18.10.1950
Sameinað þing: 6. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 165 í D-deild Alþingistíðinda. (4016)

25. mál, friðun rjúpu

Landbrh. (Hermann Jónasson) :

Í framhaldi af till. forsrh. vil ég leggja til, að athuguð verði þau lagaákvæði, sem nú gilda um þetta mál, og að hve miklu leyti þau geta verið grundvöllur að reglugerð um þetta efni.

Í lögum nr. 27 frá 4. júní 1924 segir svo : „Rjúpur skulu alfriðaðar á tímabilinu frá 1. jan. til 15. okt. ár hvert. Nú fækkar rjúpunni svo, að ástæða þykir til þess að friða hana allt árið, og er þá ríkisstjórninni heimilt að skipa svo fyrir með reglugerð um eitt ár í senn.“ Nú vita það flestir, sem ferðazt hafa nokkuð að ráði, að rjúpunni hefur fjölgað meira í ár en nokkru sinni áður. Og það er ekki bægt annað en hugleiða þá rannsókn, sem gerð hefur verið erlendis. Í Noregi og Rússlandi er um svipaðar sveiflur á rjúpnastofninum að ræða og hér. Í Noregi hafa heyrzt raddir um, að rjúpan hafi farið til Íslands eða Rússlands; í Rússlandi, að hún hafi farið til Noregs; og hér hafa menn látið sér detta í hug, að hún færi til Grænlands. Alls staðar er hér um sama fyrirbrigðið að ræða. Máske er þetta ekkert óeðlilegt. Rjúpan eykur kyn sitt ört, þar eð hún á allt að 12 eggjum á ári, og gæti því náttúran haft það ráð að fækka henni annan sprettinn. Spurning um þetta er uppi í öllum löndum og um það, hvort skyldir stofnar lúti sömu lögmálum. Hér hafa menn kennt harðindum um fækkun rjúpunnar, en nú hefur verið blíðviðri í áratug, og þá segja menn, að hún hafi farið til Grænlands, því að hér sé of mild veðrátta fyrir hana. Sýnir þetta, hve ímyndunaraflið getur hlaupið með menn í gönur, er menn fara að geta sér til um slíka hluti. — Ég er sammála menntmrh. um það, að rétt sé að hafa hana ófriðaða næstu 3 ár, eða þá friðaða í 10 ár, svo að vísindin geti komizt að frekari niðurstöðu um sveiflukenninguna, eða koma málinu þannig fyrir, að hægt verði að skera úr því, hvort þessar sveiflur 9 rjúpnastofninum eigi sér stað eða ekki. Fer ég svo ekki öllu fleiri orðum um þetta mál, nema ég vil geta þess aftur, sem ég drap á í upphafi, að það er ekki sterkur grundvöllur fyrir reglugerð í málinu og skilyrði fyrir því, að hægt sé að setja reglugerð um það, sem fái staðizt, vart fyrir hendi.