08.11.1950
Sameinað þing: 12. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 230 í D-deild Alþingistíðinda. (4095)

50. mál, innflutningur ávaxta

Sigurður Guðnason:

Herra forseti. Þar sem hv. 1. flm. þessarar till. er ekki við, vil ég segja nokkur orð. — Þetta mál er gamall kunningi. Fyrir tæpum fjórum árum var samþ. þáltill., sem var næstum samhljóða þessari till. En í grg. þessarar till. eru teknar fram ástæðurnar fyrir flutningi hennar, sem eru, eins og þegar sams konar till. var flutt hér áður, sem ég gat um, nauðsyn ávaxtanna fyrir sjúkt fólk og fyrir börn og unglinga til að verjast sjúkdómum með svo hollu viðurværi sem ávextirnir eru. En þrátt fyrir það, þó að till. væri samþ. um þetta efni fyrir nærri fjórum árum, þá hefur ekki lagazt með innflutning á þessum vörum, þannig að mönnum yfirleitt finnst við hlítandi. Þess vegna þykir okkur flm. till. rétt að taka till. upp aftur nú, þar sem við teljum, að það gæti orðið til þess, að áskorunin, sem í henni felst, yrði tekin meir til greina en gert hefur verið nú síðasta tímann, síðan næstum shlj. till. þessari var flutt og samþ. hér á hæstv. Alþ. Allan þann tíma hefur það verið ákveðin krafa fólksins, þó að lítið hafi verið gert til að fullnægja þeirri kröfu eða þeim óskum, að menn gætu haft þessa nauðsynlegu fæðu til nota. Aldrei hefur þó þennan tíma verið flutt inn svo mikið af ávöxtum, að til muna hafi verið. Það hefur komið fyrir stundum, að ávextir hafa verið fluttir inn fyrir jólin, en þá oftast óverulega.

Þegar verið er að tala um gjaldeyrisástandið í sambandi við þennan innflutning og að ekki sé þægilegt um vík að kaupa inn svona vöru, sem er talin nauðsynleg alls staðar, þar sem börn eru og veikt fólk, þá mega allir menn vera sannfærðir um það, að ef það er alveg nauðsynlegt fyrir sjúklinga að hafa þessa fæðu, þá gæti vel svo verið um börn og unglinga, að neyzla þessarar fæðu kæmi í veg fyrir sjúkdóma, sem annars kæmu fram hjá þeim.

Þar sem slík till. sem þessi var samþ. hér á hæstv. Alþ., þá má gera ráð fyrir, að enn megi treysta því, að þingvilji verði fyrir að samþ. þessa till. Vænti ég, að hv. þm. hafi ekki breytt skoðun sinni um þetta mál og samþykki því þessa till. um að gera enn á ný tilraun til þess að reyna að fá þetta framkvæmt, sem till. er um, þó að það hafi ekki fengizt gert á síðustu árum.