31.01.1951
Sameinað þing: 34. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 261 í D-deild Alþingistíðinda. (4153)

113. mál, niðurgreiðsla á olíu til rafstöðva

Jóhann Jósefsson:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð til þess að styðja mál þess hv. þm., er síðast talaði og er flm. þeirrar till., er hér ræðir um. Ég held, að hin fyllsta sanngirni mæli með því, að litið sé á þetta mál af velvild og skilningi, því að það er ekki gengisbreytingin ein, sem hefur orðið til þess að hækka olíuna, heldur hefur verðhækkun utanlands einnig komið til skjalanna og getur orðið enn meiri, eftir gangi málanna í heiminum. Það er nú svo, að á þeim stöðum, þar sem slíkar stórar dieselvélaaflstöðvar eru komnar upp, hefur fólkið keypt öll áhöld til matargerðar og annað slíkt og byggt sitt daglega líf á notkun rafmagnsins, eins og von er til, þegar slíkar stöðvar til almennra nota eru reistar á annað borð.

Ég vil ekki tefja á neinn hátt umr. um þetta mál, en læt í ljós ánægju mína yfir því, að till. er fram komin, og vona ég, að hæstv. Alþ. líti rétt á málavöxtu og veiti þessu máli góðan framgang.