægt er að fara eftir þál. Og í öðru lagi, að ég taldi, að málið mundi ekki vera nógu vel athugað af þm., og þær upplýsingar, sem síðan hafa komið fram í grg. þess manns, sem hefur með þetta að gera, hafa brugðið upp nýju ljósi fyrir þm. í þessu efni.

Í l. frá 1924, nr. 27, segir svo: „Nú fækkar rjúpunni svo, að ástæða þykir til þess að friða hana allt árið, og er þá ríkisstj. heimilt að skipa svo fyrir með reglugerð um eitt ár í senn.“ Lögin taka fram, að ekki sé hægt nema eitt ár í senn að skipa fyrir um friðun rjúpunnar, og enn fremur, að ef rjúpunni fækkar svo, að ástæða þyki til að friða hana allt árið, þá sé hægt að gera þetta, en af því leiðir, að ef rjúpunni fjölgar, þá er ekki hægt samkvæmt l. að setja slíka reglugerð. Það má segja, að það sé kannske erfitt að ákveða um það, hvenær rjúpunni tekur að fjölga, en þó virðist mér samkvæmt upplýsingum, sem liggja nú fyrir, að það megi slá því föstu, að rjúpunni hafi nú þegar fjölgað, þrátt fyrir það að hún hefur ekki verið friðuð. Þetta mál, sem hér um ræðir, er ekkert hitamál af minni hendi. Hér vakir vafalaust það sama fyrir mér eins og hv. flm. Það, sem vakir fyrir okkur, er það, að hægt sé að hafa sem mest not af þessum nytjafugli með því að koma í veg fyrir útrýmingu hans. Þeir halda því fram, að útrýmingin byggist á því, að fuglinn sé skotinn of mikið, en náttúrufræðingarnir halda fram, að ástæðan sé alls ekki sú, heldur sé fækkun og fjölgun rjúpunnar háð vissum náttúrulögmálum, svokölluðum sveiflum, þannig að fjölgun og fækkun gangi fyrir sig á vissu árabili, sem þeir vilja halda fram að sé 8–10 ár. Þetta er sama reynsla hér og annars staðar með svipaðar fuglategundir eins og hér, svo að þetta er ekki nein ný kenning, sem hér er verið að halda fram. Það, sem mestu skiptir í þessu efni, er að fá úr því skorið, hvort þessi kenning er rétt eða hvor kenningin er réttari, vegna þess að náttúrufræðingar halda því fram, að friðun geti verið skaðleg. Þess vegna er það, sem fyrir mér vakir í þessum efnum, ekkert annað en það, að fá úr því skorið, hvort það er rétt, sem vísindamenn halda fram í þessum efnum, að friðun hafi engin áhrif á stofninn. Þetta er hægt að gera að mínu álíti aðeins með tvennu móti: með því að friða rjúpuna ekki næstu 2–3 árin og láta hana vera ófriðaða þann tíma og sjá, hvort sú kenning stenzt, að þrátt fyrir það að rjúpan sé ófriðuð, þá vaxi stofninn á þessu tímabili; eða í öðru lagi, að rjúpan sé friðuð í 10 ár, og á því tímabili væri líka hægt að fá úr því skorið, hvort þessi kenning er rétt. En ég vil benda á í því sambandi, að sá agnúi er á þessari leið, að þegar farið er að bera greinilega á því, að rjúpunni fjölgi mikið, þá er ákaflega mikil hætta á því, að slík fyrirmæli yrðu numin úr gildi, vegna þess að þá mundi verða svo mikil ásókn í það að geta haft einhverjar nytjar af rjúpunni. Virðist það í heild óeðlilegt, en þó eru líkur til, að það sé eina leiðin til þess að fá úr skorið um þær kenningar, sem hér um ræðir.

Þeir, sem hafa lesið álitið, munu hafa rekið augun í það, sem er sagt frá þeim rannsóknum, sem gerðar hafa verið í Ameríku um svipaða fuglategund og rjúpuna, þar voru gerðar mjög umfangsmiklar rannsóknir á þessari fuglategund, sem tóku 13 ár, til þess að ganga úr skugga um, hvernig þessu væri varið með þær sveiflur, sem væru á viðkomu stofnsins. Niðurstaðan af þessum rannsóknum varð m. a. sú, að þeir halda því fram, þessir vísindamenn, að rýrnun stofnsins vegna veiða hafi ekki verið nema 17% og veiðar hafi ekki nein áhrif á fjölgun eða fækkun fuglsins. Niðurstöður vísindamanna af þessum rannsóknum, sem víða hafa verið gerðar, þar sem stendur svipað á og hjá okkur með rjúpuna, þær eru í fáum orðum þær, að sveiflurnar stafi ekki af ofveiði og að alfriðun fugla geti ekki komið í veg fyrir sveiflurnar. Þeir segja meira að segja, að alfriðun geti haft skaðleg áhrif að því leyti, að stofninn nær óeðlilegri fjölgun, sem svo aftur lyktar í óeðlilegu hruni.

Ég skal ekki fara lengra út í þetta frá vísindalegu sjónarmiði. Þeir, sem hafa lesið þetta álit dr. Finns Guðmundssonar, hafa fengið mjög glöggt yfirlit um málið allt. Það, sem ég tel mestu máli skipta, er að fá úr þessu skorið, og til þess að fá úr þessu skorið þarf að láta rjúpuna vera ófriðaða næstu 3 ár. M. ö. o., það er stefnt með þessu að því að öðlast réttan skilning á þeim sveiflum, sem koma fram á stofninum í áratugi og jafnvel hundruð ára. Menn hafa tekið eftir því, hvernig stofninn hagar sér, en það hafa aldrei komið fram neinar skýringar, sem hægt sé að telja óyggjandi, a. m. k. ekki hér á landi, vegna þess að slíkar rannsóknir hafa aldrei verið gerðar, og ég tel það enga hættu fyrir rjúpnastofninn, þó að þessi tilraun væri gerð, að rjúpan væri ófriðuð næstu 3 ár, og séð hvað gerðist. Ef þingið að fengnum þeim upplýsingum, sem hér liggja fyrir, samt sem áður samþykkir að friða rjúpuna næstu 5 ár, þá mun ég að sjálfsögðu fara eftir því, að svo miklu leyti sem þau l. heimila, sem um þetta efni eru. En eins og ég gat um í byrjun, þá er vafasamt, hvernig hægt er að framkvæma ályktunina, ef það sýnir sig, að fjölgun rjúpunnar verður nokkuð mikil, a. m. k. er ekki hægt að fyrirskipa friðun nema eitt ár í senn.