22.11.1950
Sameinað þing: 17. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 179 í D-deild Alþingistíðinda. (4039)

85. mál, dagskrárfé útvarpsins

Flm. (Gylfi Þ. Gíslason) :

Herra forseti. Þegar verið var að undirbúa fjárlfrv. ríkisstj., mun hún eða fjvn. hafa aflað sér upplýsinga eða áætlana frá öllum ríkisstofnunum um þá fjárþörf, sem þær gerðu ráð fyrir á næsta fjárhagsári, þar á meðal frá ríkisútvarpinu. Sú fjárhagsáætlun, sem ríkisútvarpið sendi, mun hafa verið með nokkrum rekstrarhalla. Ríkisstj. mun ekki hafa viljað una því, að sú stofnun væri rekin með halla, þess vegna gert breyt. á fjárhagsáætluninni og lagt fyrir fjvn. að haga þeim liðum þannig í fjárlfrv., að hagnaður væri þar, en ekki halli. Ráðstafanir ríkisstj. til þess að eyða þessum litla halla á ríkisútvarpinu eru tvenns konar: Annars vegar að hækka einn tekjulið, gjald fyrir auglýsingar, og hins vegar að skera niður einn kostnaðarlið, þ. e. a. s. þá upphæð, sem ætluð er til greiðslu á dagskrárefni útvarpsins. Ég ætla að leyfa mér að lesa þá fjárhagsáætlun fyrir ríkisútvarpið, sem nú er gert ráð fyrir í fjárlfrv. ríkisstj. Tekjur af afnotagjöldum eiga að verða 3500000 kr. og aðrar tekjur 1300000 kr., samtals kr. 4800000.00. En áætlun gjalda er þessi: Laun 1.8 millj. kr., útvarpsefni 1 millj., skrifstofukostnaður 415000 kr., húsaleiga, ljós, hiti og ræsting 200000 kr., rekstur útvarpsstöðva 700000 kr., til hleðslustöðva, viðgerðarferða o. fl. 75000 kr. Ýmsar greiðslur samkv. l. 180000 kr., óviss útgjöld 55000 kr., bifreiðakostnaður 45000 kr., fyrning 11000 kr., samtals kr. 4733000.00. Rekstrarafgangur rúmlega 67000 kr.

