18.10.1950
Sameinað þing: 6. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 219 í D-deild Alþingistíðinda. (4076)

15. mál, atvinnuaukning í kaupstöðun og kauptúnum

Flm. (Haraldur Guðmundsson) :

Ég vil þakka hæstv. ráðh., sem talaði, undirtektirnar. Hann taldi, að það væri ekki sanngjarnt af mér að ætlast til, að ríkisstj. hefði þegar gert ráðstafanir í sambandi við það atvinnuástand, sem ríkir á ýmsum stöðum á landinu. Ég get gjarnan sagt ráðh., hvað fyrir mér vakti í þessu sambandi. Ég hefði talið fyllstu ástæðu til þess, að ríkisstj. hefði kynnt sér atvinnuástandið á þeim stöðum, þar sem það er verst, t. d. á Siglufirði og Ísafirði, fengið um það skýrslur og athugað, hvað gera þyrfti, einmitt áður en þetta Alþ. kom saman. Ég hefði álitið sjálfsagt að gera þetta, ekki sízt með tilliti til þess, að sett var sérstök nefnd manna til að rannsaka ástandið í nokkrum sveitahéruðum landsins — sem ég er út af fyrir sig ekkert að átelja —, sem höfðu orðið sérstaklega hart úti í óþurrkunum í sumar. Það hefði verið í alla staði eðlilegt, að hliðstæðar ráðstafanir hefðu verið gerðar í sambandi við ýmsa kaupstaði landsins, vegna þess hvernig síldveiðin brást. Þetta er það, sem ég átti við í þessum efnum.

Um gengislækkunina held ég, að sé kannske ekki heppilegt að ræða í þessu sambandi. En hins vegar get ég ekki á mér setið að beina því til hæstv. forsrh., hvort honum finnist virkilega svo í hjarta sínu, að ástandið í atvinnumálunum — ég meina ástandið, en ekki útlitið, því að það er allt annað mál, — hafi batnað vegna gengisbreytingarinnar, sem gerð var á s. l. ári. Ég held, eftir því sem ég fæ séð, að það væri ekki hægt að fullyrða þetta. En sem sagt skal ég ekki fara út í umræður um þetta nú, en þakka þær undirtektir, sem forsrh. veitti till. minni. Ég vil leggja mikla áherzlu á það, að hafizt verði sem fyrst handa í þessum efnum og að ekki verði beðið eftir því, að atvinnuleysi verði svo mikið, að enn erfiðara verði að bæta úr þessu.