06.12.1950
Sameinað þing: 23. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 202 í D-deild Alþingistíðinda. (4059)

85. mál, dagskrárfé útvarpsins

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Eins og kom fram í framsöguræðu minni í gær í sambandi við fjárl., er ég því fylgjandi, að athugun verði látin fara fram á rekstri ýmissa ríkisstofnana með það fyrir augum, hvort ekki sé hægt að koma þar við verulegum sparnaði. Taldi ég, að slíkt þyrfti ekki að valda neinum sársauka eða tortryggni hjá viðkomandi aðilum, og það er líka eðlilegt, að ráðh., sem hafa yfirumsjón með hinum ýmsu stofnunum, geti ekki verið þar daglega og fylgzt með öllu, sem þar gerist, en eins og kunnugt er, eru þessar stofnanir reknar af forstjórum, sem hafa þar nokkurs konar alræðisvald. Ég hefði því vel getað fylgt brtt. á þskj. 223 frá hv. minni hl. allshn., þar sem lagt er til, að Alþ. Feli ríkisstj. að skipa þriggja manna n. til þess að athuga fjármál og rekstur ríkisstofnana með það fyrir augum að leiða í ljós, hvort ekki megi spara í útgjöldum þeirra og gera rekstur þeirra hagkvæmari. En ég er þess fullviss, að ef farin væri sú leið á þessu stigi málsins að samþ. þá till. eins og hún liggur fyrir, mundi hún draga úr hinum fyrstu áhrifum, og álít ég því miklu heppilegra að samþ. till. á þskj. 137, sem borin var fram að gefnu tilefni, ásamt vatill. frá hv. meiri hl. á þskj. 210.

Ég set þessa athugun, sem till. fjallar um, ekkert í sambandi við þá réttarrannsókn, sem nú fer fram á útvarpið, og ég er ekki fylgjandi þessu máli af því að ég telji, að það sé frekar þörf á að rannsaka rekstur þessarar stofnunar en annarra stofnana, en ég tel, að ef þessi rekstur verði rannsakaður og það reynist að hægt sé að koma á betra rekstrarskipulagi þar, muni það frekar gefa tilefni til, að ríkisstj. láti fara fram slíka rannsókn hjá öðrum stofnunum. Ég er af þessum ástæðum, sem ég hef nú skýrt frá, á móti till. á þskj. 223, þótt ég hins vegar telji eðlilegt að láta þá rannsókn, sem hún fjallar um, fara fram síðar meir.

Þá ætla ég að svara hér með nokkrum orðum ummælum hv. 2. þm. Reykv., þótt hv. þm. Ísaf. telji þau ekki koma þessu máli við. Ég hygg, að hann hafi misskilið mín ummæli í sambandi við fjárlfrv., því að hann hafði eftir mér orð, sem ég hef aldrei sagt. Ég ætla ekki að taka neitt af því aftur, sem ég hef sagt fyrr og síðar um fjárhagsráð, en ég kæri mig ekki um, að sett séu mér í munn orð, sem ég hef aldrei talað. Hann sagði, að ég hefði sagt: Guði sé lof, að fjvn. bárust engar rekstraráætlanir frá fjárhagsráði. — Ég sagði hins vegar, að það hefði engu breytt í sambandi við fjárl., þótt engar áætlanir hefðu komið þaðan. Í sambandi við þetta vil ég upplýsa, að haustið 1947 varð það að samkomulagi milli ríkisstj. og fjvn., að n. hefði samráð við fjárhagsráð um afgreiðslu fjárlfrv., eins og gert er ráð fyrir í l. um fjárhagsráð, með tilliti til þess að beina fjárframlögum ríkisins þannig, að opinberar framkvæmdir næðu eftirfarandi takmarki: að þær krefðust sem minnsts innflutnings og sköpuðu sem mestan útflutning. Að gefnu þessu tilefni var haldinn sameiginlegur fundur með fjárhagsráði og fjvn., eini fundurinn, sem ég veit til að haldinn hefur verið með þessum aðilum. Þar komu fram ákveðnar kröfur frá fjárhagsráði, m. a. frá núv. hæstv. landbrh. (HermJ), sem þá átti sæti í ráðinu, um að ákveða 14 millj. kr. fjárfestingu til skóla. Það var þá álit ráðsins, að mest lægi á að verja 14 millj. króna til byggingar nýrra skóla í landinu, og var það ekki að hugsa um það samkomulag, sem orðið hafði milli ríkisstj. og fjvn. um að styrkja útflutninginn sem mest og leggja í sem minnstan innflutning og gera allt, sem unnt væri til að styrkja atvinnuvegina. En fjárhagsráð var á annarri skoðun. — Það er síður en svo, að ég hafi álitið störf fjárhagsráðs marklaus, en ég hef talið, að því miður hafi fjárhagsráði mistekizt svo í sínum störfum, að engin stofnun hafi torveldað eins fyrir atvinnuvegunum og fjárhagsráð. Ég hef haldið því fram á hverju ári, síðan fjárhagsráð var stofnað, og ég er ekki einn um þann dóm, þjóðin öll hefur kveðið upp þann dóm, að það eigi að leggja niður fjárhagsráð eins fljótt og unnt er, því að það hefði aldrei átt að beita áhrifum sínum á atvinnuvegina eins og það hefur gert. Ég hef bæði í fjárlagaræðum og öðrum málum látið þessa skoðun í ljós, þannig að það hefði ekki átt að koma hv. 2. þm. Reykv. neitt á óvart, sem ég sagði um störf fjárhagsráðs í sambandi við fjárlfrv. Ég hef hins vegar aldrei haldið fram, að fjárhagsráð hafi ekki getað unnið ýmis merkileg vísindastörf, gert merkilegar fjárhagsskýrslur og ýmislegt fleira, og hef aldrei sagt, að störf þess væru marklaus.

Ég skal í sambandi við þetta benda á, ég hygg það hafi verið varðandi afgreiðslu fjárl. 1948, að þá færði fjvn. mjög veruleg fjárframlög til fjárhagsráðs, sem byggt var á sömu rökum og ég minntist á áðan, og þá samþ. Alþ. till., er varð til þess, að þáv. viðskmrh. tók það mjög til athugunar, hvort hann ætti ekki að segja af sér, en það var af ást við eitthvað annað, að hann gerði það ekki.

Mér finnst það einmitt merki þess, að hæstv. ríkisstj. sé komin á þá skoðun, að það eigi að einhverju leyti að takmarka störf fjárhagsráðs og draga úr störfum þess, að það er ekki sett inn á fjárlfrv.

Mér þótti rétt að láta þessar aths. koma fram út af ræðu hv. 2. þm. Reykv., sem fór mjög rangt með ummæli mín í sambandi við fjárhagsráð á síðasta fundi.