24.01.1951
Sameinað þing: 32. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 264 í D-deild Alþingistíðinda. (4162)

119. mál, fjárþörf landbúnaðarins

Flm. (Ingólfur Jónsson) :

Herra forseti. Ég hef leyft mér að bera fram till. á þskj. 226 um athugun á fjárþörf landbúnaðarins. Þessi till. hefur nú legið lengi fyrir þinginu án þess að hafa verið tekin fyrir, en það ætti ekki að koma að sök, og ætti að vera hægt að afgr. hana frá þessu þingi áður en því lýkur.

Till. þessi er í fjórum liðum. Í fyrsta lagi að álykta að fela ríkisstj. að láta fram fara nákvæma rannsókn á því, hve mörg íbúðarhús í sveit þarf að endurbyggja næstu 5 ár. Er hér átt við hús á jörðum, sem nú eru í ábúð, en þar sem er svo slæmur húsakostur, að nauðsyn ber til að endurbyggja húsin. Auðvitað þarf einnig að hafa í huga, hvað líklegt má telja, að byggt verði á mörgum eyðijörðum á þessum tíma. Um það, hvaða nýbýli muni verða reist á þessu tímabili, er nýbýlastjórn ríkisins færust um að gera áætlun um, og geri ég ráð fyrir, að drög að slíkri áætlun liggi fyrir þar, og þurfi því ekki sérstaklega að gera ráðstafanir í því efni til þess að afla upplýsinga eða gagna. Þó að mikið hafi verið gert á síðustu árum að því að bæta húsakost landsmanna og margir hafi þegar byggt upp á jörðum sínum, þá er hitt ljóst, að það eru enn ákaflega mörg býli, sem eru illa hýst, og tæplega hægt að telja mannabústaði þau húsakynni, sem margir verða enn að sætta sig við. Og þegar athugað er, hve byggingarkostnaður er nú orðinn hár, þá er því meiri þörf á því nú en áður að gera sér fulla grein fyrir þessu, hvað hér er um mörg íbúðarhús að ræða og hve mikið fjármagn muni þurfa á næstunni til þess að uppfylla þær kröfur að bæta úr þeirri þörf, sem hér er á ferðinni. Þegar l. um landnám, nýbyggðir og endurbyggingar í sveitum voru afgr. frá hv. Alþ. 1946, þótti það myndarlegt átak, sem þar var gert, og það var það vissulega. Þá var með þeim l. gert ráð fyrir að leggja 5 millj. kr. til hliðar árlega vegna landbúnaðarins, til ræktunarframkvæmda, til íbúðarhúsabygginga, peningshúsabygginga o. s. frv. Ýmsir töldu, að með þessu átaki værum við að lyfta Grettistaki; það fjármagn, sem hér kæmi til nota, mundi nægja að miklu leyti fyrst um sinn til þess að svara eftirspurn byggingarframkvæmda í sveitum. Það má vera, að ekki hafi verið farið lengra í að gera sér grein fyrir því, að þetta mætti nægja, miðað við það verðlag, sem þá var á byggingarefni og ræktunarkostnaði. En síðan 1946 hefur margt breytzt. Ég vil fullyrða, að byggingarkostnaður hafi nærri tvöfaldazt síðan, byggingarefni stórlega hækkað og vinnulaun, þannig að það muni láta nærri, að hús, sem kostaði 50 þús. kr. árið 1946, kosti nú hartnær 100 þús. kr. En með l. frá 1946 og þessu mikla fjármagni, sem menn töluðu þá um, þá kom fljótt í ljós, að ekki mundi verða hægt að fullnægja l. Lögin gerðu ráð fyrir, að heimilað væri að lána allt að 75% af kostnaðarverði íbúðarhúsa, en þá kom á daginn, að það fjármagn, sem byggingarsjóðurinn hafði yfir að ráða, hrökk ekki nærri til að fullnægja þessu atriði, og varð því stjórn byggingarsjóðsins að gera annaðhvort, að neita mörgum um lán eða þá að takmarka upphæðina við miklu lægri prósentur en heimilað var í l. Og stjórn sjóðsins tók þá stefnu að reyna að lána flestum þeirra, sem sóttu um lán, og lækka lánsupphæðina, og tel ég, að þar hafi verið farið rétt að, því að þótt þau 45 þús. kr., sem hefur verið hámarkið til íbúðarhúsabygginga undanfarið, hafi verið allt of lítið, hefur það verið mikill styrkur fyrir þá, sem hafa orðið að byggja upp, og tel ég, að hér hafi verið tekin upp alveg rétt stefna, að lána í fleiri staði, þó að minna kæmi í hlut hvers eins, úr því að féð, sem sjóðurinn réð yfir, reyndist vera of lítið, og má segja, að með þessu móti hafi fleiri fengið úrlausn, þó að þetta hafi verið of lítið. En það má geta nærri, hvernig þetta er nú, þegar ekki hefur verið hægt nema að nokkru leyti að fullnægja l. frá 1946 með því verðlagi, sem þá var á byggingarefni. Geta þá allir séð, hvað það er fjarri lagi, að hægt sé að fullnægja lagabókstafnum með því verðlagi, sem nú er á byggingarefni. Það er því ljóst, að það verður með einhverjum ráðum, ef byggingarframkvæmdir eiga ekki að stöðvast í sveitum á næstu árum, að afla byggingarsjóði mikils fjár fram yfir það, sem hann nú hefur, og tel ég, að áður en farið verði að gera réttmætar kröfur til fjáröflunar fyrir sjóðinn, þá sé bezt að hafa gert sér fulla grein fyrir því, hve mikla fjárþörf hér er um að ræða, og sé það bezt gert með því að afla sér skýrslna um það, hve mörg íbúðarhús það eru, sem nauðsynlegt er að byggja á næstunni, og er þá einnig rétt að hafa í huga, hve líklegt megi telja, að margar eyðijarðir muni byggjast nú á næstunni og þá einnig að sjálfsögðu líka, hve mörg nýbýli muni verða stofnuð, því að íbúðarhús á nýbýlum hafa einnig fengið lán úr byggingarsjóði.

