12.12.1950
Neðri deild: 37. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 121 í B-deild Alþingistíðinda. (407)

24. mál, aðstoð til bænda á óþurrkasvæðunum

Bjarni Ásgeirsson:

Herra forseti. Ég hafði upphaflega ekki hugsað mér að taka þátt í þessum umræðum, en ég er svo undrandi á þeim umræðum og á þeim rökum, ef rök skyldi kalla, sem fram hafa komið hjá nokkrum andstæðingum þessa máls hér á þinginu, sem hafa verið að þvælast fyrir afgreiðslu þess allan þingtímann, að ég get ekki látið hjá líða að segja nokkur orð.

Um undirbúning málsins undir þingmeðferð skal ég vera fáorður. Ég álít, að hæstv. ríkisstj. hafi gert sér óþarflega erfitt fyrir með afgreiðslu málsins. Ég held, að það hefði verið hægt að koma þessari aðstoð fram á miklu auðveldari hátt en hæstv. ríkisstj. valdi sér, en úr því að það var komið fram eins og það var, var ekkert annað fyrir en fylgja því þannig. Um það geta ekki verið skiptar skoðanir, að hjá því varð ekki komizt að hlaupa undir bagga hjá bændum á Austur- og Norðurlandi, ef ekki áttu af að hljótast stórslys. Ég verð líka að láta í ljós undrun mína yfir því skilningsleysi og andúð, svo að maður segi ekki fullum fjandskap gegn þessu máli og bændastéttinni, sem hefur komið fram hjá ýmsum andstæðingum málsins, sem mest hafa látið á sér bera hér á þinginu. Mér þykir það þeim mun raunalegra, sem hv. þm. mega vita og muna, að það hefur verið fastur liður á undanförnum þingum að veita aðstoð, samsvarandi þessari, til þeirrar atvinnugreinar, sem þeir telja sig málsvara fyrir. Það hefur m.ö.o. verið fastur liður að veita hér á þinginu aðstoð til vélbátaflotans, sem síldveiði hefur stundað, vegna áfalla, sem hann hefur orðið fyrir. Ég minnist þess ekki, að þeir þm., sem eru fulltrúar sveitakjördæmanna, hafi nokkru sinni reynt að leggja stein í götu þeirra mála. Ég man ekki betur en þeir hafi reynt að greiða fyrir þeim, svo að þau næðu fram að ganga eins og forsvarsmenn þeirra óskuðu eftir, og ekki reynt að hnýta aftan í þau öðrum till.

