31.01.1951
Sameinað þing: 34. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 264 í D-deild Alþingistíðinda. (4155)

113. mál, niðurgreiðsla á olíu til rafstöðva

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Herra forseti. Það sýnist rétt, að þetta mál fái athugun hjá fjvn., ég geri ráð fyrir, að það komi fram till. um að vísa því þangað. Það er vandamál, hvernig með þetta skuli fara, þar sem um er að ræða raforku frá dieselstöðvum. Ég mun þó ekki ræða það við þessa umr., en vil aðeins benda á það, að ef Alþ. vill láta greiða niður eða koma fram verðjöfnun á rafmagni, þá er ekki nægilegt að álykta aðeins um það, að rafmagnið skuli greitt niður, heldur verður líka að sjá fyrir því, hvar á að taka peningana til þess að greiða þetta niður. Um það, sem hv. þm. Barð. sagði varðandi verðlag á olíu, þá sýnist mér sjálfsagt, að fjvn. afli upplýsinga um það, hvernig á því stendur, að svo mikill verðmunur er á þeirri olíu, sem ríkið kaupir, og hinu almenna olíuverði, og þá er rétt, að n. sneri sér til hæstv. viðskmrh. og fengi hans fyrirskipanir til þess að fá upplýsingar um þetta mál.