Um 2. liðinn má segja nokkuð svipað og að framan hefur verið sagt, nema það er ástæða til að taka fram í sambandi við peningshúsin, að það er ótrúlega mikið fé, sem hver bóndi verður að binda í byggingu peningshúsa, og ég fullyrði, að það er miklu meira fé en margur gerir sér grein fyrir, sem ekki hefur fengizt við búskap eða er ekki í nánum tengslum við bændur. Það hefur raunar undanfarin ár verið mikið byggt af fjósum, fjárhúsum og öðrum peningshúsum, nokkuð af votheysgryfjum og öðrum framkvæmdum, sem að búskap lúta, en það er ákaflega mikið eftir af þessu, sem aðkallandi nauðsyn er að framkvæma á næstu árum. Og þegar það er athugað, að til skamms tíma hafa hús bænda, peningshús og íbúðarhús, í þessu landi verið byggð úr óvaranlegu efni, þannig að hver kynslóð hefur kannske tvisvar eða þrisvar orðið að byggja sömu húsin, þá er vitanlega eðlilegt, að það sé mikið ógert enn af þessu tagi, þar sem ekki eru nema tiltölulega fá ár síðan farið var að nota varanlegt byggingarefni í landinu. Síðan bændur fóru almennt að selja mjólk til kaupstaðanna, hafa kröfur um byggingu fjósa verið mjög harðar, en þó réttmætar, og það hefur leitt til þess, að bændur hafa hver af öðrum orðið að verða við þessum kröfum. Og mér er kunnugt um það, að dýralæknar, sem ferðast um héruðin á mjólkursölusvæðinu, segja við bændur: Já, góði minn. Þú verður fyrst að endurbyggja fjósið þitt á einu eða tveimur árum, en fyrir þann tíma verður þú að hafa lokið því, því að annars mátt þú búast við að fá ekki að selja mjólk þína til neyzlu í mjólkurbú. — Og þegar um þetta er að ræða, verður að endurbyggja fjósið, hvað sem það kostar, og nú er talið, að hver bás í fjósi kosti frá 3 og upp í 6 þús. kr., eftir því, hvernig hagar til með byggingarefni og eftir því, hvað bóndinn er hagsýnn, þegar hann á við þessar framkvæmdir. Þá kostar 20 kúa fjós um 100 þús. kr. Já, það er ekki hægt að ætlast til þess, að bóndinn hafi þessa peninga í handraðanum, en honum eru settir úrslitakostir, annaðhvort verður hann að endurbyggja fjósið eða mjólkursalan er stöðvuð. — Ég nefni þetta dæmi, ef einhver efast um fjárþörfina í þessu skyni, því að hér er ekki um neinn leik að ræða, heldur er hér brýn nauðsyn á ferð, sem verður að fá úrlausn. — Sama máli gegnir vitanlega um önnur peningshús, þau verða að vera í sæmilegu standi, og þetta kostar ótrúlega mikið fjármagn, en úr því verður að bæta.

