24.01.1951
Sameinað þing: 32. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 272 í D-deild Alþingistíðinda. (4164)

119. mál, fjárþörf landbúnaðarins

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Ég hafði ætlað mér í sambandi við þessa till. að fara inn á það, sem hæstv. landbrh. hefur nú verið að ræða um, þ. e. að bæta þyrfti við þessa till. athugun á því, hvernig fara eigi að því að útvega það fjármagn, sem þarf í þessum tilgangi, eins og hv. flm. benti réttilega á í sinni framsöguræðu. Ég held satt að segja, að umr. um þetta mál hljóti fyrst og fremst, eins og hæstv. landbrh. kom inn á, að snúast um það, á hvern hátt sé hægt að fullnægja þessari fjárþörf landbúnaðarins og hvort það sé vilji fyrir hendi hjá hæstv. ríkisstj. og hennar stuðningsflokkum til að fullnægja þessari lánsfjárþörf. Mér hefur satt að segja oft fundizt, þegar þessi mál hafa verið rædd, að þá hafi ekki verið kafað til botns í þeim og ekki verið reynt að leysa vandamál landbúnaðarins, heldur hafi verið reynt að telja bændum og öðrum, sem vilja vinna að auknum byggingum og aukinni ræktun í sveitum trú um, að það séu óyfirstíganlegir erfiðleikar á þessu, en síðan fást erfiðleikarnir sjálfir aldrei ræddir. Hv. flm. málsins kom inn á það, hve mikil fjárþörfin væri, og lýsti því vel og rækilega, og hann lýsti því einnig, hvað við lægi, ef ekki væri fullnægt þessari fjárþörf, og þó óskaði hann ekki eftir rannsókn nema á parti af fjárþörfinni, þ. e. í sambandi við byggingu íbúðarhúsa í sveitum og peningshúsa og ræktunarframkvæmdir, en eins og kunnugt er, hrökkva ekki heldur þær ráðstafanir, sem nú eru fyrirhugaðar með l., til þess að tryggja það, að þeir mörgu menn í kaupstöðum landsins, sem vilja reisa íbúðarhús, fái fjárhagslega möguleika til þess, eins og líka hv. flm. kom inn á, þannig að þeir bætast einnig við í fjárþörfina.

Svo upplýsti hæstv. landbrh., hve mikið vantaði í byggingarsjóð til þess, að þar yrði ekki meiri kyrrstaða en fyrirskipað er með gengislækknnarl. Hann tók réttilega fram, að í byggingarsjóð vantar nú 19 millj. kr., sem er lágmarksupphæð til þess að geta haldið áfram eins og undanfarin ár, án þess að tekið sé tillit til gengislækkunarinnar. Það, sem mér finnst eðlilegast að ræða í þessu máli, er þess vegna það, sem hæstv. ráðh. sagði, að það væri ekkert fjármagn til. Eru þessar 20–30 milljónir, eða allir þeir milljónatugir, sem landbúnaðurinn þarf á næstu árum, er það fjármagn ekki til? Ég vil leyfa mér að halda því fram, að það séu til þeir möguleikar að afla þessa fjár, en til þess að geta sannað mitt mál og til þess að geta fengið ríkisstj. og þm. til þess að ræða þetta mál, án þess að láta einhvern misskilning milli okkar hindra okkur í þessum framkvæmdum, þá vil ég leyfa mér að leysa þetta hugtak upp, sem hæstv. landbrh. lagði höfuðáherzlu á. Hann sagði, að það vantaði fjármagn. Hvað meinar hann þegar hann segir, að það vanti fjármagn? Mér skilst, að hann geti ekki meint annað en að það vanti þá hluti og það afl, sem þarf til þess að byggja í sveitunum hús og annað slíkt og til þess að vinna að þeim framkvæmdum, sem þar þarf að vinna. Það er að segja það, sem við þurfum til þess að byggja þessi hús, sem þarna vantar, og það, sem við þurfum til þess að ræsa fram og rækta jörðina, það er annars vegar vinnuaflið, sem