24.10.1950
Sameinað þing: 8. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 176 í D-deild Alþingistíðinda. (4033)

25. mál, friðun rjúpu

Jón Pálmason:

Herra forseti. Ég tel ástæðu til þess að segja örfá orð í tilefni af því, sem komið hefur frá hv. allshn., og viðvíkjandi ýmsu því, sem sagt hefur verið hér um þetta mál.

Ég er þakklátur meiri hl. fyrir að leggja til að halda við það, sem samþ. hefur verið hér á Alþingi, og auglýsa friðun nú þegar. Og ég skil nefndina svo, að hún meini, að svo beri að gera næstu 4 ár. Skal ég víkja að nokkrum atriðum í mótmælum þeirra, sem þáltill. eru andstæðir. Koma þar til greina mótmæli frá frsm. 2. minni hl. og hæstv. menntmrh. um, að ríkisstj. hafi ekki heimild til þess að fara eftir vilja Alþingis í þessum efnum. Ég skal ekki þræta um, hvernig skilja beri lögin. En þetta er meira en lítið undarlegt frá núverandi ríkisstj., því að hún hefur gefið út sérstaklega mörg bráðabirgðalög, síðan Alþ. var slitið í maímánuði s. l., og ráðherra hefði verið innan handar að bæta litlum bráðabirgðalögum við syrpuna.

Viðvíkjandi sveiflukenningunni ætla ég ekki að eyða mörgum orðum. Ég gerði grein fyrir áliti mínu um fjölgun og fækkun rjúpunnar í fyrri umræðu. Ég fæ ekki séð, að fram hafi komið nein gagnrök, sem samrýmzt geti heilbrigðri skynsemi. Andstæðingarnir segja, að rjúpunni hafi fjölgað á síðustu árum. Það er algerlega ósannað mál og ósannanlegt. Það er ekkert nema áróður skotmanna. Sprettur þetta af því, að harðindi hafa verið til fjalla og rjúpan leitað meira til byggða en áður. Bóndi nokkur sagði mér um daginn, að það hefði verið talinn viðburður, ef tvær rjúpur sæjust á Kjalarnesi, og svona er víðar. Það er gersamlega ógerningur að sanna, að fjölgun sé í rjúpnastofninum. Ég ætla að spyrja þá þingmenn, sem halda því fram, hvaða sannanir þeir hafi fyrir skoðun sinni. Hv. 2. þm. Skagf. sagðist álíta, að rjúpum væri að fjölga. Þessi meining áróðursmannanna hefur ekki við nein rök að styðjast. Eðlilegt er, að þeir berjist gegn þessu, enda eru boðnar 12 kr. fyrir rjúpuna hér í Rvík. Margir hafa einnig gerzt veiðiþjófar, þar eð þeir hafa ekki fengið leyfi til veiðanna í löndum annarra manna. En ég ætla ekki að fjölyrða um þetta atriði, heldur er þetta mál, sem fulltrúar sveitanna ættu að athuga.

Viðvíkjandi því, að hægt sé að fá sannanir fyrir sveiflukenningunni, þótt rjúpan sé friðuð í 2–3 ár, þá er það með öllu ókleift, vegna víðlendis Íslands.

Ástæða er til að víkja að því, að fleiri þing en þetta hafa viljað friða rjúpuna. Fyrst var hún friðuð 1915, síðan 1921–23 — eftir harðindi bæði skiptin — 1930–32, 1940–42. Í öll skiptin var talið nauðsynlegt að grípa til þessara ráðstafana til þess að koma í veg fyrir útrýmingu rjúpunnar. Kunnugt er það, að aldrei hefur verið eins mikil tækni til þess að ná rjúpunni sem síðustu árin. Ef nokkur fótur er fyrir því; að rjúpum hafi fjölgað frá í fyrra, mætti rekja það til þeirra orsaka, að rjúpan hélt sig til fjalla og heiða í góðviðrinu í fyrra, og hafi því fleiri rjúpur sloppið frá veiðimönnum en oft áður. En viðvíkjandi kenningu Finns Guðmundssonar vil ég lesa upp þrjú atriði úr Morgunblaðinu 20. þ. m.:

„1. Við athugun á útflutningnum kemur enn fremur í ljós, að sveiflutíminn eða tímabilið milli tveggja hámarka eða lágmarka er í kringum 10 ár.

2. Reglubundnar sveiflur einkenna íslenzka rjúpnastofninn, og er sveiflutíminn um 10 ár. 3. Þessar sveiflur stafa ekki af ofveiðum og við getum ekki komið í veg fyrir þær með alfriðun.“

Samkv. þessu er svo sveifluhreyfingin í 4–6 ár, en í aðalatriðum er hún 10 ár. En hvað því viðvíkur eru engar líkur til, að hægt sé að fá sannanir fyrir fjölgun og fækkun hennar og hvort hún sé drepin eins miskunnarlaust og áður. — Viðvíkjandi útflutningsskýrslum hefur frsm. meiri hl. svarað því. — Að öðru leyti skal ég svo ekki fjölyrða um þetta. Ég geri ráð fyrir því, að þingmenn hafi gert upp við sig, hvort þeir vilji halda við ályktun sína frá síðastliðnu þingi. Vænti ég þess, að ekki verði skemmra gengið en að samþ. dagskrá meiri hl.