Þá vil ég minna á, að eftir sumarið 1947, þegar verið var með þessi mál hér á Alþ., þá höfðu gengið yfir Suður- og Suðvesturland svo magnaðir óþurrkar, að ég hygg, að það mætti líkja því við óþurrkana á Norður- og Austurlandi í sumar, en samt var ekki verið að binda aðstoðina við síldarútveginn því skilyrði, að líka væri hlaupið undir bagga með bændunum, þó að þeir gyldu mikið afhroð, svo að nam tugum milljóna. Þeir voru ekki styrktir, og þeir stóðu að ýmsu leyti betur að vígi en bændurnir á óþurrkasvæðunum gera núna, meðfram vegna þess, að af langvarandi þekkingu og kynnum af svona tíðarfari standa sunnlenzkir bændur betur af sér rosa en þeir, sem því eru óvanari, og hafa margir búið sig betur undir að taka á móti slíku veðurfari en norðlenzkir bændur, m.a. með því að byggja votheysgryfjur. Ég vildi minna á þetta hér til að sýna, að hér höfumst við ólíkt að. En óviðfelldnastur hefur verið málflutningur þessara manna, hvernig þeir hafa reynt að stílla málinu upp. Hv. þm. Ísaf. kom því t.d. þannig fyrir, að annars vegar væri verið að hugsa um tímanlega velferð ánna og kúnna á Austurlandi, en hins vegar tímanlega velferð fólksins á Vestfjörðum, og ríkisstj. mæti meira búféð fyrir austan en fólkið fyrir vestan. Ég skil ekki, hvers vegna jafngreindur maður og hv. þm. Ísaf. stillir málinu svona upp. Hann hlýtur að vera að reyna að koma ríg upp þarna á milli. Hann veit, að félagsmálalöggjöfin er orðin svo fullkomin, að hér deyr fólk ekki úr hungri, meðan eitthvað er til í landinu, annaðhvort verður almennt hungur eða ekkert. Hann veit líka, að ef ekki hefði verið ráðizt í þessi bjargráð, þá hefði ekkert annað en hnífurinn legið fyrir fjölda skepna, til skaða fyrir bændur og landið allt. Ég reyndi að koma hv. þm. í skilning um, hvað hann væri að fara, með innskoti, sem hann tók ekki til greina þá, en notaði svo til að lýsa, hvern mann ég hefði að geyma, mín mannúð næði ekki lengra en það, að þetta fólk mætti allt deyja drottni sínum. Og síðar meir skilst mér, að þetta hafi verið rauði þráðurinn í málflutningi hv. þm. Ísaf. og fylgismanna hans, og þetta var ekki eingöngu látið ná til mín, heldur einnig til míns flokks og mér skilst meiri hlutans hér á Alþingi. Ja, það er þokkalegur þingmeirihluti á því herrans ári 1950 samkvæmt þessari lýsingu. Ég veit ekki, hvort hér hefur vegið meira óþokkaskapurinn eða skilningsleysið, þegar slíkur málflutningur er viðhafður. En sannleikurinn er sá, að hér er ekki um alinennt framfærslumál að ræða, hvorki fyrir fólk né fénað, og ég býst við því, að fólkið á Austurlandi hefði getað lifað góðu lífi fyrst um sinn, þótt bændurnir þar hefðu orðið að fella bústofn sinn, og það hefði líklega getað borðað kjötsúpu upp á hvern dag í vetur og jafnvel fram á sumar, og ef hv. þm. Ísaf. hefði viljað létta sér upp að vori og reyna á gestrisni íslenzkra bænda, þá hefði hann sjálfsagt getað fengið að borða þennan þjóðarrétt, ef hann á annað borð leggur hann sér til munns. En eftir eitt til tvö ár hefði svo getað farið, að Austfirðingar hefðu orðið að bíta í það súra epli að vera komnir á annarra framfæri og þá ef til vill Ísfirðinga, ef rætzt hefði úr aflabrögðum þar. En þessar ráðstafanir, sem hér á að gera, eru ekki framfærslumál, heldur tilraun til að undirbyggja og öryggja annan höfuðatvinnuveg landsmanna, en þetta virðist hv. þm. Ísaf. og hans félagar ekki hafa skilið. Það er vissulega nauðsynlegt að líta einnig á þarfir sjávarútvegsins, en það verður að koma honum til hjálpar á raunhæfan hátt, og það er ekki raunhæft að kasta fram vanhugsuðum till. um óarðbæra atvinnubótavinnu. Það hefur sýnt sig, að slíkt er skammgóður vermir, og ég álít, að út í slíkar aðgerðir eigi ekki að fara, fyrr en öll önnur ráð hafa brugðizt og algert öngþveiti blasir við. Og það er ekki hægt að saka Alþingi um það, að það hafi ekki bæði fyrr og nú reynt að undirbyggja sjávarútveginn, eins og nú er verið að reyna að gera varðandi landbúnað á Austfjörðum. Ég vil minna á málið, sem við vörðum mestum hluta gærdagsins í að ræða, málið um aðstoð við vélbátaflotann, sem nú er hér næst á dagskránni. Ég vil minna á það, að þegar við vorum ríkir, þá voru keyptir 30 nýir togarar, sem dreift var út um kaupstaði landsins til að undirbyggja sjávarútveginn þar. Ég vil enn fremur minna á hinn mikla vélbátaflota, sem á sama tíma var keyptur fyrir sjávarútveginn, og ég held, að hv. þm. Ísaf. hafi stundum verið allrogginn af sinni þátttöku í því máli. Ég vil og minna á allar þær milljónir, sem varið hefur verið til að reisa síldarbræðslur og fiskimjölsverksmiðjur og hraðfrystihús, og ég leyfi mér að lokum að minna á, að þjóðin er nú af fátækt sinni að reyna að kaupa 10 nýja togara enn, og enn má geta þess, að hæstv. ríkisstj. hefur í sumar lagt í það mikla vinnu og erfiði að reyna að lempa fólkið, sem þessi tæki fékk, til að nota þau sér til framdráttar, en það gekk illa meðal annars að fá Ísfirðinga til að nota það skip, sem ríkið hafði lánað þeim meginhlutann af fénu til. Það gekk illa að fá Ísfirðinga til að nota þetta skip sér til bjargar, og létu þeir það ónotað mikinn hluta sumars. Þeir mátu meira að halda borgarafundi og senda ríkisstj. lýsingar á því, hve hörmulegt atvinnuástandið þar væri, heldur en halda út þessari dýru og góðu fleytu til þess að afla sér bjargar og bæta þannig sjálfir úr atvinnuástandinu. Það má því segja, að þeir hafi bætt gráu ofan á svart með eigin aðgerðum eða öllu heldur aðgerðaleysi, þegar þetta bætist við aflabrestinn, og það er hart, þegar þessir menn koma svo og ásaka Alþingi fyrir að reyna að bjarga því, sem bjargað varð, hjá austfirzkum bændum, sem myrkranna milli í sumar og haust reyndu allt, sem hægt var, í baráttunni við rigninguna og rosann, en gátu þó ekki aflað nægilegs fóðurs fyrir bústofninn, meðal annars af því, að þeir höfðu ekki aðstöðu til votheysverkunar, sem aftur stafaði meðal annars af því, að gjaldeyri landsmanna hafði verið varið í tæki eins og togara Ísfirðinga, sem þá þótti ekki ómaksins vert að nota til þess, að fólkið þar gæti bjargazt af sjálfu sér. Ég endurtek, að það er ekki hægt að ásaka Alþingi fyrir það, að það hafi ekki reynt að undirbyggja atvinnulífið við sjávarsíðuna, og þess vegna ætti þar að geta verið blómlegt atvinnulíf, og ég býst við, að þeirri viðleitni verði haldið áfram, til þess að þeir, sem þar búa, geti aflað sér eðlilegra lífsgæða, og það verður gert, enda þótt hv. þm. Ísaf. og blað hans leggi á það aðaláherzluna, að hér á Alþingi séu vondir menn, eins og þm. Mýr., sem vilji helzt, að atvinnulaust fólk á Vestfjörðum og víðar deyi drottni sínum.