þarf við þessar byggingar og framræslu, og hins vegar vélar til þess að vinna með og efni til þess að vinna þetta úr, og ég get ekki skilið annað en að við hljótum allir að vera sammála um það, að það sé þetta þrennt, sem okkur vantar. Ef bóndinn, sem þarf að byggja, hefur þetta þrennt hjá sér, þá væri alveg sama, hvort það væru til nokkrir peningar í kotinu eða ekki, ef hann hefur vinnuafl, ef hann hefur sement, timbur og annað efni og tæki til þess að vinna með, þá skilst mér, að þetta séu hlutirnir, sem hann vantar. Með þessum hlutum yrði þetta gert. Hafi hann peninga og eins marga smiði og vera skal, en ekki neitt af þessu, þá eru peningar honum einskis virði. Ég held í fyrsta lagi, að við verðum að reyna að koma okkur niður á það, hvort þetta er rétt eða ekki rétt. Séum við sammála um, að það sé þetta, sem bændurna vantar, vinnuaflið, tækin og efnið, þá er að athuga, hvort okkar þjóð getur látið íslenzkum landbúnaði og íslenzkum bændum þetta í té. Við skulum athuga í fyrsta lagi viðvíkjandi vinnuaflinu. Hæstv. ráðh. segir, að ekkert fjármagn sé til til þess að byggja þetta. Fyrsti liðurinn í fjármagninu er vinnuaflið. Á sama tíma sem hæstv. ráðh. lýsir yfir, að ekkert fjármagn sé til til að byggja í sveitunum, þá gengur vinnuaflið, verkamenn, atvinnulaust og meira að segja svo og svo mikið af sveitamönnum, sem undanfarin ár hafa unnið við byggingar, þeir eru atvinnulausir heima hjá sér núna, og jafnvel í sveitunum er talað um atvinnuleysi, ekki sízt eftir að aukin vélavinna í vegavinnu olli því, að færri menn komast þar að. Við höfum þess vegna nægilegt í landinu af því vinnuafli, sem þarf til þess að byggja, og vinnuaflið er í byggingunum upp undir helmingur af öllu fjármagni, sem við þurfum, og við höfum enn fremur í sambandi við vinnuaflið við byggingarnar nægar vélar til þess að vinna með, við höfum það mikið af byggingarvélum í landinu, að það er ekkert flutt inn af þeim. Þess vegna vil ég taka það fram, að þjóðin á nægilegt fjármagn til þess að byggja upp í sveitunum hvað snertir þann þátt í fjármagninu, sem vinnuaflið og byggingarvélar er. Þetta fjármagn er til, og vinnuaflið er látið ónotað sem stendur af ríkisstj. og þeim, sem ráða fjármálum þjóðarinnar. — Þá kemur spurningin um það, sem við þurfum að flytja inn af efni, en ég býst við, að við séum sammála um, að það sé ekki mikið, sem við þurfum af innlendu efni. Ég efast ekki um það, að við getum framleitt og flutt út meira en við nú gerum, ef þjóðin fær frjálsræði til þess að framleiða, og ég efast ekki um, að við gætum fyrir það, sem þjóðin mundi framleiða meira, ef hún hefði af hálfu hæstv. ríkisstj. rétt og möguleika til þess, flutt inn mjög mikið af byggingarefni. Það liggur fyrir í sameinuðu þingi þáltill., sem ég hef lagt fram brtt. við, um að gefa frjálsan innflutning á byggingarefni, og ég efast ekki um, ef menn flytja inn til landsins byggingarefni og nota sína framleiðslu innanlands til að kaupa byggingarefni, að þá mundi verða flutt inn fyrir tugi milljóna, aðeins fyrir þann fisk, sem nú er ekki veiddur úr sjónum — og hæstv. ríkisstj. hindrar menn í að veiða. Ég skal ekkert fullyrða, hvort hægt væri að fullnægja byggingarefnisþörfinni, sem væri í sveitunum, með slíku, en ég efast ekki um, að hægt væri að komast langt fram úr því, sem nú er.