Ríkisútvarpið hefur óskað þess að mega verja 1.2 millj. kr. til greiðslu fyrir dagskrá, en menntmrn. taldi rétt að lækka þann lið niður í 1 millj. kr., eða um 200000 kr., og jafnframt mun menntmrn. hafa lagt svo fyrir útvarpsráð, að það skyldi ekki verja meira fé til greiðslu fyrir útvarpsefni á þessu ári en heimilað væri í núverandi fjárhagsáætlun, sem var 1 millj. kr., þó að áður hafi jafnan verið leyft að fara fram úr þeirri áætlun, enda miklum erfiðleikum bundið að viðhafa nákvæmni, þar sem fjári. eru ekki samin fyrr en komið er fram á fjárhagsárið. Menntmrn. bannaði útvarpsráði að fara fram úr áætlun, með þeim afleiðingum, að útvarpið var um skeið komið í fjárþröng og vandséð, hvernig hægt mundi að halda uppi dagskrá í útvarpinu. Nú er á þessu gerð sú breyt., að ráðun. hefur heimilað útvarpsráði að verja 200000 kr. í viðbót í þessu skyni. Samt er í fjárhagsáætluninni fyrir næsta ár gert ráð fyrir því, að 1 millj. kr. verði varið til greiðslu fyrir útvarpsefni. Um þetta er í fyrsta lagi það að segja, að það virðist óeðlilegt, að ekki gangi nema ¼ hluti af heildartekjum útvarpsins til greiðslu fyrir útvarpsefni. Í augum þjóðarinnar er útvarpið fyrst og fremst sú dagskrá, sem útvarpið flytur hlustendum á öldum ljósvakans, og það hlýtur að koma undarlega fyrir sjónir, að ekki sé hægt að verja meira fé en ¼, eða 1200000 kr. af 4800000 til greiðslu fyrir þetta útvarpsefni, sem er aðalatriðið í rekstri stofnunarinnar. En enn þá undarlegra hlýtur hitt að teljast, að menntmrn. skuli telja fært að skerða þennan lið úr 1.2 millj. niður 1 millj. kr., sérstaklega þegar það er vitað, að það hefur verið ósk útvarpsráðs, að þessi liður væri aukinn allverulega frá því, sem verið hefur, og það hefur verið eindregin skoðun útvarpsráðs alls, að það sé ógerningur að komast af með minna fé en 1200000 kr., ef hægt á að vera að halda uppi dagskrá, sem væri í samræmi við eðlilegar kröfur hlustenda og í samræmi við sóma útvarpsins. Þessi stefna ríkisstj., sem fram kemur í þessum málum, kemur mönnum enn fremur undarlega fyrir sjónir, þegar þess er gætt, að það hefur verið yfirlýst stefna þeirra flokka, sem að núv. ríkisstj. standa, að draga sem mest úr öllu skrifstofuhaldi, öllu, er nefna mætti ríkisbákn. Þess hefur orðið vart á yfirstandandi Alþ.,ríkisstj. hyggst draga úr ýmsum útgjöldum ríkissjóðs, en það, sem mest virðist eiga að muna um á því sviði, er framlag til almannatrygginga og framlag til opinberra framkvæmda, og sparnaðarviðleitni gætir með undarlegum hætti á ýmsum sviðum, svo sem þegar leitazt er við að spara framlög til vinnumiðlunar um 100000 kr. með því að breyta l., sem gera ríkisstj. skylt að halda uppi vinnumiðlun. Sparnaðarviðleitnin þarna gengur svo langt, að það á að brjóta alþjóða samþykkt, sem Ísland er aðili að, um að halda uppi vinnumiðlun, til þess að spara smáupphæð. En svo þegar fjárhagsáætlun ríkisútvarpsins á að vera upp á 4.8 millj. kr., þá sér ríkisstj. enga leið til sparnaðar annað en að skera niður dagskrárféð og lækka það um 200000 kr., þó það sé skoðun útvarpsráðs, að þessar 1200000 kr. megi með engu móti skerða og verði frekar að auka það fé. M. ö. o., í sambandi við þessar 3.6 millj. kr., sem varið er til rekstrar ríkisútvarpsins, hefur ríkisstj. ekki séð sér fært að koma við neinum sparnaði, en eini sparnaðurinn, sem er hugsanlegur frá hennar sjónarmiði, er að rýra útvarpsefni, sem útvarpað er til þjóðarinnar. Þetta er þeim mun undarlegra, sem það orð hefur legið á um útvarpið, að þar væri sukksamt í rekstri og almennt talið, að varðandi starfsmannahald og rekstrartilhögun mætti þar mikið um bæta. Með sérstöku tilliti til þessa verður að telja beinlínis furðulegt, að ríkisstj. skuli ekki hafa séð sér fært að spara 200000 kr. á öðrum kostnaðarliðum ríkisútvarpsins en einmitt dagskrárfénu. Það er svo annað mál, að vel kann að vera, að dagskrárfé megi verja á einhvern hátt öðruvísi en gert er, þannig að þörfum hlustenda væri betur fullnægt. Um það skal ég láta órætt á þessu stigi málsins. Ég vil þó geta þess, að samkvæmt upplýsingum, sem fyrir liggja, hefur frá ársbyrjun til septemberloka 963000 kr. verið varið til dagskrárefnis, þar af 439000 kr. til hljóðfæraleiks, en til erindaflutnings 115000 kr., til upplestrar 48000 kr., til leikrita 100000 kr., til barnatíma 31000 kr., til kennslu 13000 kr., en til söngs 77000 kr. Ég vil vekja athygli á því, að til hljóðfæraleiks fer nærri ½ millj. kr. af 963000 kr. dagskrárkostnaði, milli 50–60% fer til tónlistar, en aðeins 10–15% til flutnings erinda, það, sem leikritin kosta, er nærri jafnmikið og öll flutt erindi, og barnatímarnir einir kosta ¼ af því fé, sem greitt er fyrir öll erindi á þessu tímabili. Ég skal ekki ræða þessa skiptingu frekar. Sízt mun ég telja eftir, að miklu fé sé varið til tónlistarflutnings; að vísu virðist hlutfallslega mjög miklu til hans varið, en það hlýtur að vera eitt meginhlutverk útvarpsins að flytja mikið af góðri tónlist. Miðað við tónlistina sýnist vera full nauðsyn á að auka fjárveitingu til annarra mikilvægra dagskrárliða, svo sem erindaflutnings, upplestrar og leikrita, enn fremur til kennslu, en til þess er ekki varið nema tæplega 13000 kr.

Mergur þessa máls er sá, að ekki virðist vera hægt að halda uppi góðri dagskrá í útvarpinu fyrir það fé, sem því er ætlað að hafa til umráða til þess á næsta ári, eina millj. kr. Og það virðist vera alveg röng stefna, sem orðið hefur ofan á í ríkisstj., að leitast við að spara hjá ríkisútvarpinu á þann hátt að skerða fjárveitingu til dagskrárinnar, en láta almenna fjárstjórn útvarpsins að öðru leyti athugasemdalausa og að því er virðist leggja blessun sína yfir það starfsmannahald, sem þar er um að ræða, og þá rekstrartilhögun, sem þar er yfirleitt.

