29.11.1950
Sameinað þing: 19. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 224 í D-deild Alþingistíðinda. (4082)

15. mál, atvinnuaukning í kaupstöðun og kauptúnum

Forsrh. (Steingrímur Steinþórsson) :

Herra forseti. Ég heyrði af ræðu hv. þm. Ísaf., að hann er farinn að undirbyggja till. þá, sem hann flutti hér ásamt fleiri hv. þm. fyrir nokkru síðan, öðruvísi en hann gerði þá. Þegar till. var flutt, var hún aðeins um rannsókn og úrbætur á yfirstandandi atvinnuleysi, en nú mælir hann fyrir till. á öðrum grundvelli, því að nú talaði hann einkum um hættu þá, sem er samfara miklum fólksflutningum milli staða, og að taka þurfi málið almennt til athugunar. Ég get vel verið honum sammála um þessi atriði, en málið er nú komið á annan grundvöll en það var upphaflega á. Þetta getur stafað af því, að sá landshluti, sem hann ber mest fyrir brjósti, sem skiljanlegt er, þar sem hann er þm. fyrir hluta hans, hafði orðið verst útí í þessum efnum, en nú hefur ástandið mjög batnað þar, og viðurkenndi hv. þm. það. Það getur verið, að ástandið í þessum efnum sé eitthvað verra en undanfarin ár, en að það sé miklu verra en venjulega, dreg ég í efa, til þess benda einnig ummæli bæjarstjórans á Ísafirði, sem sagði, að ástandið hefði mikið batnað við það, að togarinn fór á veiðar, þó að það væri ekki eins gott og ákjósanlegt væri, en slík ummæli benda til, að ástandið sé ekki óskaplegt. Á Suðureyri er ástandið ekki mjög slæmt, eftir því sem segir í bréfi frá oddvitanum þar. Þar róa allir bátar, sex að tölu, en búizt er við, að þeir stöðvist eftir áramótin, en þar er komið inn á framtíð bátaútvegsins yfirleitt, en önnur nefnd vinnur nú að lausu þess máls, og er eðlilegast, að því sé þá slegið saman. Á Þingeyri er ástandið mjög bágborið, ettir því sem oddvitinn á staðnum segir. Þar eru engir bátar við róðra og enginn togari leggur þar upp afla. Á Flateyri hefur ástandið mikið batnað síðan togarinn Akurey tók að leggja þar upp afla sinn, en þó ekki eins og ákjósanlegt væri, en það má almennt vera gott ástand á einhverjum stað til þess, að oddviti staðarins segi ekki, að það mætti vera betra í skammdeginu. Á Siglufirði hefur ástandið stórbatnað, síðan vinna hófst við flökun á karfa. Ég gæti komið með fleiri dæmi, sem sýna, að ástandið er ekki alveg eins slæmt og hv. þm. Ísaf. vill vera láta. Hv. þm. talaði með lítilsvirðingu um ráðuneytið, en það hefur þó sett sig í samband við forráðamenn bæjar- og sveitarfélaganna og reynt að gera meira í þessum efnum og a. m. k. í einu kauptúni á Vestfjörðum komið í veg fyrir, að alger katastrofa yrði og hrun. Þetta, sem ég hef nú sagt hér, ber ekki að skilja svo, að ég telji ekki einhverra aðgerða þörf, en hitt er jafnrangt, að reyna að telja Alþ. trú um, að engar breytingar hafi á orðið í þessum efnum síðan í haust, því að miklar breytingar hafa orðið sem betur fer á ýmsum stöðum, og sýnir það, hve togaraverkfallið var óskaplega óheppilegt, því að það eru fyrst og fremst togararnir, sem bjargað hafa atvinnuástandinu þar, sem það hefur batnað. Og það var á þessum grundvelli, sem félagsmálaráðuneytið lagði gegn till., bæði af því, að önnur till. er um athugun á afkomu bátaútvegsins og ákveðið var að vísa henni til n. Og hv. þm. Ísaf. veit, að þetta rennur algerlega saman og ekkert vit er í því að aðgreina aðgerðir til úrbóta hjá þessum atvinnuvegi í dag og í framtíðinni. Það er nú spurningin, hvernig á að gera vélbátaflotann starfhæfan, og Alþ. verður að greiða úr þeirri spurningu, og ég vil taka það fram í þessu sambandi út af því, sem hv. þm. Ísaf. sagði um, að ríkisstj. væri harðhent á stjórnarandstöðunni, að hún mun taka fullt tillit til tillagna hans og annarra hv. þm. í þessu máli, sem ekki eru þess efnis að gleypa við till. sem þessari, sem er þess efnis að skipa n., sem ekki hefur neitt varanlegt gildi. Slíkt er ekki hægt að fallast á. Hitt er rannsóknarefni með fólksflutningana og ástæða til að láta rannsaka, hvað er heppilegast í þeim efnum, en slíkt verður ekki gert á fáum vikum og tæpast í sambandi við úrræði til bjargar vélbátaflotanum, og er ég fús til að ræða það mál nánar við hv. þm. Ísaf. — Ég vil svo ekki lengja umr. frekar, en vil taka það fram, að ég er samþykkur hinni rökst. dagskrá á þskj. 168, frá meiri hl. allshn., og mun greiða henni atkv.