Nú veit ég hins vegar, að þó við hefðum þetta tvennt í fullum mæli, vinnuaflið og efnið, — það liggur hjá okkur í dag vinnuafl gangandi á götum Reykjavíkur og annars staðar í þorpum og bæjum landsins, þar sem atvinnuleysi er, — þá væri sagt við okkur af þeim mönnum, sem stýra fjármálum landsins: Það eru engir peningar til til þess að byggja fyrir. — Því það eru til menn, sem ráða ríkisstj. og fjármálum og lánveitingastarfsemi þjóðarinnar, sem halda, að peningarnir séu allt, vinnuaflið og efnið ekki neitt, og ég er hræddur um, að þeir menn hér á Alþ. og annars staðar, sem ætla sér að vinna að því að byggja upp þetta land, verði að gera sér ljóst, hvað er afl þeirra hluta, sem gera skal. Þar er vinnuaflið nr. 1, og því næst er efnið, sem skapað er úti um heim og við þurfum að kaupa. Ef við gerum okkur þetta ekki ljóst, þá verðum við í vandræðum með að fullnægja fjárþörf landbúnaðarins og annarra okkar atvinnuvega, ef við látum þessa dulu — þetta járntjald — peningana, hindra okkur í því, þó við höfum gnægð vinnuafls og efni, að skapa verðmæti í landinu. Þá stöndum við eins og glópar frammi fyrir vinnuaflinu og atvinnuleysinu, og efnið lægi í vöruskemmunum, en við þyrðum hvorugt að hagnýta, af því að við hefðum trú á því, að við þyrftum fyrst að fá peningana til þess að hagnýta það, af því að þeir menn, sem réðu því, hvernig peningunum er veitt til þjóðarinnar, álitu, að ekki hefðu verið meiri peningar til og okkur þýddi ekki að hagnýta þann auð, sem þarna er fyrir. — Þetta verðum við að gera okkur ljóst, ef við ætlum að ræða af viti um fjárþörf landbúnaðarins og hvernig ætti að leysa hana. Þess vegna held ég, að fyrsta vandamálið í sambandi við fjárþörf landbúnaðarins sé, að við gerum okkur grein fyrir, hvort okkur sé óhætt að veita meira fé til landbúnaðarins á þann hátt að fyrirskipa okkar lánsstofnunum, fyrst og fremst seðlabankanum, að láta þjóðinni meira veltufé í té, vegna þess að það séu til raunveruleg verðmæti fyrir því veltufé, sem þannig væri sett í gang hjá þjóðinni. Það mundi hvorki setja í gang of miklar ávísanir á eignir þjóðarinnar né ofbjóða vinnumarkaðnum, og ég skal fara nánar út í, hvað ég meina með þessu.

Okkar lánsfjárþörf á að miðast við það að mínu áliti, að vinnuafl þjóðarinnar sé hagnýtt til fulls. Lánveitingar af hálfu ríkisbankans hljóta að miðast við þá þjóðarþörf, að allt vinnuafl þjóðarinnar sé hagnýtt, það hlýtur að vera númer eitt í allri opinberri lánastarfsemi. Það er það eina, sem tryggir, að þjóðin hagnýti þann auð, sem hún á í sínu vinnuafli, því það eitt er eyðsla að láta menn, sem geta unnið, ganga atvinnulausa. Því næst verður auðvitað hvað snertir skiptingu lánsfjárins, hvað snertir hagnýtingu útlends og innlends gjaldeyris, að fara eftir möguleikum viðvíkjandi gjaldeyrinum. Það er hægt, ef skipulag er á þjóðarbúskapnum og fylgzt er með því, að hve miklu leyti gjaldeyrinum er beint að þessum atriðum á hverjum tíma, og ég held, að það sé ekki vanþörf fyrir okkur að athuga í þessu sambandi, hvernig okkar lánsfjárráðstöfunum er fyrir komið nú sem stendur. Ég vil um leið taka fram, að það er náttúrlega eðlilegur hlutur, ekki sízt af hálfu efnamanna þjóðfélagsins, að gera nokkrar kröfur til þess, að lánsfé ríkisbankanna sé í vissu hlutfalli við eignir þjóðarinnar á hverjum tíma, og ég skal koma að því, að ég álit tvímælalaust, að lánveitingum þjóðarinnar nú sem stendur til sjálfrar sín sé fjarri því að vera ofboðið í hlutfalli við þá raunverulegu eign landsmanna. Ég veit ekki, hvort hæstv. ráðherrar og þm. hafa gert sér ljóst, hvernig lánveitingar eru hjá þjóðfélaginu nú sem stendur, en ég vil, áður en ég skýri frá því, koma örstutt inn á það, sem hæstv. landbrh. talaði um hér áðan, út af þeirri miklu lánaþörf, sem væri í sambandi við aukna framræslu í sveitunum; það væri að afla fullkominna véla til þess að ræsa landið fram.

