15.11.1950
Sameinað þing: 13. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 241 í D-deild Alþingistíðinda. (4112)

78. mál, vélbátaflotinn

Atvmrh. (Ólafur Thors) :

Mér er ekki ljóst, fyrir hvað hv. 4. þm. Reykv. er að deila á mig, því hann hóf mál sitt með því að segja, að sér fyndist ég hafa gert frekar minna en við mætti búast í þessu máli. Það er þó upplýst í málinu, að þegar í stað þegar það var skýrt fyrir hæstv. forsrh., þá ríkti milli okkar misskilningur um það, hann býst við að ég taki málið upp sem sjútvmrh., en ég býst við að hann muni sem forsrh. greiða fyrir málinu í ríkisstj. Þegar þetta er upplýst, þá tek ég málið upp fyrir ríkisstjórnarfund, og sama dag sem ríkisstj. heldur þennan fund þá afgr. ég málið frá mér til hlutaðeigandi n., fiskábyrgðarnefndar. Þetta er upplýst. Það eina, sem þá mætti ásaka mig fyrir, væri þá það, að ég hefði ekki hreyft málinu strax og ég varð var við þetta bréf, sem virðist hafa verið samþ. 24. okt. En ég fullyrði, að ég hafði ekki séð þessa till. Landssambandsins fyrr en nokkrum dögum seinna, eins og ég áðan sagði. Á hverjum ríkisstjórnarfundi eru mörg stór mál, sem stj. ræðir um. Það er alveg rétt eftir mér haft, að ég tel þetta afar mikið vandamál, en hv. þm. segir, að af því leiði, að það sé undarlegt, að atvmrh. skuli ekki þegar í stað taka tveim höndum því heilræði, sem hér er bent á til úrlausnar þessum voveiflega vanda. Hv. þm. segir, að ég hafi sjálfur í þessum efnum bent á menn, sem hann sízt vilji gera lítið úr, en honum fannst ekki allsendis rétt ályktað hjá mér, ef ég teldi, að þessir menn mundu allt í einu finna upp eitthvert snjallræði til úrlausnar þessum óvenjulega vanda. Ég viðurkenni með honum, að það hefði ekki verið skynsamlegt af mér að búast við, að þessir menn gætu leyst höfuðvandann um leið og þeir litu á hann. En ég spyr hv. þm.: Býst hann við, að þetta hefði verið allt miklu sigurstranglegra, þó að þessir menn, sem hafa verið valdir til samstarfs við Landssambandið, hefðu verið skipaðir af Alþ. og þá, eins og sagt er, eftir pólitísku vali? Ég held, að það sé undir öllum kringumstæðum rétt byrjun í þessu máli, að ríkisstj. velur sína trúnaðarmenn, sem um mörg ár hafa starfað á vegum ríkisins og flest undanfarin ár starfað að rannsókn á verðlagi sjávarafurða og jafnan verið samningsaðili fyrir hönd ríkisstj. gagnvart útgerðarmönnum, þegar útgerðarmenn gerðu till. á hendur ríkinu um fiskábyrgðina. Ég tel því líklegra til að komast að niðurstöðu um þörf útvegsins að fela þessum mönnum — heldur en þingnefnd — að athuga þetta mál, enda má minna á það, að sjálft Landssambandið ber fram till. um, að ríkisstj. útnefni menn til þess að reyna að leysa þessi mál. Hvað ríkisstj. áhrærir, þá varð hún við þessum tilmælum, sem til hennar hefur verið beint, og ég vil aðeins minna hv. þm. á það, að þessir menn, sem þarna eru valdir, sem hann viðurkennir eins og ég, að séu mætir menn, þeir eru ekki fyrst og fremst starfsmenn útgerðarmanna, þeir eru engu síður starfsmenn ríkisins, a. m. k. sumir þeirra, en hafa auk þess skyldu til að gera ríkisstj. rétta grein fyrir sínu áliti í málinu. Ég hafði hugsað mér, að gangur málsins yrði sá, að þegar þessi viðtöl hefjast, þá feli ríkisstj. þessum mönnum að mynda sér skoðun um það, hvað tiltækilegt sé að gera, og málið komi síðan til afskipta Alþ. Það eina, sem ég get séð ágætt í því að hafa þingmenn til viðbótar slíkri n., sem ríkisstj. fæli að rannsaka málið, væri, ef það ætti að vera ráð til þess að þingflokkarnir væru betur undirbúnir að taka ákvörðun vegna þess að þeir hefðu sína umboðsmenn í þessu starfi. En ég efast um, að þingflokkarnir eigi kunnáttumenn í hópi útgerðarmanna, sem standa í beinu sambandi við þingflokkana og vita allt í þessum efnum, sem slík þingnefnd er líkleg til að fá fróðleik um. Annars verð ég að segja það, að þessar umr. eru meira um þá hlið málsins, sem minna máli skiptir, heldur en sjálft aðalefnið.

Varðandi uppástungu hv. 1. flm. um það, að þessari till. sé vísað til n., þá hef ég ekkert við það að athuga, og ég vil bæta því við, að ég tei eðlilegt, að hún fari til n. og sé haldið þar þangað til í ljós kæmi, hver verður árangur þeirra viðræðna, sem þarna er stofnað til.