24.01.1951
Sameinað þing: 32. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 281 í D-deild Alþingistíðinda. (4167)

119. mál, fjárþörf landbúnaðarins

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Það hefur komið fram í þessum umræðum, að það sé ekki fyrst og fremst þörf á nákvæmri rannsókn, enda þótt því sé ekki að neita, að afla mætti þar enn fyllri gagna en þegar eru fyrir hendi. Það bjargar hins vegar ekki þeim mönnum, sem skortir nú lánsfé, þótt slík rannsókn færi fram, og er meira aðkallandi að vinda bráðan bug að því að afla meira fjár til Búnaðarbankans, svo að lánveitingar geti haldið áfram með eðlilegum hætti og unnt sé að afgreiða þær beiðnir, sem fram koma.

Hv. flm. talaði í ræðu sinni um 1. lið till. sinnar á þskj. 226, sem fjallar um að láta fram fara rannsókn á því, hve mörg íbúðarhús þurfi að endurbyggja í sveitunum næstu 5 ár. Taldi hann, að um það væri ekki hægt að byggja á skýrslum Arnórs Sigurjónssonar. Ég tel nú, að hvað þetta snertir verði alltaf um nokkuð lauslega ágizkun að ræða. Að vísu er hægt að gera á því ýtarlega athugun, hvernig ástatt er um íbúðarhús í sveitum á hinum ýmsu stöðum og gera skýrslur um það, á hvaða stigi byggingarnar séu. En það er nær ókleift að segja fyrir um það með vissu, hve mikið lánsfé þarf til byggingarframkvæmda á næstu 5 árum. Þó leitað væri til hvers bónda, þá yrði ómögulegt að fá um þetta tæmandi upplýsingar. Það koma svo margar persónulegar ástæður til greina hjá hverjum manni, sem valda því, hvort hann ræðst í slíkar byggingar þetta árið eða hitt. Ég geri ráð fyrir því, að Búnaðarbankinn, sem hefur haft með þessar lánveitingar að gera í langan tíma, sé færari til að gera slíkar áætlanir en nokkrir aðilar aðrir, enda skilst mér, að upplýsingar hæstv. ráðh. í þessu efni séu þaðan fengnar. Bankinn hefur hið bezta yfirlit um þörfina að undanförnu og getur gert tiltölulega öruggar áætlanir samkv. þeim. Það er brýn nauðsyn að snúa sér að því að fá aukið lánsfé, og um það verkefni verður hæstv. ríkisstj. að fjalla af fullri alvöru. Mér er kunnugt um, að einstakir ráðh. hafa haft þetta til athugunar; og það er þá heldur ekki ónýtt, ef hv. 2. þm. Rang. er fús til að aðstoða stjórnina í þessu efni.

Hv. 2. þm. Reykv. talaði hér alllangt mál um hagfræðileg fyrirbæri og komst m. a. að þeirri niðurstöðu, að það þyrfti að tryggja, að bændur gætu fengið lánsfé til langs tíma og með 2% vöxtum. Ég veit nú ekki betur en byggingarsjóður veiti slík lán til 42 ára, og vextir í þeim sjóði eru 2%, og í ræktunarsjóði eru vextirnir 2½%. — Ég mun ekki gera það að umræðuefni, sem þessi hv. þm. talaði um í sinni löngu ræðu. Hann sagði m. a., að gengisbreytingin hefði stöðvað þróun landbúnaðarins. Ég er ekki á sama máli og hann um þetta atriði, og vil ég benda á t. d. til að sýna fram á, að hans skoðun er röng í þessu efni, að nú geta bændur selt kindakjöt til Ameríku fyrir allgott verð, en það hefði verið útilokað, ef gengisskráningin hefði verið eins og fyrir ári síðan. Ætti þetta að nægja til að afsanna staðhæfingu hv. þm., en að sjálfsögðu mætti nefna margt fleira. Hann brá einnig fyrir sig prósentureikningi og komst upp í 200%, en féll þó að lokum niður í 100%, og það mun láta nærri, að skekkjan í ýmsu því, sem hann hélt fram, hafi verið allt að 100%.