31.01.1951
Sameinað þing: 34. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 261 í D-deild Alþingistíðinda. (4154)

113. mál, niðurgreiðsla á olíu til rafstöðva

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Þessi till. á þskj. 207 er þess efnis, að Alþ. álykti að fela ríkisstj. að lækka verð á hráolíu til rafstöðva, sem reknar eru af opinberum rafveitum til almenningsþarfa, á þann hátt, að lækkunin nemi gengisbreytingunni. Það hafa komið mjög háværar raddir frá þeim fjöldamörgu sveitarfélögum, sem hafa orðið að reka rafstöðvar með olíu, vegna þess að þeim hefur verið neitað um þá aðstoð frá því opinbera að koma á hjá sér vatnsraforkustöðvum, eins og gert hefur verið annars staðar á landinu, t. d. á Suðurlandsundirlendinu. Það er sjálfsagt eftir þeim ráðstöfunum, sem gerðar hafa verið nú á síðustu árum, að þessir hlutar landsins hljóta að verða að bíða enn nokkur ár, áður en nokkrar vonir standi til þess, að þeir geti notið sömu hlunninda og þeir, sem þegar hafa fengið rafmagn eða búið er að gera ráðstafanir til, að geti fengið rafmagn á næstu árum, þar sem 100 millj. kr. eru teknar í fjárfestingu til einstakra héraða, eins og kunnugt er í sambandi við Sogsvirkjunina og Laxárvirkjunina. Það er ekki einasta, að þessar ráðstafanir hafi haft mjög mikil áhrif á fjárfestinguna í landinu, heldur koma þær einnig í veg fyrir, að þessir landshlutar, sem hér um ræðir, geti á næstu árum fengið þau hlunnindi, sem hér er verið að gefa öðrum héruðum landsins. Og það var með þetta fyrir augum, að við hv. 6. landsk. bárum fram í Ed. frv. um ný orkuver og orkuveitur, þar sem við leggjum til, að ríkisstj. verði heimilað að láta virkja Dynjanda á Vestfjörðum og að sett verði þar inn sem bráðabirgðaákvæði á eftir 6. gr., að þar til þeim framkvæmdum væri lokið, skyldi raforkusjóður greiða til þessara dieselrafstöðva á Vesturlandi sams konar upphæð og lánuð er til rafveitna ríkisins sem verðmiðlun á rafmagninu. Því að það er það, sem gert er nú, að þegar búið er að koma upp hinum dýru rafstöðvum, þá er auk þess greitt fé úr raforkusjóði til þess að mæta rekstrarhallanum á næstu árum, svo að verðið þurfi ekki að vera hærra þar en annars staðar á landinu, því að það er ekki aðeins, að þessar stöðvar fá þá aðstoð, sem ég hef lýst, heldur í viðbót þá aðstoð að fá úr raforkusjóði nægilegt fé til þess að miðla verðinu frá ári til árs. Þess vegna settum við þetta ákvæði hér inn og sendum þetta mál síðan allt til raforkumálastjóra, sem leggur mjög mikið á móti því, að slíkt réttlætismál nái fram að ganga. Þegar vitað er, að ekki er unnt að koma þessu máli fram á þann hátt, sem ég hef lýst, þ. e. með þessu frv. okkar hv. 6. landsk., þá er nauðsynlegt að taka málið upp á þeim grundvelli, sem það er tekið hér í hv. Sþ., því að það verður náttúrlega engan veginn þolað um mörg ókomin ár, að nokkur hluti þjóðarinnar, og þá sá hluti, sem virðist búa við erfiðustu lífsskilyrðin, fái ekki að njóta þeirra hlunninda, sem margir aðrir ýmist njóta nú þegar eða koma til með að njóta núna alveg á næstunni.

Ég vil í sambandi við þetta benda á hinn geysimikla verðmun á rafmagninu á hinum einstöku stöðum. Samkvæmt skýrslu frá raforkumálastjóra kostar kílóvattstundin í Rvík 22.8 aura, og er þá að sjálfsögðu átt við, að allt aflið sé selt hér við vegg, en á Patreksfirði kostar kílóvattstundin 90.5 aura, eða m. ö. o. meira en fjórfalt meira en í Rvík. Það er auðséð, að það er útilokað fyrir þennan stað, þar sem rafmagnið kostar svona miklu meira, að una við slíkt, hvort heldur er fyrir fólkið sjálft til heimilisnota eða til iðnaðar á þessum stað, en iðnaðarfyrirtæki á þessum stað eru einmitt nákvæmlega eins háð rafmagnsverðinu og þau iðnaðarfyrirtæki, sem eru hér á Suðurlandsundirlendinu. Ég held því, að það verði með einhverjum ráðum, annaðhvort með beinum niðurgreiðslum eða verðjöfnun á rafmagninu, að bæta þessu fólki þetta upp, sem þannig er ástatt um og búið er að vera þannig ástatt um í mörg ár, beinlínis fyrir aðgerðir Alþ., vegna þess að aðrir staðir hafa verið látnir ganga fyrir, sem ég út af fyrir sig skal ekki ámæla Alþ. fyrir, — það hafa víst legið fyrir því sterk rök, en það liggja einnig til þess sterk rök að bæta úr þessu ástandi.

