15.11.1950
Sameinað þing: 13. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 232 í D-deild Alþingistíðinda. (4104)

78. mál, vélbátaflotinn

Flm. (Finnur Jónsson):

Herra forseti. Á fulltrúafundi L. Í. Ú., sem haldinn var 19.–21. okt., var samþ. ályktun, þar sem lýst er yfir, að með óbreyttum aðstæðum sé ekki unnt að starfrækja vélbátaflotann á komandi vertíð, og óskar fundurinn eftir því, að Alþ. og ríkisstj. velji menn til að starfa að því ásamt stjórn og verðlagsráði L.Í.Ú. að finna lausn á vandamálum vélbátaflotans fyrir næstu vetrarvertíð, svo að hægt verði að hefja veiðar á eðlilegum tíma. Þessi till. var send ríkisstj. og Alþ., og leið nokkur tími þannig, að ekki virtist ríkisstj. ætla að sinna þessu, og því höfum við flutt þá þáltill., sem hér er á dagskrá. Ráðgert er, að aðalfundur L.Í.Ú. hefjist 20. þ. m., og er nauðsynlegt, að fyrir þann fund hefjist umr. milli L.Í.Ú. og ríkisstj., ef verða mætti að hægt væri að finna leið út úr þessu vandamáli. Nú hefur tíminn liðið þannig, að ekki er hafizt handa í þessu svo fljótt, að líklegt sé að verulegar umr. fari fram fyrir þennan fund. Hins vegar mun ríkisstj. hafa ákveðið að fela fiskábyrgðarnefnd, en í henni eiga sæti 3 ágætir sjálfstæðismenn, að tala við stjórn Landssambandsins um þessi mál, og munu viðræður hefjast um þetta í dag, og er sjálfsagt þess vert að sjá hvað út úr þeim umr. kann að koma. Ég er ekki að lýsa neinu vantrausti á fiskábyrgðarnefnd, þó ég segi, að mér þykir ekki líklegt, að úr þessum umr. verði mikill árangur. — Þar sem þetta mál er mjög aðkallandi, hafði ég ætlað mér að óska þess, að þetta mál næði samþykki án þess að það færi til n., en með því að hæstv. ríkisstj. er nú að gera nokkra athugun á þessu, þó það sé að áliti okkar flm. ekki fullnægjandi, þá get ég fallizt á, að umr. um málið sé frestað og því vísað til n. Mér þykir ekki sennilegt, að úr þessum umr. fáist mikið, vegna þess að ekki er líklegt, að lausn finnist í þessu máli, nema það komi til kasta Alþ. En það mun sýna sig næstu daga, hvort eitthvað kemur út úr þessum viðræðum, en ef það yrði ekki, þá mundi ég, ef þetta mál kæmi til umr. aftur, halda fast við þá till., að þingskipuð n. verði sett til þess að styðja málið.