28.02.1951
Sameinað þing: 48. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 255 í D-deild Alþingistíðinda. (4143)

111. mál, sjóveðskröfur síldveiðisjómanna

Finnur Jónsson:

Herra forseti. Ég hef áður látið í ljós álit mitt á því, hve ósæmandi og ósanngjörn meðferð Alþ. hefur verið á þessum málum, þar sem það hefur meinað sjómönnum að ganga að sínum kröfum og hindrað með því, að þeir fengju kaup sitt borgað. Ég held því, að það sé nauðsynlegt að fá þetta mál afgr. á farsælan hátt hér í þinginu. Í sambandi við till. meiri hl. fjvn. vildi ég segja það, að ég álít, að n. hafi ekki athugað það nægilega, að með till. er stjórn skuldaskilasjóðs gefinn frestur til 1. júlí til að greiða þessar kröfur. Mér skildist á hv. frsm. og form. fjvn., að hann væri fullur af velvilja til þessa máls og hann teldi nauðsynlegt að afgreiða það hér á Alþ. áður en þingi lyki. Ég vildi nú benda á, að ég sé enga ástæðu fyrir stjórn skuldaskilasjóðs að draga að greiða út sjóveðskröfur, ef hún hefur gengið úr skugga um, að þær séu réttmætar, að draga að greiða þær þar til lokið er uppgjöri hinna ýmsu fyrirtækja, eins og hv. meiri hl. fjvn. leggur til með sinni till.

Í sambandi við það, að það er vandalaust að gera upp á milli hins almenna uppgjörs hjá stjórn skuldaskilasjóðs og kröfulýsinga fyrir sjóveðskröfum, þá hefur mér komið til hugar að leggja fram skriflega brtt. við brtt. meiri hl. n., þannig að endir till., eins og hann er í þskj. 716, breytist, og verði till. þá orðuð þannig: „Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að hlutast til um, að innköllun skulda í sambandi við skuldaskil bátaútvegsins og uppgjöri verði hraðað svo sem frekast er unnt og handbært verði nauðsynlegt fé til þess að greiða viðurkenndar sjóveðskröfur jafnskjótt og kröfulýsingar hafa borizt stjórn skuldaskilasjóðs fyrir greiðslukröfum, er hún metur gildar.“ — Það er búið að fara þannig að með þessar sjóveðskröfur, að það er búið að lýsa þeim a. m. k. tvisvar sinnum, og ef rétt segir í fskj. II á þskj. 643, þá hefur a. m. k. ein aðstoðarbeiðni glatazt, og má vera, að þær séu fleiri, sem hafa glatazt. Nú virðist mér það ætti að vera auðvelt fyrir stjórn skuldaskilasjóðs að gefa upp þau fyrirtæki, sem ekki koma til greina með aðstoð, svo að sjómenn geti gengið að kröfum sínum hjá þeim. Og það hlýtur að vera hægt að komast hjá því að fara þannig með sjóveðskröfurnar, að þær séu orðnar árs gamlar, er þeim er sinnt. Ég vil benda á, að það er mjög hættulegt fyrir þjóðina og sérstaklega fyrir útgerðina, ef greiðsla á þessum kröfum dregst, þar sem það gæti orðið til þess, að erfitt yrði fyrir þá, sem vildu reyna síldveiði í sumar, að fá menn á bátana. Það yrði því mjög mikil hætta á, að síldveiðiflotinn stöðvaðist, ef þessu uppgjöri verður ekki lokið fyrir 1. júlí. Ég vænti þess svo, að hv. meiri hl. fjvn. geti fallizt á breyt., sem gengi í þá átt, sem ég hef nú lýst.