Þjóðin á nú og samtök hennar þessar vélar, og það er hægt að taka þær og láta þær vinna af fullum krafti, m. ö. o., það er ekkert því til fyrirstöðu frá sjónarmiði heilbrigðs þjóðskipulags, að þessar vélar séu látnar vinna af fullum krafti að því að ræsa fram landið. En hæstv. ráðh. talaði um, að það væri svo mikil lánsfjárþörf vegna þessara véla, að það væru eiginlega erfiðleikar fyrir okkur að standa undir því að halda þeim við, og mér heyrðist á honum, að það vofði einhver hætta yfir út af því, hvað við hefðum fullkomnar vélar og hvað við gætum gert mikið með þeim, það væri allt að fara í hreinan voða vegna þess að við þyrftum að fá svo mikla peninga, sem að vísu á að borga fyrir þessar vélar, að það mundi neyða okkur til að stoppa vélarnar. — Hvers konar brjálsemi erum við komnir út í með þessu? Hefur ekki þjóðin möguleika á því, fyrst hún á þessi tæki, að láta vinna með þeim miskunnarlaust án tillits til þess, hvort hægt er að reikna það þannig út, að þessar vélar á einhvern hátt skapi of mikinn auð fyrir landbúnaðinn, þannig að landbúnaðurinn standi ekki undir því að eignast þennan auð? Ég veit ekki, hvort menn hafa tekið eftir því, að þetta litla dæmi sýnir mönnum, hvers konar vitleysu menn eru komnir í með vitlausu reikningshaldi á þessum mikilvirku tækjum, sem landbúnaðurinn hefur eignazt, þar sem reikningsaðferð er lögð til grundvallar um það, hvernig þjóðareignirnar eru hagnýttar. Auðvitað hefur þjóðin efni á því að reikna sjálfri sér hverja þá greiðslu, sem er skynsamleg, til þess að láta vinna að þessum þörfum, um leið og hún hefur möguleika til þess að gefa sjálfri sér peninga og borga þær greiðslur inn til bankastofnunar þjóðarinnar, jafnvel þó það þyrfti að auka skuldirnar á einhverjum stað sem samsvaraði eignunum, sem þjóðin skaffar sér og í landbúnaðinn eru komnar. Ef þetta er svo vitlaust, að við botnum ekkert í því reikningshaldi í sambandi við þessar framkvæmdir, þá verð ég að spyrja: Til hvers er að leggja fullkomin tæki í hendurnar á slíkri þjóð? Þetta er það, sem við stöndum frammi fyrir nú. Það eru ákveðnir menn, sem stjórna okkar bankamálum, sem skilja ekki, að þjóðin er búin að fá í hendurnar tæki til þess að vinna með, sem eru jafnframt afkastameiri en nokkur tæki, sem hún hefur haft áður. Þegar þjóðin er búin að skapa sér auð með því að skaffa sér þessi tæki, þá krefst hún að fá meira handa á milli af verkefnum heldur en áður. Ef menn ekki skilja, að þjóðfélag, sem á fullkomin tæki, þarf meira fjármagn en þjóðfélag, þar sem allt er unnið með skóflum, þá er bezt fyrir slíka menn að setjast með skóflu upp í sveit og koma ekki nærri fjármálum landsins.

