09.12.1950
Sameinað þing: 23. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 205 í D-deild Alþingistíðinda. (4061)

85. mál, dagskrárfé útvarpsins

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Mér finnst þessar umr. hafa snúizt um annað en meginefni þeirrar till., sem hér liggur fyrir. Till. heitir: Till. til þál. um aukningu á dagskrárfé útvarpsins. Aðalefni hennar er, að Alþ. feli ríkisstj. að skipa n. til þess að athuga fjármál og rekstur ríkisútvarpsins með það fyrir augum að leiða í ljós, hvort ekki sé unnt að verja meira fé til útvarpsefnis af tekjum þess en nú sé gert. Till. var borin fram af þeirri ástæðu, að fé það, sem útvarpsráði var fengið til ráðstöfunar til að kaupa dagskrárefni fyrir, var minnkað frá því, sem áður hafði verið, þannig að útvarpsráð hefur undanfarna mánuði verið í mjög alvarlegri fjárþröng. Var meira að segja um skeið vafi á, að hægt yrði að halda uppi venjulegri dagskrá fyrir það fé. Þannig var ástandið, þegar till. var borin fram. Henni var ætlað að hjálpa við að finna leiðir til þess að auka fjárhagsgetu útvarpsráðs og benti á þá sjálfsögðu leið að reyna að draga úr öðrum rekstrarkostnaði útvarpsefninu í vil.

Það ætti ekki að þurfa að taka fram, að till. er alveg óskyld því máli, sem síðar kom upp og varð tilefni til sakamálsrannsóknar á starfsemi einstakra ráðamanna útvarpsins. Það tilefni, sem var til flutnings till., er óbreytt enn.

Í fjárlfrv. er ætluð 1 millj. kr. til kaupa á útvarpsefni. Því hefur verið lýst yfir af útvarpsráði, að sú upphæð sé of lág og að ekki muni vera kleift að halda uppi á næsta ári langri, góðri dagskrá nema það fái aukið fé til umráða. Vandamálið er því að finna leiðir til að auka fé til dagskrárinnar, og það ætti að vera hægt án þess að hækka afnotagjöldin, með því að koma á sparnaði við rekstur stofnunarinnar. Að því höfum við flm. till. leitt mjög skýr rök, sem ekki hefur verið gerð tilraun til að hnekkja af þeim, sem tekið hafa þátt í þessum umr.

Ég gaf ýmsar upplýsingar við fyrri umr. málsins — og nokkrir aðrir ræðumenn — um óeðlilega fjárstjórn í útvarpinu, sumpart beinlínis um fjárbruðl, og þess vegna kom það mér nokkuð á óvart, þegar hv. frsm. minni hl. allshn. sagði, að ekkert hefði komið fram, sem benti til, að ástæða væri til að efna til þeirrar athugunar, sem till. fer fram á. Mér er því nær að halda, að hann hafi ekki verið viðstaddur, þegar fyrri umr. fór fram. Eða er það skoðun hans, að það geti ekki tilefni til athugunar, að útvarpsráð skuli vera í fjárþröng og eiga fullt í fangi með að greiða fyrir útvarpsefni, en dagskrárféð skuli aðeins vera fimmtungur af heildarkostnaði stofnunarinnar? Finnst hv. þm. það ekki ástæða til athugunar, að aukavinna starfsfólks stofnunarinnar skuli vera fjórðungur þess fjár, sem varið er til kaupa á dagskrárefni, — að innheimtukostnaður nemur 470 þús. kr. eða 13% af afnotagjöldum hlustenda, að það skuli kosta þrisvar sinnum meira að innheimta afnotagjöldin en að flytja alla fyrirlestra, að bifreiða- og ferðakostnaður og risna kostar árlega meira en flutningur leikrita allt árið, — að skrifstofa dagskrár kostar 170 þús. kr. eða næstum 2–3 sinnum meira en allur söngur, sem fluttur er í útvarpið allt árið?

