18.10.1950
Sameinað þing: 6. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 168 í D-deild Alþingistíðinda. (4022)

25. mál, friðun rjúpu

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Muni ég rétt, þá fékk þetta mál þá afgreiðslu í vor, að það var samþ. með 27 atkv. móti mínu atkv., svo að það var ekki mikill meiri hl. fyrir því á Alþ. þá. — Ég vil þakka hæstv. menntmrh. fyrir það að flana ekki að því að setja reglugerð þvert ofan í l., þó að Alþ. samþ. þessa þál. með þessum litla meiri hl., því að það er ótvírætt, að við getum ekki friðað rjúpuna nema þegar henni er að fækka en það er ótvírætt, að henni er nú að fjölga. Ég lít þess vegna þannig á, eins og í fyrra, að það sé misráðið að ganga ekki úr skugga um það, hvort það eru til staðar sömu orsakirnar og annars staðar hjá þeim fuglum, sem villtir lifa af hænsnaflokknum, og það er upplagt að gera það hér. Það er verið að tala um, að rjúpan fari til Grænlands, en það eru aldrei rjúpur í Grænlandi af íslenzka rjúpnastofninum.

Hv. þm. A-Húnv. telur, að kenning sú, sem hér um ræðir, sé ekki nein vísindamennska. Náttúrlega má deila um það, hvað sé vísindamennska. Vísindin reyna að finna orsakirnar fyrir hlutunum. Þau eru búin að finna þá staðreynd, að fuglum af rjúpnastofninum, sem villtir lifa yfirleitt í heiminum, fækkar og fjölgar til skiptis, en þau eru ekki búin að finna orsakirnar. Það eru tvær kenningar um það, og er reynt að útskýra þær fyrir hv. þm. í álitinu. Þær geta báðar staðizt, og þess vegna er ekki enn þá búið að finna vísindalegar orsakir fyrir þessari fjölgun og fækkun á víxl á þessum stofni, og reyndar fleiri stofnum. Sterkar líkur eru fyrir því, eftir því sem skýrt er frá á blaðsíðu 8 í álitinu, að rjúpan fylgi sama lögmáli og villtir fuglar af sama stofni annars staðar.

Ég vil mæla með því fyrst og fremst, að málinu sé vísað til n., því að sennilega þarf að breyta l., svo að hægt sé að búa til reglugerð, sem á stoð í l., því þó að hæstv. ráðh. hefði gefið út reglugerð um þetta, þá hefðu menn getað skotið þegjandi og hljóðalaust fyrir reglugerðinni, því að hún hefði ekki átt stoð í lögum.