08.01.1951
Sameinað þing: 29. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 250 í D-deild Alþingistíðinda. (4139)

111. mál, sjóveðskröfur síldveiðisjómanna

Flm. (Áki Jakobsson):

Mál það, sem hér liggur fyrir, er gamalt mál og hefur einnig oft borið á góma í sambandi við umr. um önnur mál í þinginu. Snertir það ákvæði h nr. 100 frá 1948, sem tóku gildi 31. des. það ár og hafa að geyma þau ákvæði, að útvegsmönnum sé ekki skylt að gera upp við menn sína kaup þeirra, nema þeir óski þess sjálfir. Þegar þetta var sett í l. 1948, var sagt, að hér væri aðeins um bráðabirgðaástand að ræða, og daginn, sem það gekk í gildi, var hindruð öll viðleitni frá hendi sjómanna að knýja fram greiðslu á kaupi sínu, sem þeir áttu inni, og þá áttu margir inni frá 1948. Það varð þá úr, að ríkissjóður lagði fram peninga skömmu eftir áramótin 1948–49 til þess að innleysa sjóveðskröfur frá síldveiðunum 1948, en þetta hefur farið svo í einstöku tilfellum, að menn eiga inni frá 1948, frá 1949 og nú frá 1950. Það hljóta allir að sjá, að þetta getur ekki gengið, þetta er atvinna þessara manna, og hvernig eiga nú fjölskyldumenn, sem enn eiga kaup sitt ógreitt, margir í tvö ár og sumir í þrjú ár, að fara að því að komast af? Það var að sjálfsögðu þægilegri lausn að þurfa ekki á sínum tíma að vera að grufla út f, hvernig ætti að leysa þessi mál, heldur banna mönnum að gera þessar sjálfsögðu kröfur, en ríkisstj., sem þessa till. flutti, hlýtur þó að hafa gert sér fyllilega ljóst, að þetta gæti ekki gengið svona til lengdar, að menn væru hindraðir í því að knýja fram greiðslu á kaupi sínu, og ég furða mig á því, að verkalýðsfélögin skuli ekki hafa sagt: Þetta skip fer ekki út fyrr en búið er að gera upp við mannskapinn. — Og ég er sannfærður um það, að samtök launþega á þurru landi hefðu ekki látið viðgangast, að samþ. væru á þinginu lög um það, að atvinnurekendur væru ekki skyldugir að borga þeim kaup og þeir sviptir aðstöðu til að knýja fram, að þeim væri borgað kaup, enda er nú svo komið, að þetta verður ekki lengur þolað af verkalýðssamtökunum, ef Alþ. sér ekki sóma sinn í því, úr því að það er ekki búið að leysa til sín þessar kröfur, að gera það á næstunni og hlutast til um, að viðkomandi aðilum verði greitt út kaupið.

Það er í rauninni ekki þörf á að orðlengja meir um þetta mál, svo mjög sem það hefur verið rætt hér í þinginu áður. Höfuðatriðið er þetta, að ráða bót á því vandræðaástandi, sem stafar af því, að sjómenn eru hindraðir í því að krefjast greiðslu á sínu kaupi, og leitt hefur til stórvandræða fyrir allan þorra þeirra sjómanna í landinu, sem starfað hafa við bátaflotann undanfarið. Í till. er lagt til, að ríkisstj. ráði bót á þessu ástandi, annaðhvort með því að leysa sjálf til sín þessar sjóveðskröfur eða fá aðra til þess, en það að hindra viðkomandi sjómenn í því að knýja fram greiðslu á kaupi sínu eru engar endanlegar ráðstafanir á málinu í heild sinni. — Ég vil svo að lokum leyfa mér að leggja til, að málinu verði að lokinni þessari umr. vísað til síðari umr. og hv. fjvn.