Nú síðustu ár hafa komið fram háværar raddir og ráðleggingar frá valdhöfunum til bænda um það, að þeir verði að byggja votheysgryfjur til þess að vernda sig fyrir rosanum, og þetta er vissulega sannleikur. Bændur verða nú að hefjast handa, en þeir eru því miður tiltölulega fáir, sem hafa gert þær ráðstafanir að vernda sig þannig gegn rosanum og spara sér kaup á fóðurbæti, en með því að hafa nægilegt vothey gætu þeir sannarlega skapað sér, mikið öryggi og sparað sér mikil fóðurbætiskaup. Til þessara framkvæmda þarf bæði efni og fjármagn, og þess vegna er það, að það fé, sem ræktunarsjóður hefur nú yfir að ráða, er allt of lítið til þess að fullnægja þeim, sem ráðast í slíkar framkvæmdir.

Þriðja atriði till. minnar er í því fólgið að láta á sama hátt rannsaka, hve miklu fjármagni þarf að verja næstu 5 ár til ræktunarframkvæmda, og er þá miðað við, að allur heyfengur verði tekinn af ræktuðu landi eftir þann tíma. Hér er mikið hagsmunamál á ferðinni, ekki aðeins fyrir bændur, heldur líka fyrir kaupstaðarbúa, að bændur geti komið sínum búskap þannig fyrir, að þeir afli heyjanna á ræktuðu landi. Þeir bændur, sem hafa komið sér þannig fyrir, hafa vitanlega miklu betri aðstöðu til búrekstrar en aðrir, sem verða enn að nota óræktað land. Og verði búskapnum komið í það horf á næstunni, að heyfengurinn verði tekinn á ræktuðu landi, þá má reikna með því að landbúnaðarafurðir geti orðið ódýrari fyrir kaupstaðarbúa en þegar framleitt er við lélegri skilyrði. Það er því alveg eins hagsmunamál kaupstaðarbúa, að það megi sem fyrst verða, að heyfengur verði tekinn af ræktuðu landi og framleitt sé við góð skilyrði. Það er kunnugt, að ræktunarkostnaður hefur aukizt mikið síðustu missiri vegna þess, hvað áburður er nú orðinn dýr og vélavinna hefur aukizt og bæði vélarnar sjálfar dýrar og svo olía og kaupgjald mannanna, sem með vélarnar fara. Ræktunarkostnaðurinn er orðinn það hár, að ef ekki verður hægt að stuðla að auknum lánveitingum samfara aukinni ræktun, þá má gera ráð fyrir, að ræktunin stöðvist, og væri það mjög einkennilegt, ef til þess þyrfti að koma nú, þegar svo myndarlega hefur verið farið af stað í ræktunarmálum landsins.