Ég ræði um þennan barnalærdóm hér vegna þess, að mér sýnist, að það verði að stöðva meginið af atvinnuvegum og framkvæmdum Íslands á spursmálinu um reikningshald þjóðarinnar sjálfrar. Mér sýnist, að það eigi að láta okkur standa eins og Molbúa frammi fyrir fullkomnum tækjum til að vinna með. En þeir menn, sem stjórna lánsfjárstarfseminni, þora ekki, út frá sömu hugmynd eins og hænan um hvíta strikið, að greiða þjóðinni meiri peninga til að borga sjálfri sér framkvæmdir, sem hún er að vinna. Þetta væri rétt hjá þessum mönnum, ef við gerðum ekki annað en að leika okkur að framleiðsluvélunum, en ef við sköpum með þeim nýjan auð fyrir íslenzku þjóðina, þá er líka óhætt að láta ríkissjóði og Búnaðarbankanum í té nægilegt fjármagn til þess að geta gert þjóðinni mögulegt að hagnýta þessar vélar.

Ég vil upplýsa lánsfjárpólitík Íslands inn á við, eins og hún er nú samkv. síðustu Hagtíðindum, sem ná til nóvemberloka 1950. Útlán í öllum bönkum eru 1104 milljónir, en innlög í bönkunum á sama tíma 728 milljónir, — mismunur ekki nema 3–4 hundruð milljónir. Veðlán eru ekki reiknuð með í þessum lánum, en þau eru milli 60–70 milljónir eftir upplýsingum hæstv. landbrh., og veðlán í Landsbankanum 40 milljónir. Ég vil í þessu sambandi minna á, að brunabótamat allra húsa á Íslandi er nú 3500 milljónir, og helmingurinn af þessum verðmætum er skapaður síðustu 10 árin, eða 1800 milljónir. En það hefði aldrei verið byggt fyrir þessar 1800 milljónir síðustu 10 árin, ef Landsbankinn hefði ráðið nokkuð sem heitir um lánsfjárpólitík Íslands. Af því að þjóðin varð óháð Landsbankanum á meiri hluta þessa tímabils, þá tókst henni að byggja, án þess að hann gæti hindrað það, — tókst að nota vinnuaflið og efnið, án þess að bankavaldinu tækist að hindra landsmenn í því, enda unnu landsmenn meginið af þessu tímabili af fullum krafti að sköpun nýrra verðmæta, þess vegna er aðeins sá hluti þjóðareignarinnar, sem eru hús, 3500 milljónir. Þegar sjávarútvegurinn, iðnaðurinn og landbúnaðurinn þar að auki hefur margfalt betri byggingar og stærri en fyrr, ég ætla ekki að gizka á, hvað mikils virði þær séu, þá býst ég við, að engum blandist hugur um, að eignir þjóðarinnar eru það margfalt meiri en nokkru sinni fyrr, að þær lánveitingar, sem nú eru látnar í té af hálfu bankanna, eru í engri hættu fyrir því, að þjóðareignirnar standi ekki fyllilega undir þeim, enda býst ég ekki við, að neinn mundi halda því fram. En því er hins vegar haldið fram, að lánveitingar, sem í té séu látnar, geti orðið til þess að skapa lánsfjárþenslu á þann hátt að vera ávísun á meira en allt vinnuafl þjóðarinnar, það er það eina, sem alla tíma er reynt að hræða menn með. Ég hef áður sýnt fram á, að þessi ótti á enga stoð í veruleikanum nú sem stendur, og ég vil leyfa mér að bæta því við, að ég er hræddur um, að þessi lánsfjárkreppa, sem nú er að verða í landbúnaðinum og fleiri atvinnugreinum, sé sköpuð vitandi vits af hálfu aðila, sem vilja, að það sé atvinnuleysi hjá þjóðinni, þannig að stóratvinnurekendum í landinu gangi hægar að halda niðri kaupinu hjá verkalýðnum. — Hvort sem þetta stafar af skilningsleysi á þörfum þjóðfélagsins eða af vísvitandi aðstoð við stóratvinnurekendur, þá er það eitt víst, að lánsfjárstarfsemin, eins og hún er nú rekin, er til stórskaða fyrir landbúnaðinn og þjóðina í heild, og þetta er kýli, sem verður að grípa á og ekki