22.11.1950
Sameinað þing: 17. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 195 í D-deild Alþingistíðinda. (4048)

85. mál, dagskrárfé útvarpsins

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Það væri ekki að undra, þótt almenningi þætti það að bera í bakkafullan lækinn, ef stofnaðar væru tvær rannsóknarnefndir til að athuga hag og rekstur einnar og sömu stofnunar, en þó álít ég það rétt hjá hæstv. dómsmrh., að sú rannsókn, sem nú hefur verið fyrirskipuð, geti ekki náð til að rannsaka, hvort fullrar hagsýni sé gætt í rekstri ríkisútvarpsins almennt, en það yrði hlutverk þeirrar nefndar, sem lagt er til að skipa á þskj. 137. Sú nefnd ætti að rannsaka, hvort við útvarpið vinni ekki óþarflega eða of margt fólk og hvort greiðslur til þess séu hógværar og lögum samkvæmt og hvort nauðsyn sé þar á aukavinnu. Ég dáist að því, ef í svo fjölmennri stofnun er gætt þvílíkrar hagsýni, að hvergi megi sparnaði við koma. Samkv. fylgiskjali við fjárlagafrv. fyrir árið 1951 skilst mér, að 80 manns séu á föstum launum hjá útvarpinu, en eftir upplýsingum hv. 1. flm. er starfsfólkið töluvert fleira, eða ekki færra en á 2. hundrað. Samkv. fylgiskjalinu eru á aðalskrifstofunni 4 menn, eftir upplýsingum hv. flm. 5. Samkv. fylgiskjalinu vinna 11 manns við innheimtu. Hv. flm. segir 14. Eftir fylgiskj. vinna 7 á fréttastofunni. Samkv. upplýsingum hv. flm., vinna þar 10. Í tónlistardeild segir fskj. 7 menn vinna, hv. flm. 8. Í magnarasal vinna eftir upplýsingum fskj. 6 menn. Hv. flm. segir, að þar vinni 8 menn. Aðrir starfsmenn eru eftir fskj. 2. Samkv. upplýsingum hv. flm. eru þeir 7, svo að þar skakkar verulega. Ef tölur hv. flm. eru réttar, þá er greinilegt, að starfsfólkið er yfir 100, en mér fannst nóg um, þegar ég taldi saman 80 eftir upplýsingunum í fskj., sem hæstv. ráðh. er heimildarmaður að. Það má mikið vera, ef slíkrar hagsýni er þarna gætt, að ekki megi spara verulegar fjárhæðir, og þótt ekki væri annað, sem ætti að rannsaka, þá er full ástæða til þess. Og ef sú rannsókn hefði í för með sér sparnað, þá væri rétt að athuga rekstur fleiri ríkisstofnana. Þá væri og vert að athuga hjá útvarpinu, hvort greiðslur fyrir störf þessa fólks væru sambærilegar við aðrar launagreiðslur og lögum samkvæmt, en ég veit ekki, hvort sú rannsókn félli undir verksvið þeirrar nefndar, sem á að rannsaka, hvort eitthvað refsivert hafi farið fram í stofnuninni.

En frá almennu sjónarmiði séð virðist það vera gífurleg greiðsla að borga á 4. þús. kr. fyrir 26 mínútur, jafnvel þótt kunnátta og sérþekking kæmi til greina. Get ég ekki skilið annað en hér sé um óhóflega greiðslu að ræða, sem e. t. v. varði ekki við refsilög. — Ef þetta heyrir ekki undir þá nefnd, sem búið er að skipa, þá heyrir það undir þessa nefnd, sem gert er ráð fyrir í till. Enn fremur verður að athuga, hvort nauðsynlegt sé að borga 300 þús. kr. í aukavinnu, sem nemur fullum árslaunum tíu fastra starfsmanna. Þetta gæti skipt mörgum milljónum hjá einstöku stofnun, þegar starfsmannafjöldinn er orðinn mikill, t. d. hefur landssíminn milli 260–70 fasta starfsmenn. Það er ekki aðeins rétt gagnvart ríkisvaldinu, heldur einnig gagnvart forstjórum stofnananna sjálfra, að þetta sé athugað, svo að þeir liggi ekki undir ástæðulausum grun.

Ég er sammála hæstv. dómsmrh., að ástæða sé til að samþ. þessa þáltill., til þess að nefndin athugi, hvort hagsýni gæti í starfsemi ríkisútvarpsins, og yrði þá hlutverk þessarar nefndar ólíkt störfum hinnar nefndarinnar, og brýn nauðsyn er til þess, að athugað verði, hvort ekki megi draga eitthvað úr rekstrarkostnaði útvarpsins.