Ég á bágt með að trúa því, að hv. þm. sjái ekki, að fyllsta ástæða sé til að rannsaka slíkan rekstur og leitast við að koma á einhverjum sparnaði. Ef í ljós kemur, að það væri kleift, þá á auðvitað að nota það fé til að bæta dagskrána. — Annars grunar mig, að eitthvað annað kunni að liggja á bak við till. hv. minni hl. um að láta þá athugun ná til ríkisstofnana yfirleitt en áhugi á lækkun rekstrarkostnaðarins, og fannst mér ræða hv. 2. þm. Reykv. benda nokkuð í þá átt. Mér finnst það nokkuð andkannalegt, þegar bornar eru fram upplýsingar, sem tvímælalaust benda til, að ástæða sé til athugunar í þessum efnum hjá tilteknum stofnunum, að því sé svarað með skömmum um aðrar ríkisstofnanir og þeim brigzlað um eyðslu og sukk. Ég mæli því ekki bót, ef slíkt á sér stað, sem hv. 2. þm. Reykv. gerði að umtalsefni, en mér er ekki kunnugt um að ummæli hans hafi við rök að styðjast. Ef slíkt lægi opinberlega fyrir, mundi ekki standa á mér að vera fylgjandi ráðstöfunum, sem mættu vera til sparnaðar.

Auk tveggja þm. Sósfl. hafa 2 þm. Framsfl. andmælt till. Hæstv. landbrh. talaði um það, að hv. Alþ. yrði að gæta þess að misbeita ekki valdi sínu. Auðvitað er þetta hárrétt hjá hæstv. ráðh. Það verður hins vegar ekki sagt með réttu, að forráðamönnum útvarpsins sé gerður neinn óréttur með samþykkt þessarar till. — Það, sem hér er um að ræða, er þetta: Það skortir fé til dagskrárefnis, en hins vegar liggja fyrir upplýsingar um, að fé stofnunarinnar er að sumu leyti illa varið. Það er óþarfi að vera að ræða um tortryggni í garð viðkomandi embættismanna í sambandi við málið. Mér kom mjög á óvart, að hæstv. landbrh. skyldi bregðast við þessari till. eins og hann gerði. Hann hefur oft talað og skrifað svo sem hann hafi mjög opin augu fyrir öllu því, sem aflaga fer í þjóðfélaginu, bæði í opinberum rekstri og í einkarekstri. En hvernig snýst hann við þessari hóflegu till.? Hann sér engar misfellur í meðferð fjármuna, en talar um skort á jafnrétti. Sú grunsemd hlýtur að vakna, að annað liggi til grundvallar en næm tilfinning fyrir jafnrétti. Það skyldi ekki vera, að við sjáum spegilmynd hins pólitíska siðferðis hér á landi í afstöðu ráðherrans? — Það er kunnara en frá þurfi að segja, að pólitískir valdamenn eru furðu glámskyggnir á það, sem aflaga fer hjá samherjum sínum, en jafnskarpskyggnir á það, sem aflaga fer hjá andstæðingum sínum. Það skyldi þó aldrei vera eitthvað slíkt, sem skapað hefur skoðun hæstv. landbrh. á máli þessu? — Það hendir ýmsa að loka augunum, þegar vinir eiga í hlut, en glenna þau því betur upp á gátt, þegar um andstæðing er að ræða. Það skyldi þó aldrei vera, að þessir þrír hv. þm., sem hér hafa talað fyrir minni hl., óttist, að nú yrði of nærri höggvið einhverjum vinum.

Ég get fullvissað hv. þm. um það, að það er engan veginn tilgangur þessar till. að koma höggi á nokkurn mann. Hér er aðeins verið að stuðla að því, að dagskrá útvarpsins fái meira fé til umráða, og það er bent á ákveðna leið til að afla þessa fjár, — að draga úr hinum almenna rekstrarkostnaði útvarpsins. Þetta virðist mjög auðskilið mál og ætti ekki að þurfa að hrella neinn.