24.10.1950
Sameinað þing: 8. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 169 í D-deild Alþingistíðinda. (4027)

25. mál, friðun rjúpu

Frsm. meiri hl. (Jóhann Jósefsson) :

Herra forseti. Allshn. hæstv. Alþ. fékk til umsagnar sem fyrsta mál þessa till. til þál. um friðun rjúpu, er hljóðar svo: „Alþingi ítrekar ályktun sína frá síðasta þingi um alfriðun rjúpu næstu 5 ár.“ Í grg. till. kemur það fram, sem vitað er, að á síðasta Alþ. var samþ. án mótmæla að fela ríkisstj. að alfriða rjúpuna hér á landi næstu fimm ár. Þá segir enn fremur í grg., að þótt undarlegt megi virðast, hafi þetta mál verið sett undir menntmrn. og að alþingismönnum hafi borizt bréf frá menntmrh., dags. 20. sept. s. l., þar sem neitað sé að taka þessa samþykkt til greina, nema hún sé endurnýjuð á þessu þingi eða síðar. Þá segja hv. flm. enn fremur, að það sé leiðinlegt og óvanalegt að taka fyrir mál, sem svo greinilega og ágreiningslaust hafi verið samþ. á síðasta þingi, en telja sig til þess neydda.

Allshn. hefur nú rætt þetta mál og athugað þær ástæður, sem hér liggja fyrir. Og var nú ákveðið á þeim fundi, þar sem þetta var rætt í n., að fá til viðtals þann mann, sem mjög hefur verið í vitnað sem sérfræðing, sem og er víst sérfræðingur í þessum efnum, hr. Finn Guðmundsson. Svo var ákveðinn fundur aftur í n. og gerðar ráðstafanir til þess, að sá mæti maður fengist til viðtals við nefndina þar. En hann var þá að fara úr bænum og gat ekki orðið við þeirri beiðni. En þar sem það virðist nú vera orðið það áliðið, að annað tveggja sé að framkvæma þennan vilja Alþ., eins og hann hefur komið í ljós, nú þegar, eða þá að slá öllu slíku á frest um óákveðinn tíma, og að friðun, sem framkvæmd væri, þegar komið er miklu lengra fram á haust en nú er, hafi lítið að segja, þá vildi n. ekki tefja fyrir afgreiðslu málsins, þ. e. a. s. meiri hl. hennar hafði þessa afstöðu í málinu og var þessarar skoðunar. Ég segi ekki heldur, að minni hl. n. hafi viljað tefja fyrir málinu. En þarna skapaðist minni hl. í málinu. Og ég sé nú, að sá minni hluti hefur heldur ekki getað orðið samferða um afgreiðslu málsins. — Hvað meiri hl. n. snertir og hans álit, er skemmst frá því að segja, að það virðist hafa verið almennt álit hv. alþm. á síðasta þingi, að ástæða væri til að bera fram þessa ósk við ríkisstj., sem má leggja þann skilning í, að hún sé mjög eindregin. Þótt ekki kunni kannske að vera um fyrirmæli að ræða, þá er hún þannig til komin, að í flestum tilfellum mun ríkisstj. telja sér skylt að taka til greina slíkar samþykktir. Meiri hl. allshn. er á sömu skoðun og hv. flm. um það, að það er ákaflega óviðkunnanlegt að endurtaka þing eftir þing áskorun um sama efni til ríkisstj. Það hefur svona heldur veikjandi áhrif, finnst mér, á vald þingsins, ef slíkur háttur væri almennt upp tekinn.

Nú er það svo, að í lögum um þetta efni er það tekið fram, að sá fugl, sem um ræðir, þ. e. rjúpan, skuli vera alfriðuð á tímabilinu frá 1. jan. til 15. okt. ár hvert. Og svo segir í l.: „Nú fækkar rjúpunni svo, að ástæða þyki til þess að friða hana allt árið, og er þá ríkisstj. heimilt að skipa svo fyrir með reglugerð um eitt ár í senn.“ Þarna er ekki gert ráð fyrir því, að Alþ. þurfi að hlutast til um slík mál. En ég álit, að þeir, sem voru á síðasta Alþ. og ákveðið greiddu atkv. með því að leggja fyrir ríkisstj. að framkvæma þessa friðun, og hinir, sem sátu hjá og höfðust ekki að, þeir hljóti að hafa litið svo á, að það væri ástæða til að friða rjúpuna, sú ástæða, sem um ræðir í þessum l. Og út frá því virðist það vera lítið tillit, sem tekið er til svona samþykktar af hálfu Alþ., ef þau svör eru ein fyrir hendi, sem lýst hefur verið, að Alþ. þurfi að endurtaka áskorunina, til þess að hún verði tekin til greina. Ef hæstv. ríkisstj. þykist ekki vera þess umkomin að taka eina áskorun frá Alþ. til greina í þessu efni, þá er ekki hægt að sjá, hvað fleiri áskoranir hefðu að þýða frá sömu þingmönnum.

Það, sem enn fremur hefur upplýstst í þessu máli, er það, að sá sérfræðingur í þeim fræðum, sem hér á hlut að, hefur haldið fram og heldur fram alveg ákveðnum kenningum, sem mikið til styðjast við útlendar kenningar um sama efni, og að hans dómi virðist ekki vera um fækkun á þessum fugli að ræða. Ég ætla, af reynslu frá liðnum tíma, að það muni lengi geta verið ágreiningur um það efni, hvort rjúpunni fækkar eða fjölgar, ef litið er á eitt eða tvö ár til athugunar, og að það muni vera hægt lengi að deila um það. Enda liggja fyrir, svona í almannarómi, upplýsingar um það, að hér og hvar á landinu þykjast menn vissir um, að rjúpunni hafi fækkað, en annars staðar telja menn, að um enga fækkun sé að ræða. En enginn heldur á fullum gögnum í þessu efni til þess að skera úr, svo að einhlítt sé.

