24.10.1950
Sameinað þing: 8. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 172 í D-deild Alþingistíðinda. (4028)

25. mál, friðun rjúpu

Frsm. 2. minni hl. (Jón Sigurðsson):

Herra forseti. Hv. frsm. meiri hl. allshn. hefur nú talað hér langt mál og gert grein fyrir afstöðu hv. meiri hl. n. til þessa máls. Mér skildist reyndar á ræðu hans, að þetta væri ádeila á hæstv. ríkisstj., því að í ræðu hans var ekki nema að litlu leyti gripið á því, sem mér virðist og 2. minni hl. n. svo að segja mergur málsins. En af því að svo vill til, að ég er frsm. 2. minni hl. n. og er í þeirri aðstöðu, að ég skrifaði undir nál. í fyrra, sem mælti með friðun rjúpunnar, þykir mér hlýða að gera nokkra grein fyrir afstöðu minni og gangi þessa máls.

Þannig var, í fáum orðum sagt, að þegar þetta mál kom fyrir á síðasta þingi, þá var það með talsverðum hraða. Það var afgreitt á einum fundi í n. Ég var ekki á þeim fundi, og ég játa fúslega, að það var komið með nál. til mín og ég skrifaði undir það með öðrum að lítt yfirveguðu ráði. Ég hafði ekki kynnt mér málið eins og mér kannske hefði borið skylda til, og verð ég vitanlega að taka ámæli fyrir það, og hygg ég, að svo hafi verið um fleiri. Þessi till. var samþ., eða skreið í gegn, á síðasta þingi. Eftir að málið kom svo fyrir á nýjan leik, þá taldi ég ástæðu til að athuga það nánar, og enda þótt ég skrifaði undir nál. í fyrra, þá hef ég þann hátt á, að ef mér hefur missýnzt, þá tel ég það skyldu mína að hafa það heldur, sem réttara reynist. Það hefur sem sagt komið fram í málinu síðan í fyrra, að birzt hefur ritgerð frá dr. Finni Guðmundssyni fuglafræðingi, sem ég býst við að sé á þessu sviði færasti maður núlifandi Íslendinga, en skýrsla hans er greinargerð fyrir rannsóknum, sem gerðar hafa verið með tilliti til þeirra sveiflubreytinga, sem eiga að vera á stofni ýmissa dýrategunda, sérstaklega hænsnfugla, en á þó sér og stað hjá öðrum dýrum, t. d. læmingjunum, en svo sem kunnugt er fjölgar þeim geysilega annað veifið, en stórfækkar hinn sprettinn. Dr. Finnur leiðir sterkar líkur að því, að þetta sveiflulögmál gildi um íslenzku rjúpuna, og birtir því til sönnunar skrá um útflutning á rjúpu um langt árabil. Þegar ég las þetta, þá fór ég að hugsa um eitt og annað, sem ég mundi frá æskuárunum, því að þá voru miklar rjúpnaveiðar, og heyrði ég umtal manna um það, að rjúpunni ýmist fjölgaði eða fækkaði. Veiðin var mjög misjöfn, stundum nær engin, en stundum aftur furðumikil. Þetta kemur og fram í útflutningsskýrslunum. Ég ætla ekki að ræða, hvernig á þessu stendur, en það skilst af ritgerð dr. Finns, að þetta er óskýrt náttúrulögmál. Þrátt fyrir allan lærdóm nútímans, er það margt fyrirbærið í náttúrunnar ríki, sem enn þá er óskýrt, enda þótt viðurkennt sé, að lögmálið sé til; og þetta er líklega eitt af þessum fyrirbærum. Við í minni hl. töldum, ef þetta væri svona, ástæðu til að fara varlega í þessar sakir og athuga málið frekar. Dr. Finnur Guðmundsson heldur því fram, að rjúpunni muni nú fara að fjölga, og ætti fjölgunin að ná hámarki sinu á árunum 1951–53, en þá muni henni aftur fara að fækka. Eins og bent hefur verið á, er það óneitanlega ákaflega fróðlegt að fá úr því skorið, hvort þetta stenzt, því að það hefur þýðingu í framtíðinni, og þetta er vísindalegt atriði, og er til íhugunar fyrir menn að láta þetta koma í ljós. Nú, að láta rjúpuna ófriðaða 15. okt. til 31. des., er það svo hættulegt, að þetta sé ekki gerlegt? Þetta er matsatriði, en ég ber engan kvíðboga fyrir því.

Annað atriði, sem komið hefur fram, er það, að ég hef ábyggilegar fregnir um það, að gagnstætt því, sem var í fyrra og hittiðfyrra, þá sé rjúpunni nú að fjölga, a. m. k. í sumum héruðum. Þetta styður kenningu dr. Finns, en ég hef heyrt menn segja, að þetta segi bara þeir, sem langar til að skjóta, því að þeir sjái alls staðar rjúpur, en það væri undarlegt, ef þessar raddir heyrðust nú frekar en tvö undanfarin ár, ef ekki væri um fjölgun að ræða. Auk þess kemur ekki til mála að ætla, að hver maður, sem áhuga hefur á rjúpnaveiðum, sé reiðubúinn til að fara með ósannindi, það er alveg fráleitt. Ég hef nú fyrir satt, að rjúpunni sé að byrja að fjölga, og ætti að vera hægt að fá um þetta upplýsingar hjá trúverðugum mönnum, og komi það í ljós, að rjúpunni sé að fjölga, þá er fallinn grundvöllurinn undan því, að ríkisstj. hafi heimild í l. til að setja á friðun, því að heimildin er bundin við það, að rjúpunni sé að fækka.

Hv. frsm. meiri hl. gat þess í sambandi við greinargerð dr. Finns, að hann væri enginn hæstiréttur í þessum efnum. Út af fyrir sig er það rétt, að hann er það ekki, en mér dettur ekki í hug annað en taka meira tillit til slíks manns en einhvers og einhvers, sem ekki hefur neina aðstöðu á borð við hann. Við verðum að taka tillit til vísindanna, því að þótt brjóstvitið sé ágætt, þá er vísindaleg reynsla það, sem þokað hefur okkur mest áleiðis. Ég harma, hvað þetta hefur verið gert að miklu kappsmáli. Ég lagði til, að n. ræddi við dr. Finn, og þá var talað um það, að hann mætti á fundi degi síðar, en þegar hann gat ekki mætt þann dag, þá lá þessu svo mikið á, að ekki mátti bíða, og var málið afgreitt. Þetta ber vott um það óþarfa kapp, sem lagt hefur verið á málið, því að ekki gat það skipt miklu máli fyrir rjúpnastofninn, hvort málið væri afgreitt degi fyrr eða síðar, og viðtal við dr. Finn skipti kannske ekki höfuðmáli vegna þess, hve greinargerð hans var skýr, en þó var það margt, sem ekki er í greinargerðinni, sem ég hefði viljað spyrja um.

Ég hef nú gert grein fyrir áliti mínu, en till. okkar í minni hl. er sú, að málinu verði vísað til hæstv. ríkisstj. að þessari umr. lokinni.