Slíkt yrðu ekki aðeins vonbrigði fyrir bóndann, heldur líka fyrir þjóðfélagið allt. Ég býst við, að menn geri sér grein fyrir því, hvaða þýðingu það hefur fyrir þjóðfélagið í heild, einnig í framtíðinni, að landið verði ræktað, að það verði hætt við rányrkjuna, sem stunduð hefur verið hér frá alda öðli, og nú tekinn upp ræktunarbúskapur í stórum stíl, svo að býlunum megi fjölga og framleiðsla landbúnaðarins aukast. Og ég held, að það sé engum vafa bundið, að skilningur manna fyrir- þessari nauðsyn sé mjög að aukast, og ég held við getum verið sammála um, að það sé gleðilegt, að núna upp á síðkastið eru menn farnir að spyrja eftir möguleikum á því að fá jarðnæði í sveit. Og það er nú upp á síðkastið mjög sjaldgæft, sem maður heyrir fólk tala um það að flytja úr sveitinni til kaupstaðanna, og víst eru það margir ungir menn, sem eru neyddir til þess að fara úr sveitinni, af því að þeir hafa ekki fjármagn til þess að reisa þar bú; þeir vilja gjarnan hugsa sér það, að hv. Alþ. sæi sér mögulegt að gefa þeim starfsskilyrði, svo að þeir þyrftu ekki að flýja úr sveitinni.

Viðvíkjandi þessum þremur liðum till., sem ég hef gert að umtalsefni, vil ég taka fram, að ég tel, að fela eigi Búnaðarfélagi Íslands að afla þessara skýrslna og gagna, sem hér er um að ræða. Ég efast ekki um, að það er hægt með því skipulagi, sem þar er, að gera þetta með tiltölulega hægu móti gegnum hreppabúnaðarfélögin, og þessar skýrslur þyrftu að vera nákvæmar, til þess að hægt sé á þeim að byggja, en með því að útbúa sérstök skýrsluform í þessu skyni held ég, að það ætti að geta orðið kostnaðarlítið og tiltölulega fyrirhafnarlaust fyrir formann og stjórn hvers búnaðarfélags að inna þessi verk af höndum. Búnaðarfélag Íslands mundi svo afhenda hæstv. ríkisstj. þessar skýrslur eftir ákveðinn tíma, og lægi þetta þá allt ljósar fyrir en áður og betri möguleikar á því að gera sér grein fyrir, hvernig fjár skyldi aflað til þessara framkvæmda, eftir að menn hefðu fengið skýrslur um það, hvað það er mikið, sem hér er um að ræða.

Um fjórða liðinn er það að segja, að þar er lagt til, að fram verði látin fara athugun á því, hversu mikið fjármagn þurfi til raforkudreifingar og virkjana næstu 10 ár, miðað við, að flest sveitabýli á landinu hafi fengið rafmagn að þessum tíma loknum. — Eðlilegast er, að raforkumálastjóri geri áætlun um þetta, og það er auðvitað tiltölulega létt verk að gera áætlun um það, hvað þetta muni kosta, miðað við, að það taki 10 ár að koma þessari framkvæmd á. Eins og það er nauðsynlegt að bæta húsakost fólks, vitanlega jafnt í sveit sem við sjó, þá er hitt ekki síður nauðsynlegt, að rafmagnið nái meiri útbreiðslu en nú er orðið. Og í þessu landi okkar, Íslandi, sem hefur ekki annan innlendan aflgjafa en fallvötnin, en nóg af þeim, þá er það vitanlega frá fjárhagslega sjónarmiði því nauðsynlegra hér en í nokkru öðru landi. Fólkið bíður eftir því að fá rafmagnið, og það er enginn vafi á því, að með því að koma því út um byggðirnar, bæði í sveitir og þorp, þá er það bezta ráðið til þess að fyrirbyggja frekari fólksflutninga úr dreifbýlinu í kaupstaðina, fyrirbyggja þann flótta úr sveitunum, sem átt hefur sér stað undanfarið.

Ég sé ekki ástæðu til að fara öllu fleiri orðum um þetta, en sem sagt, ég vænti þess, að þessari till. verði vel tekið. Þar sem ætlazt er til, að þessi athugun fari fram án þess, að það hafi nokkur fjárútlát í för með sér, tel ég eðlilegast, að till. verði vísað til hv. allshn. að lokinni þessari umr.