Ég vil í sambandi við þetta leyfa mér að benda á annað atriði, sem ég hef minnzt á tvisvar á yfirstandandi þingi, án þess að ég hafi heyrt um, að nokkuð hafi verið gert í því máli. — Þegar fjárl. voru til afgreiðslu í fjvn., lágu fyrir n. þær upplýsingar frá innkaupastofnun ríkisins, að hún hefði gert samning við Olíufélagið h/f um kaup á olíu fyrir allar ríkisstofnanir, og verðið á olíunni er í Hvalfirði kr. 480.00 á tonnið. Nú hafa fengizt um það upplýsingar frá verðgæzlustjóra, að olíuverðið hjá þessu sama fyrirtæki og öllum öðrum olíufélögum hafi af verðlagsstjóra verið ákveðið 585 kr. tonnið, eða með öðrum orðum nærri 105 kr. hærra til almennings í landinu en til ríkisstofnana. — Ég skal ekki þreyta hv. þm. með fleiri tölum, þó að ég gæti nefnt fleiri dæmi, en þetta nægir til þess að sýna fram á, að hér eru ríkisstofnanir látnar búa við allt annað og miklu hagkvæmara verð en önnur ríkisstofnun ákveður, að leyfilegt sé að krefja almenning í landinu. Ég verð að segja, að ef ástæða er til að samþ. þá till., er hér liggur fyrir, þá er sannarlega enn meiri ástæða til þess að rannsaka, hvernig stendur á þessum mismun á olíuverðinu til ríkisstofnana annars vegar og almennings hins vegar. Ég vil leyfa mér að vænta þess, að hæstv. ríkisstj. láti einmitt í sambandi við þetta mál athuga og rannsaka, hvernig stendur á því, að sömu aðilum og geta gert sölusamning á olíu til ríkisfyrirtækis fyrir rúmlega 480 kr. tonnið skuli vera leyft af verðlagseftirlitinu að selja þessa sömu vöru á 105 kr. hærra hvert tonn til almennings, sem verður stór skattur á útveginn í landinu, raforkuframkvæmdir í landinu og á hvern einasta þegn í landinu. Og mér er sagt, að þessir sömu menn, sem gert hafa þessa samninga, hafi staðið upp í verðlagseftirliti og krafizt þess, að þeim yrði leyfð enn meiri hækkun en hér hefur verið tilgreind, til þess að geta náð sér enn meir niðri á almenningi. Ég vil fá upplýst hér: Er verið að gefa ríkisstofnunum stórkostlegt fé í sambandi við þessa samninga, eða er verið að taka stórar fjárfúlgur af almenningi í landinn að óþörfu? Ég á bágt með að trúa, að nokkur olíuseljandi geri slíkan samning við ríkisstofnun um sölu á olíu, en annars er náttúrlega fyllsta ástæða fyrir ríkisstj. að láta rannsaka þetta allt saman. — Ég minntist á þetta mál í sambandi við afgreiðslu fjárl., en hef ekkert heyrt á það minnzt síðan og nota því tækifærið til þess að minna á, að þetta mál má ekki liggja þannig. Það verður að fást upplýst, hvernig á þessu stendur, og ég hygg, að ef það gæti orðið til þess, að lækka mætti um t. d. 20% alla olíu bæði til fiskiflotans og einnig til rafstöðva, þá sé vel, að þessu máli hefur verið hreyft, hvort sem á því fást úrbætur í sambandi við þessa till., sem hér er til umræðu, eða í einhverju öðru formi. Ég vil fyrst og fremst vænta þess, að þetta mál verði upplýst, m. a. fyrir fjvn., og enn fremur, að tekið verði í það vel og réttlátlega að gera hér miðlun á rafmagnsverðinu, eins og farið er að vissu leyti fram á hér í till., því að ég sé ekki, að það sé hægt að búa við þetta árum saman, að nokkur hluti þjóðarinnar sé látinn greiða hærra verð fyrir rafmagn en aðrir íbúar landsins.