24.01.1951
Sameinað þing: 32. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 279 í D-deild Alþingistíðinda. (4165)

119. mál, fjárþörf landbúnaðarins

Flm. (Ingólfur Jónsson) :

Herra forseti, af því ég legg áherzlu á það, að málið komist í dag til n., þá skal ég ekki tefja það og vera fáorður.

Hv. 2. þm. Reykv. minntist á, að hann hefði komið inn á landbúnaðarmálin á s. l. vetri, þegar rætt var um gengislækkunina. Hann sagði, að það væri nú komið á daginn, er hann hefði þá sagt fyrir, að allar framkvæmdir væru að stöðvast í sveitunum. Við getum nú endalaust deilt um það, hvort það sé fyrir eða þrátt fyrir gengislækkunina, að svo er komið. En hv. 2. þm. Reykv. veit það vel, að ef ekki hefði verið horfið þá að þessu ráði, þá væri ástandið enn verra nú og allt atvinnulíf í kaldakoli. (EOl: Er ekki allt atvinnulíf stöðvað nú?) Það er ekki gengislækkuninni að kenna, að flotinn er ekki í gangi, eða togarastöðvunin s. l. sumar.

Ég var ánægður yfir áhuga hæstv. landbrh. á þessu máli, en ég get ekki verið honum sammála um, að það sé nóg að byggja á skýrslum þeim, er Arnór Sigurjónsson safnaði 1939–40. Við þurfum nákvæmari og nýrri upplýsingar að byggja á. Að vísu benti hæstv. ráðh. á, að einnig mætti styðjast við þau gögn, er búnaðarmálastjóri og Árni G. Eylands ásamt þriðja manni söfnuðu í sumar, og ég efast ekki um, að þeir hafi unnið starf sitt samvizkusamlega. En þeir höfðu svo lítinn tíma til stefnu, að ekki var unnt að undirbúa þá skýrslusöfnun eins og þörf er á. Það þarf að vera hægt að kynna sér nákvæmlega ástæður hvers býlis fyrir sig, og það mundi bezt verða gert með því, að stjórn hvers búnaðarfélags hefði það með höndum á sínu svæði. Að hinu leytinu eru þetta nokkur gögn til að byggja á og nóg til að gera sér grein fyrir því, að fjármagn vantar, bæði í ræktunarsjóð og byggingarsjóð. En eigi að síður er nauðsynlegt að fá nákvæmar skýrslur um það, hve vænta má að fjárþörfin sé mikil, og það auðveldar fyrir um útvegun fjármagns, að það sé á hreinu.

Hv. 2. þm. Reykv. vill bæta því við till., að leitazt verði við að afla þess fjár, sem þörf er á, og get ég fallizt á það, um leið og ég vil segja við hæstv. landbrh., að það skal ekki standa á mér að hjálpa til við útvegun þessa fjár. Hv. 2. þm. Reykv. gæti víst útvegað þetta fé strax í dag, að því er virðist, en ég er nú ekki alveg viss um, að það sé svo vandalaust. Hæstv. ráðh. taldi það auðsjáanlega erfiðleikum bundið, en með góðum vilja hygg ég nú, að mætti komast langt í því efni, og till. og umræður, sem að því hníga, gætu orðið til að ýta undir, að það tækist.