Ég skal geta þess, til ofurlítillar glöggvunar um starfsmannahaldið hjá útvarpinu, að á aðalskrifstofu útvarpsins er mér sagt, að séu 5 starfsmenn, við innheimtu 14, við auglýsingar 4, við fréttastofuna 10, á skrifstofu dagskrár 8, við tónlistardeild 8, þulir 3, í magnarasal 8 menn, við Vatnsendastöð 4, við Eiðastöðina 1 og aðrir starfsmenn 7. Ég skal enn fremur geta þess, að á árinu 1949 nam greidd aukavinna útvarpsins 257 þús. kr., og á næsta ári er gert ráð fyrir því í fjárhagsáætlun útvarpsins, að aukavinna starfsmanna útvarpsins sé 264 þús. kr. Aukavinna sumra starfsmannanna hefur numið milli 20 og 30 þús. kr. 1949. Ég veit ekki, hvernig gert er ráð fyrir, að þessar 264 þús. kr., sem áætlað er, að verði greiddar fyrir aukavinnu á næsta ári, muni skiptast, enda skiptir það ekki máli. Aðalatriðið er, að í stofnuninni er gert ráð fyrir, að meira en einn fjórði úr milljón verði greitt fyrir aukavinnu, og að þetta lætur hæstv. ríkisstjórn algerlega ámælislaust af sinni hálfu, en ber niður um 200 þús. kr. sparnað í rekstri útvarpsins á dagskrárféð, sem allra sízt mátti skerða og hefði miklu fremur þurft að auka um 200 þús. kr. eða meira. Það er því ekki að ófyrirsynju, að stefna hæstv. ríkisstj. í þessu máli sé gagnrýnd eins og ég hér vil leyfa mér að gera. Það er ætlan okkar flm. þessarar till. með flutningi hennar, að gerð verði gangskör að því að athuga, hvort ekki sé unnt að veita meira fé til dagskrár útvarpsins en gert hefur verið undanfarið. Fyrst og fremst álitum við, að þarna eigi að draga úr öðrum rekstrarkostnaði útvarpsins, þannig að hvorki þurfi að taka til þess að veita fé til stofnunarinnar úr ríkissjóði né heldur á þann hátt að hækka gjöld á almenningi með því að hækka afnotagjöldin á útvarpshlustendum. Ég hef fyllstu trú á því, að það mundi vera unnt að endurskipta heildartekjunum, 4.8 millj. kr., þannig, að til dagskrárinnar mætti verja meira fé en ætlazt er til nú, að gert verði. Hinu er ekki að leyna, að ef þessi athugun leiddi í ljós, að þessi leið sé ekki fær, þá er ég þeirrar skoðunar, að ekki verði hjá því komizt að hækka afnotagjaldið. Það er augljóst mál, og um það virðist ekki vera ágreiningur meðal útvarpsráðsmanna, að ekki verður komizt af með þá einu milljón kr. til dagskrárinnar, sem gert er ráð fyrir, að útvarpið fái, og að 1200 þús. kr. sé lágmark í þessu sambandi. Ýmislegt, sem komið hefur fram í dagblöðum og á annan hátt opinberlega undanfarna daga, virðist benda til þess, að það mundi vera hægt að koma við verulegum almennum sparnaði í þessari stofnun frá því sem er.

Væri þá eðlilegt, að það fé, sem sparað yrði á sumum liðum rekstrarins, gengi til þess að bæta dagskrána.

Ég leyfi mér að óska skýringa af hálfu hæstv. menntmrh. á því, hvað liggur til grundvallar þeirri stefnu, sem fram hefur komið í breyt. hans á fjárhagsáætluninni fyrir ríkisútvarpið, hvernig á því stendur, að hæstv. ráðun. hefur ekki séð neina leið til sparnaðar í rekstrinum aðra en að draga úr greiðslum fyrir útvarpsefnið. Hefur kannske þegar farið fram athugun á rekstri útvarpsins að öðru leyti, sem leitt hafi í ljós, að öðrum sparnaði verði ekki við komið? Þessi stefna er mjög óheppileg og enn fremur í áberandi ósamræmi við stefnu hæstv. ríkisstj. á öðrum sviðum, a. m. k. ef dæma má eftir orðum hennar um þau efni. Hér er tækifæri til að draga úr skrifstofu- og rekstrarkostnaði. Vill hæstv. ríkisstj. ekki grípa það?