24.01.1951
Sameinað þing: 32. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 282 í D-deild Alþingistíðinda. (4168)

119. mál, fjárþörf landbúnaðarins

Einar Olgeirsson:

Ég vildi engan veginn verða til þess að hindra, að þetta mál komist til nefndar núna, og mun því ekki segja nema örfá orð að sinni. — Hv. 2. þm. Rang. sagði, að það væri vegna gengisbreytingarlaganna, að allt ástand í efnahagsmálunum væri ekki verra en það er. Voru ekki gengisbreytingarlögin sett til að bæta afkomu vélbátaflotans, og hvernig getur ástand hans verið verra en nú? Hann sagði, að vélbátaútvegurinn hefði stöðvazt, ef gengisbreytingin hefði ekki verið gerð. Er hann ekki stöðvaður núna, og hefur hann haft nokkuð af hinum örugga rekstrargrundvelli, sem lögin áttu að búa honum, að segja? Ég held því, að það sé vegna gengisbreytingarinnar, sem hann er stopp núna, og ef það væri ekki vegna þessa máls, sem hér er verið að ræða, þá hefði ég farið nánar út í þetta, og það einnig, að það var á valdi meiri hl. Alþingis og ríkisstj. að koma í veg fyrir stöðvun togaraflotans í sumar og um leið hið stórfellda tap, sem varð af henni fyrir alla þjóðina. Það var á valdi síðasta Alþingis að koma í veg fyrir stöðvun hans með því að samþ. sanngjarnar kröfur um hvíldartíma háseta, og það er enn fremur ríkisstj. að kenna, hve illa hefur gengið fyrir frystihúsunum, með því hún hefur komið á algerri einokun á markaðsöflun freðfisksins. Og nú, ofan á allt annað, kemur svo stöðvun vélbátaútvegsins, og við erum búnir að sitja um 20 daga þingi og enn bólar ekki á till. ríkisstj. um að koma honum á stað, þó að till. hafi komið fram þegar fyrir jól, sem hefði komið í veg fyrir stöðvun hans, ef hún hefði náð samþykki.

Viðvíkjandi því, sem hv. þm. V-Húnv. sagði, þá veit ég eins vel og hann um lánskjör ræktunarsjóðs, en það, sem vantar, er að fá meira fé, sem hægt væri að lána til landbúnaðarins með hagkvæmum kjörum. Viðvíkjandi stöðvun í landbúnaðinum, þá var röksemdafærsla hv. þm. V-Húnv. fjarri því að sanna það, sem hún átti að sanna. Skiptir það nokkru fyrir bændur, hvort þeir selja sitt kjöt vestur í Ameríku eða hér heima fyrir sama verð, eða fá þeir hærra verð fyrir það þar en hér? Ég get ekki séð það bæti nokkuð úr fyrir bændum, þó að krónur þær, sem þeir fá fyrir kjötið, séu umreiknaðar úr dollar yfir í íslenzka krónu. Ég ætla svo að láta þetta nægja í svipinn, því að eins og ég sagði áðan, þá vil ég stuðla að því, að málið komist í nefnd.