22.11.1950
Sameinað þing: 17. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 188 í D-deild Alþingistíðinda. (4043)

85. mál, dagskrárfé útvarpsins

Viðskmrh. (Björn Ólafsson) :

Út af ræðu hv. þm. Barð. vil ég gjarnan fullvissa formann fjvn. um það, að ég hef á engan hátt bundið hendur n. í því efni, sem hann gat um. Hitt sagði ég útvarpsráði, þegar þetta var til athugunar, að ég mundi óhikað leggja til, að það fé, sem hægt er að spara á rekstrarkostnaði, renni til dagskrár. Þetta reyndist nú ekki mögulegt. Þess vegna hefur þessi till. ekki komið fram til fjvn. Hins vegar hef ég sent aðra till., sem ég gat um í minni fyrri ræðu.

Hv. þm. gat um í þessu sambandi aukavinnu hjá landssímanum. Það er kannske ekki rétt að fara hér út í aukavinnu í stofnunum ríkisins, því að það yrði langt mál að tala um. Ég hygg, að flestar ríkisstofnanir hafi meiri eða minni aukavinnu. En þetta, sem hv. þm. gat um, að nokkrir starfsmenn símans hefðu fengið fast kaup sem aukavinnukaup, er rétt. Það eru nokkrir menn, sem þurfa óhjákvæmilega að vinna aukavinnu og hafa rétt til að fá hana greidda. Við þá var samið á sinni tíð. Ég tek fram, að ekki tók ég fram fyrir hendur fjvn., því að ég átti ekki þátt í þeim samningi. Samið var, að þeir fengju 1500 krónur yfir árið fyrir alla nauðsynlega aukavinnu, að viðbættri þáverandi dýrtíðaruppbót, og var þá engin önnur aukavinna borguð. Ég var einmitt í morgun að ræða þetta við settan póst- og símamálastjóra. Hann fullyrti í fyrsta lagi, að það væri ekki hægt fyrir símann að komast hjá þessari aukavinnu. Í öðru lagi, að þetta væri stór sparnaður fyrir símann, að hafa samið við mennina á þennan hátt.

Hv. 2. þm. Rang. spurði um, hvort ráðuneytið hefði hugsað sér að bæta úr útvarpstækjaskortinum í landinu. Ráðuneytinu eru ljós þau vandræði, sem stafa af því, að tæki eru ófáanleg í landinu. Þetta mál er í athugun. Mér er fyllilega ljóst, að rekstur útvarpsins er mjög mikið undir því kominn, að menn geti endurnýjað sín tæki og að einnig sé hægt að bæta við, ef fleiri útvarpsnotendur gefa sig fram. Auk þess sem ráðuneytið hefur hagsmuna að gæta í því efni, að viðtækjaverzlunin geti á næstu tveimur til þremur árum haft eitthvað upp úr sínum rekstri. En fyrir utan þann hagnað, sem viðtækjaverzlunin hefur sjálf af öllum tækjum, er það rétt, sem hv. þm. tók fram, að starfsemi útvarpsins er svo náið bundin tækjunum, að það mun hvort tveggja haldast í hendur. Og ég get bara sagt það nú, að mál þetta verður athugað mjög gaumgæfilega og reynt það sem hægt er til að bæta úr.

Það er ekki rétt, sem hv. þm. sagði, að fé byggingarsjóðsins hafi farið í eyðslu. Byggingarsjóðurinn, sem á að fá 40 kr. af hverju afnotagjaldi, er nú 6.2 millj. kr. og óeyddur. Hitt er svo rétt, að svo virðist nú sem hluti byggingarsjóðsins verði að fara í reksturinn.