18.10.1950
Sameinað þing: 6. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 168 í D-deild Alþingistíðinda. (4023)

25. mál, friðun rjúpu

Flm. (Jón Pálmason) :

Herra forseti. Mér kemur ekki á óvart, þó að hv. síðasti ræðumaður (PZ) sé á móti því að friða rjúpuna og vilji byggja á þeirri vísindamennsku, sem hér er verið að tala um, því að þau vísindi eru í sama farinu og hans karakúlvísindi, sem þjóðin hefur fengið reynslu af. En annars er það ekki það, sem gerði það að verkum, að ég kvaddi mér hljóðs, heldur hitt, að ég vil mótmæla því og held, að það sé alger misskilningur hjá hæstv. forsrh., að það sé byggt á ofstæki frá minni hálfu, að ég mælist undan því, að þetta mál fari til n. Það er búið fyrir tæpum 6 mánuðum að vera til rannsóknar í þessari sömu n. og var samþ. með samhljóða atkv., því að það er samkvæmt gerðabók þingsins afgr. með 27 shlj. atkv., hvað sem hv. 1. þm. N-M. minnir um þá atkvgr. Annars verða atkv. að skera úr um það, hvort málinu verður vísað til n.

Ég vil þakka hæstv. landbrh. fyrir það, að hann vill bjóða mér með sér á rjúpnaskyttirí. Ég býst við, að ég hafi það eitt upp úr því, að ég fengi að sjá, hvað hann er fimur að skjóta, — ég efast ekkert um að hann er það. Hitt er ósannað mál, þrátt fyrir hans ummæli, að rjúpurnar séu fleiri en þær voru í fyrrahaust um þetta leyti. En það, sem gerir það að verkum, að mönnum finnst vera meira af rjúpu nú, er það, að það harðnaði fyrr að nú en í fyrra. Þá var rjúpan uppi um öll öræfi, en nú leitar hún niður í byggð vegna snjóa.

Ég vænti svo, að það geti farið fram atkvgr. um málið.