er hægt að komast hjá að stinga á, svo framarlega sem menn ætla að bæta úr fjárþörf landbúnaðarins. Það sama gildir um aðrar atvinnugreinar. Allar umræður hér á hæstv. Alþ. um þessa fjárþörf landbúnaðarins og aðrar samþykktir, sem hér eru gerðar, sem ekki byggjast á því, að menn geri upp við sig, hvaða lánsfjárpólitík eigi að reka í landinu og Alþ., sem hefur yfirráð allrar bankastarfsemi í landinu, segi fyrir um, hvers það ætlast til í þessum efnum, — allar slíkar umræður og ályktanir eru einskis virði. Það er ekki til neins að vera að ræða um þessa fjárþörf út af fyrir sig, ef menn ekki þora að bæta úr henni og gera þær ráðstafanir til þess að bæta úr henni, sem óhjákvæmilegar eru. Þess vegna álít ég, að till. hv. 2. þm. Rang. sé ágæt með þeirri viðbót að bæta inn í rannsókn og undirbúning ákvörðun um að bæta úr þessari fjárþörf, það er það, sem þarf að vera kórónan í þessari rannsókn, og síðan framkvæmdir í samræmi við það. — Við hæstv. landbrh. vil ég þess vegna segja, út frá fullyrðingu hans um, að ekkert fjármagn sé til, að hvað vinnuaflið snertir, þá er þetta fjármagn til, og hvað vélarnar snertir, þá er þetta fjármagn til. Hann virtist í sinni ræðu vera hræddur við of mikið afkastamagn þeirra véla, sem landbúnaðurinn þegar á, miðað við reikningshald bankavaldsins. Hvað snertir að knýja fram meiri lánveitingar í Búnaðarbankann, þá er óhætt að gera það, því að landbúnaðurinn stendur undir því hvað eignir snertir, því það þarf aðeins að segja þjónum A1þ., sem eru embættismenn þjóðarinnar, sem stjórna bönkum og framleiðslu þjóðarinnar, hvað þeir eiga að gera í þessum efnum. Það hefur ekkert verið gert af viti síðustu ár á þessum sviðum í því að tryggja okkar atvinnuvegum fé, nema Alþ. hafi sagt þeim fyrir um það. Það verður ekki bætt úr fjárþörf landbúnaðarins án þess Landsbankanum sé sagt fyrir verkum og honum gert að skyldu að láta fé til Búnaðarbankans og ræktunarsjóðs, svo að þannig verði stuðlað að viðgangi þessarar atvinnugreinar innan þess ramma, sem heilbrigður rekstur þjóðarbúsins markar.

Þetta vildi ég sagt hafa, áður en málið fer til n., ef verða mætti, að hún fengist til að athuga málið raunhæft. Samþykktir sem þessar koma landbúnaðinum þá fyrst að gagni, er féð hefur verið útvegað, og það útvega menn þá fyrst, er menn hafa gert sér ljóst, að það er óhætt, og möguleikar og efni eru fyrir hendi til þess.

Þá vil ég aðeins að síðustu víkja að því, sem hv. flm. sagði, að byggingarkostnaður hefði tvöfaldazt síðan 1946. Þetta er rétt. En hann minntist í því sambandi nokkuð á launahækkun, sem orðið hefði á þessu tímabili. Og það er staðreynd, að laun verkamanna hafa ekki hækkað síðan nema um 30%. Sú 100% hækkun, sem þarna hefur átt sér stað, er fyrst og fremst árangur af „baráttunni gegn dýrtíðinni“, þar sem hv. Framsfl. hefur gengið hvað rösklegast fram; en þar var smiðshöggið rekið með gengislækkunarlögunum á s. l. ári. Hv. flm. sagði, að stöðvun ræktunarinnar væri yfirvofandi og vélaskortur landbúnaðarins tilfinnanlegur. Ég vil leyfa mér að minna hann á, að þessar afleiðingar gengislækkunarráðstafananna voru sagðar fyrir; ég fór t. d. um þetta svofelldum orðum í nál. mínu um gengislækkunarfrv., með leyfi hæstv. forseta: „Önnur enn þá alvarlegri afleiðing gengislækkunarinnar verður, að innkaupsverð allra véla til landbúnaðarins hækkar um 74%, enn fremur innkaupsverð á benzíni, varahlutum og öðru, er til vélanna þarf. Afleiðing þessa getur orðið sú, að sú þróun aukinnar véltækni í landbúnaðinum, sem hafin var af myndarskap, geti nú stöðvazt að meira eða minna leyti. Og afleiðingin af slíku getur orðið stöðvun í þróun landbúnaðarins, nema sérstakar ráðstafanir annars eðlis verði gerðar.