Það kom fram sú skoðun hjá meiri hl. allshn., að vegna þess að það væri — eins og hv. flm. taka fram — leiðinlegt og óvanalegt að vera með slíkar endurteknar áskoranir, þá væri rétt að leggja til, eins og meiri hl. n. gerir á þskj. 57, að þetta mál fengi þá afgreiðslu, sem þar er lagt til, í formi rökst. dagskrár, í trausti þess, að hæstv. ríkisstj. vilji líta nokkuð á þann vilja, sem fram kemur hjá Alþ. í þessu máli. Ef gengið er fram hjá vilja Alþ. í einu, þá er opin leið að gera það í fleiri efnum. Það virðist heldur ekki vera svo stórkostlega afdrifamikið eða veigamikið mál fyrir hag almennings, þó að rjúpan sé nú friðuð eins og farið er fram á.

Það kom fram sú skoðun í n., að þáltill. færi á þann hátt í bága við l., að l. gerðu ráð fyrir, að friða mætti rjúpuna frá ári til árs, eitt ár í senn, en þál., sem samþ. hefði verið, hefði gengið út frá friðun í 5 ár. Þetta hefur við tæp rök að styðjast. Og ég tel, að þáltill., sem samþ. var á síðasta þingi, hafi alveg fullt gildi þess vegna, því að vitaskuld er það auðgert fyrir hvaða ríkisstj. sem er að gefa út reglugerð fyrir hvert eitt af þessum árum, sem um ræðir. — Ég hef sagt það, og ég hygg, að það muni almenn reynsla sýna það, að það muni vera lengi hægt að deila um þetta atriði, hvort rétt hafi verið litið á það af síðasta hæstv. Alþ., að ástæða væri til að friða rjúpuna. Ég geng út frá því, að hæstv. Alþ. hafi þá litið svo á. Og með því að það álit lá fyrir, þá virðist mér, og ég held, að ég tali þar fyrir munn hv. meiri hl. allshn., að á þeim forsendum hefði hæstv. ráðh., sá sem með þetta mál fer, vel getað orðið við þingviljanum á Alþ. — Það er að vísu ákaflega löng og ýtarleg ritgerð, sem liggur fyrir frá einum náttúrufræðingi í þessu máli. En það er bara eitt innlegg, þó að frá náttúrufræðingi sé. Og ég ætla, að það út af fyrir sig, sem byggir allmikið á kenningum og reynslu annars staðar, geti nú ekki skoðazt sem alveg ákveðinn hæstiréttur fyrir ákvörðun Alþ. eða hæstv. ríkisstj. í svona máli. Ég fyrir mitt leyti og þeir, sem með mér skipa meiri hl. allshn., lítum hins vegar svo á, að hér sé að óþörfu efnt til þess, að deilt sé um atriði ja, mér liggur við að segja keisarans skegg á Alþ. ár eftir ár, af því að hæstv. ríkisstj. leitar eftir ástæðu til að verða ekki við óskum eða vilja Alþ.

Hv. 2. minni hl. allshn. hefur, eins og ég áður lýsti, skilað sérstöku áliti. Þeir, sem skipa þann minni hl n., segja berum orðum í sínu nál., með leyfi hæstv. forseta: „Þegar mál þetta var til meðferðar á síðasta þingi, var litið svo á, að rjúpnastofninn hér á landi færi stöðugt minnkandi, og var þessi fækkun eingöngu sett í samband við ofveiði. Þótti því ástæða til að gripa í taumana og alfriða rjúpuna næstu árin.“ Svo bæta þeir því við, sem ég hef þegar lýst, að síðan hafi Finnur Guðmundsson náttúrufræðingur birt glögga og ýtarlega grg. um þetta mál. Og það virðist, að þær sterku líkur, sem hann færir fyrir því, að íslenzka rjúpan sé háð sama lögmáli og aðrir villtir hænsnfuglar, eins og þar er komizt að orði, hafi orðið til þess, að þeim hv. þm., sem skipa 2. minni hl. n., þyki ekki ástæða til að gera annað nú í málinu en að vísa því til ríkisstjórnarinnar.

Þá hefur þriðji hluti n., hv. minni hl. talinn á þskj., sent inn nál. á þskj. 66, sem ég tel, að sé þannig orðað, að það sé ekki ástæða til að gera það hér að umtalsefni. Það gæti verið ágætt sem skammagrein um hv. alþingismenn í hans blaði, Þjóðviljanum. En sem þskj. er það þannig úr garði gert, að það er hv. þingmanni lítið til sóma og verðskuldar ekki annað en fyrirlitningu þagnarinnar af þeim, sem því er beint gegn.

Sem sagt, meiri hl. allshn. lítur svo á, að þetta mál sé svo vaxið — og byggir þar á því, sem gerzt hefur í málinu á undanförnu þingi, því síðasta, — að það sé ástæða til að ætla, að hæstv. ríkisstj. fari að vilja þingsins, án þess að beinlínis sé enn á ný samþ. þáltill. um þetta efni, og leggur til, að dagskrártill. á þskj. 57 verði samþykkt. Í henni felst að vísu ítrekun á þingviljanum, sem þegar er fram kominn. En að forminu til er þar þó ekki um að ræða endurtekningu á þáltill., eins og sá hæstv. ráðh., sem sendi hv. alþm. bréfið umgetna, virðist hafa til ætlazt.