18.10.1950
Sameinað þing: 6. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 165 í D-deild Alþingistíðinda. (4017)

25. mál, friðun rjúpu

Flm. (Jón Pálmason) :

Það hafði orðið að samkomulagi á milli mín og menntmrh. að leggja ekki til, að þessi till. færi til nefndar, og varðandi uppástungu forsrh., þá er ég fyrir mitt leyti á móti henni. En því óska ég eftir því, að málið fari ekki í nefnd, að nú er hamazt við að skjáta rjúpuna, því að það eru fleiri en hæstv. landbrh., Hermann Jónasson, sem vilja komast á veiðar; og því fremur legg ég áherzlu á þá ósk, að afgreiðslu málsins verði hraðað, að bréf um þetta frá menntmrh. var lesið upp í útvarpinu í gærkvöld, og varð það til þess að vekja alla þjóðina til þessa máls. Hafði ég þó lagt svo fyrir þingfréttaritara, að hann segði ekki frá gangi málsins á þessu stigi, því að ég veit, að fjöldinn allur álítur samhljóða fyrirmæli Alþingis gilda sem lög og að frá þeim verði ekki vikið. Og þrátt fyrir þennan drátt á afgreiðslu málsins, þá hefðu menn ekki hafizt handa um að fara að skjóta rjúpuna, fyrr en Alþingi hefði tekið ákvörðun í málinu, ef útvarpið hefði ekki gripið þarna inn í. Að sjálfsögðu munu atkvæði skera úr því, hvort málið fer í nefnd eða ekki, en fari það í nefnd, þá vænti ég, að hún afgreiði það fljótt, því að það er engin ástæða til að fresta ákvörðun.

Eitt atriði úr ræðu menntmrh., sem fékk undirtektir hjá öðrum ráðherrum, vildi ég minnast á. En það er sú staðhæfing, að ef rjúpan yrði ófriðuð næstu 3 árin, þá fengist úr því skorið, hvort sveiflukenningin væri rétt eða ekki. Þetta vil ég vefengja. Ég trúi ekki, að þótt rjúpan yrði ófriðuð í næstu 3 ár, fengist fullnægjandi svar um það efni, því að þessa kenningu mun erfitt að sanna. Náttúrlega er það svo, að það, sem landbrh. sagði hér, er það eina hugsanlega til þess að gera það líklegt, að það sé eitthvert vit í þessari kenningu, þ. e. að rjúpan sé farfugl, því að það verður að vera einhver grundvöllur til þess að rjúpunni fjölgi, því að henni fjölgar ekki á yfirnáttúrlegan hátt.