15.11.1950
Sameinað þing: 13. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 235 í D-deild Alþingistíðinda. (4107)

78. mál, vélbátaflotinn

Jóhann Jósefsson:

Herra forseti. Þar sem þessi þáltill. var ekki borin sérstaklega undir sjútvn. hv. Ed., þar sem ég er form. í, eða undir mig persónulega, þá hafði ég ekki af henni að segja fyrr en ég sá, að hún var komin hér fram. — Ég held, að það sé full ástæða til að gæta vel að sér í tíma með undirbúning hjá vélbátaflotanum og ráðstafanir til þess, að hann geti hindrunarlaust starfað, og að því leyti til er ég ánægður yfir þessari yfirlýsingu, sem mér virðist hafa komið fram hjá hæstv. atvmrh. um það, að hæstv. ríkisstjórn fyrir sitt leyti setji af stað athugun á þessu máli.

Eins og ég hef áður látið í ljós, þó það hafi ekki verið hér innan þessara veggja Sþ., þá hef ég nú í fyrsta sinn á þessu ári í mínu kjördæmi orðið var við svo verulegan ugg hvað framtíðina snertir í þessum málum, ugg um afkomuna, þannig að ég hef í annan tíma ekki orðið hans meir var. Og vil ég taka það fram í þessu sambandi, að í mínu kjördæmi hefur á undanförnum árum yfir höfuð verið meiri ró yfir hugum manna hvað snertir kröfur og þess háttar hluti heldur en annars staðar. En ég hef látið það í ljós við viðkomandi stjórnarvöld, að það hefur slegið mig talsvert illa nú í haust, hversu menn horfa með kvíða fram á vertíðina og eru þess, að því er virðist, verr megnugir nú en oft áður að standa hjálparlausir. Þetta álít ég rétt að komi fram fyrir hönd þeirra manna, sem ég hef leyfi til sérstaklega að tala hér, þar sem, eins og vitað er, að um 10% af útflutningnum er framleitt í Eyjum. Og ég vil geta þess um leið, að eftir því sem ég bezt veit, þá hafa menn gert ráðstafanir til þess að auka við vélbátaflotann í Vestmannaeyjum, líklega um 8 til 10 skip frá því, sem áður var, og mundi því vélbátaflotinn, ef vel væri, vera um 90 skip á þessum stað. Þarna er um stórt spursmál að ræða. Og enn kemur það til, að fiskveiðarnar í Vestmannaeyjum gengu með mun betra móti en víða annars staðar á s. l. vetri, og þar flykktist þá að mikill fjöldi aðkomumanna til atvinnu, sem þegar vel gengur, er gott fyrir báða, bæði Eyjamenn, sem atvinnu reka, og þá, sem þangað sækja atvinnu. Og að fenginni þeirri reynslu get ég ímyndað mér, að það standi margra manna hugur einmitt til þessarar verstöðvar nú á komandi vertíð.

En allt er þetta í vafa, vegna þess að framtíðin er óvissari nú en mörgum sinnum áður. Og margt verður til þess að tálma og draga úr kjarki þeirra, sem eiga að standa ábyrgir í sambandi við atvinnureksturinn. Það hefur t. d. sent margan manninn í land frá því að stunda síldveiðar nú, hve kauptryggingin hefur orðið geysihá. Ég hef áður haldið því opinberlega fram, að það væri þjóðhættulegt að spenna kauptrygginguna svo hátt, að áhugi sjómanna snerist aðallega um kauptrygginguna, en minna um veiðarnar. Þetta bið ég alla góða menn að athuga. Ég er þeirrar skoðunar, að einhver slík trygging þurfi að vera fyrir þá, sem á bátunum eru. En að spenna kauptrygginguna upp í svo mikla hæð sem ég benti á, að það væri af sjómönnum meir litið á kauptrygginguna heldur en nokkurn tíma aflabrögðin, í því er afturför fólgin. Og það liggur í því, að fyrir það beita menn sér ekki eins og skyldi við veiðarnar, en binda hug sinn meir við önnur atriði en að veiðarnar gangi sem bezt.

Mér þykir vænt um að heyra frá hæstv. atvmrh., að hæstv. ríkisstj. ætlar að hreyfa þessu máli í sambandi við Landssamband ísl. útvegsmanna, með þar til hæfum mönnum. Ég veit vitanlega ekki á þessu stigi um það, hvort það spor verður stigið nógu langt, en það er þó vissulega spor í áttina til þess að reyna að finna viðunandi grundvöll í þessum efnum. Og sá grundvöllur verður að fást, og því fyrr sem hann er fundinn, því betur. Fiskurinn hefur ekki selzt nærri eins vel og menn þyrftu að selja hann til þess að mæta tilkostnaðinum. Þó hefur verðfallið alls ekki verið eins mikið t. d. á saltfiskinum og hefur komið fram í ræðum sumra hæstv. ráðh., — þó undanskil ég þar ræður hæstv. atvmrh. Því hefur verið haldið fram hér í þinginu, að saltfisksverðið hafi fallið það á erlendum markaði, síðan gengislögin voru sett, að það næmi 20%. Þessu hef ég heyrt haldið fram í ræðum og séð haldið fram á prenti. Og sumir hafa tekið dýpra í árinni en þetta um það atriði. En sannleikurinn er sá, að saltfiskverðið hefur á þessu tímabili lækkað um 5 til 6%. En það er samt sem áður veruleg lækkun frá því, sem var. Og við hana ráðum við ekki, nema þá með einhverjum sérstökum aðgerðum.

En það verður að gefa því vel gaum, að hjá bátaflotanum, sem nú á að hefja veiðarnar um áramótin, fari sem minnstur tími í biðir. Það er. gefinn hlutur, líka með tilliti til þess, hvert vöruverð er nú og hve háa víxla útgerðin nú þarf að fá í bönkunum, að erfiðleikar útgerðarinnar verða bátaútvegsmönnum þyngri í skauti nú en nokkurn tíma áður. Þess vegna er það einu liðurinn í því, sem þarf að gera af hálfu þess opinbera nú, að létta útgerðarmönnum aðgang að það bærilegum og ríflegum lánum handa útveginum, að þeir menn, sem að bátaútveginum standa, verði ekki komnir í kör í þeim efnum áður en þeir fara á flot.

Ég vildi sem form. sjútvn. Ed. og fulltrúi fyrir eina stærstu útvegsstöð landsins ekki láta slíkt vandamál og þýðingarmikið mál fram hjá mér fara, án þess að taka undir þær raddir, sem heyrzt hafa um, að nauðsynlegt sé að tryggja afkomu og framtíð þessa atvinnuvegar, eins og reyndar þingið hefur gert ráðstafanir til á mörgum undanförnum árum. Og við vitum af reynslunni, að því betur sem það er grundvallað og því fyrr sem gáð er að sér í þeim efnum, því líklegra er, að góður árangur fáist af afskiptum þess opinbera á þessu mikilvæga sviði atvinnulífsins.