“ — Það var þannig vitanlegt, er ákvörðunin um gengislækkunina var tekin í fyrra, að þar með. væri gerð bein tilraun til að stöðva vélþróun landbúnaðarins. Ef nú á að sýna sig einhver vilji til að bæta fyrir þetta að einhverju leyti, þá verður það fyrst og fremst gert með því að stjórna þannig lánsfjárpólitík bankanna og framkvæmdum þjóðfélagsins, að vinnuafl og vélakostur sé hagnýttur til fullnustu. Til þess að bæta landbúnaðinum upp þær búsifjar, er hin svo kallaða barátta gegn dýrtíðinni hefur valdið honum, þarf fyrst og fremst að sjá til þess, að lánsfjárpólitíkin sé miðuð við þarfir hans, í stað þess að hið þveröfuga er tilfellið; seðlavelta og lánveitingar eru minni en fyrir ári síðan. Þetta þarf að auka, ef það á að koma landbúnaðinum til hjálpar. En til þess verður Alþingi að grípa röggsamlega í taumana. Einnig er brýn nauðsyn að lækka vextina. Það er ekki unnt að ráðast lengur í uppbyggingu landsins með 4–5% vöxtum af lánsfé. Viljum við halda áfram að byggja upp okkar land, þá verðum við að koma vöxtunum niður í 2½–2%. Það ræðst enginn fátæklingur í það nú, þó hann hafi bæði dug og stórhug, að byggja upp í sveit fyrir lán með venjulegum kjörum. Slíkir menn þurfa að eiga kost á lánum til langs tíma, ekki skemmri en 40 ára, og vextirnir mega ekki nema meiru en 2½%. En til þess að knýja það fram, að mönnum verði sköpuð slík lánskjör, þá þarf að brjóta á bak aftur þá lánsfjárpólitík, sem nú er allsráðandi, svo þjóðfjandsamleg og röng sem hún er, — að veita lánin til sem skemmsts tíma og með okurvöxtum. Þessi lánsfjárpólitík kemur beinlínis í veg fyrir auðsköpun hjá þjóðinni og nýtingu á vinnuafli hennar. — Það er vitaskuld hægt með þessu móti að sýna góða reikningslega útkomu á rekstri bankanna. En við erum bara ekki fyrst og fremst „interesseraðir“ í því, að Landsbankinn skili góðri reikningslegri útkomu, þar sem gróðinn nemi t. d. 18 millj. kr. á ári, heldur miklu fremur hinn, að með lánsfjárstarfseminni sé svo um hnútana búið, að hagnýttir séu allir kraftar þjóðarinnar til auðsköpunar og einstaklingunum sé gert mögulegt að vinna og eignast þau verðmæti, sem þeir skapa. Slíkt er þjóðarbúinu miklu betra en mikill og iðjulaus gróði bankanna. Það er kvartað hér um það af hálfu hæstv. landbrh., að það vanti svo og svo mikið fé, — 19 millj. í byggingarsjóð og 22 millj. í ræktunarsjóð; en það er aldrei minnzt á það sem möguleika að taka fjármagnið þar, sem það er. Okkur vantar ekki fjármagn, heldur þor og dug ti1 að nota það, og sérstaklega er þá spurning um að hagnýta vinnuafl þjóðarinnar.

Ég vildi mega vonast til þess, að hv. flm., hæstv. ríkisstj. og sú n., sem fær mál þetta til meðferðar, athugi gaumgæfilega, hvort ekki sé rétt að bæta því inn í frv., að ríkisstj. skuli rannsaka, hvaða ráðstafanir þurfi að gera til þess að knýja lánsfjárstofnanirnar til að reka lánsfjárpólitík, sem miðar að fullri hagnýtingu vinnuafls og fjármagns og veitir nauðsynlegu fé inn í landbúnaðinn. Með slíkum ráðstöfunum væri stígið raunhæft spor til að leysa þörf hans og þjóðarinnar allrar.