28.02.1951
Sameinað þing: 48. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 1517 í B-deild Alþingistíðinda. (418)

Almennar stjórnmálaumræður (eldhúsdagsumræður)

Haraldur Guðmundsson:

Herra forseti. Góðir áheyrendur. Ég er sammála síðasta ræðumanni, hv. 2. þm. Reykv. (EOl), um, að verkalýðurinn eigi að standa einhuga um sín áhugamál, en ég er vissulega ekki sammála honum um aðferðir til þess að koma þeim fram, — slíkar kommúnistískar aðferðir sem nú síðast var beitt við Iðjukosningarnar, þar sem kommúnistar telja sig hafa fengið meiri hluta, sem fullyrt er að sé meira en vafasamt, og er nú beðið eftir úrskurði Alþýðusambandsins um úrslit þeirra.

Annars hefur hér verið margt sagt og mest af því margtuggið áður. Ég mun hér reyna að halda mér við staðreyndir og rifja upp það helzta, sem gerzt hefur í tíð núv. hæstv. ríkisstj.

Í fyrsta sinn í meira en áratug hefur einn stærsti bölvaldur þjóðfélagsins, atvinnuleysið, sig frammi og tekur nú að þjarma að verkalýð landsins. Hinn 1. febr. s.l. voru skrásettir atvinnuleysingjar í 6 kaupstöðum og 5 kauptúnum um 1200 manns. Konur og börn á framfæri þeirra voru yfir 2100. Tala þeirra, sem í þessum 11 sveitarfélögum búa við stórfellt atvinnuleysi og afleiðingar þess, er því yfir 3300 manns, og voru þó þeir einir taldir, sem gáfu sig fram til skráningar, en allir vita, að mjög mikið vantar á, að þar komi öll kurl til grafar. Og í öllum hinum kaupstöðum og kauptúnum landsins er einnig meira og minna tilfinnanlegt atvinnuleysi. Margar þúsundir manna og kvenna búa nú þegar við atvinnuleysi, litlar, minnkandi eða engar tekjur, samtímis því sem verð á nauðsynjum fer stórhækkandi með hverjum deginum, sem liður. Þannig er atvinnumálum okkar nú komið, og með þessu er þó sagan ekki öll. Það er þess vegna auðskiljanlegt, hvers vegna hæstv. ríkisstj. leggur svo mikið kapp á að leggja niður vinnumiðlunarskrifstofurnar. Þetta eru óþægilegar tölur fyrir hæstv. ríkisstj. og ömurlegar staðreyndir, en harður og óvefengjanlegur dómur um afrek hennar. En jafnframt því, sem þetta gerist, gerist einnig það, að þeir, sem enn hafa atvinnu, fá kaup sitt lækkað með hverjum mánuðinum, sem líður. Vísitala desembermánaðar var 123 stig, og við hana er kaupið nú miðað. Febrúarvísitalan er 130 stig, og hefur kaupið því lækkað frá því í janúar sem svarar 7 stigum. Vísitala marzmánaðar verður sennilega 135 stig, og mun kaup þá lækka sem svarar þeirri hækkun á vísitölunni. Allt bendir nú til þess, að vísitalan komist upp í 150 stig, þegar kemur fram á júnímánuð, en það þýðir, að kaupgjald hafi lækkað um 1/6 til 1/5 hluta frá því í desember s. l., ef hæstv. ríkisstj. lánast — með tilstyrk atvinnuleysisins — að hindra, að full vísitöluuppbót verði greidd.

Þetta tvennt, sem ég hef nú nefnt, atvinnuleysið og stöðug áframhaldandi lækkun á kaupi þeirra, sem enn hafa vinnu, er engin tilviljun. Þetta er bein afleiðing þess, að nú fer hrein íhaldsstjórn með völd, — stjórn, sem lítur svo á, að það séu fjármunirnir, en ekki fólkið, sem taka beri tillit til. Það eru þeir, sem fjármagninu ráða, en ekki hið vinnandi fólk, sem móta stefnu hæstv. ríkisstj. Það er arðsvonin, en ekki atvinnan, sem er leiðarljós hennar.

Hæstv. ríkisstj. taldi, að í gengislækkuninni fælist varanleg frambúðarlausn á vandamálum bátaútvegsins, en sú lausn hefur algerlega brugðizt. Atvinnuleysi magnast óðum, samtímis því sem kaup lækkar, og erfiðleikar bátaútvegsins hafa aldrei verið eins miklir og nú, en eins og kunnugt er, hefur vélbátaflotinn legið aðgerðalaus í nær tvo mánuði og beðið eftir úrlausn, sem reynist svo engin lausn. Ef tilkostnaður útgerðarinnar hefur hækkað meira vegna gengislækkunarinnar en útfluttar vörur hafa hækkað vegna hennar, þá veldur gengislækkunin útgerðinni beinlínis tapi, en það er einmitt þetta, sem gerzt hefur, og þess vegna er eðlilegt, að erfiðleikarnir hafa vaxið. Fiskverð hefur ekki hækkað, heldur lækkað, og allur útgerðarkostnaður hefur stóraukizt. — Áhrif gengislækkunarinnar á þjóðarbúskapinn eru líka komin í ljós. Þar verður niðurstaðan sú sama. Greiðsluhallinn á viðskiptunum við útlönd varð yfir 120 millj. kr. á s. l. ári, eða það sem vantaði á, að andvirði útfluttra afurða hrykki fyrir því, sem inn í landið var flutt. Þessi atriði eru prófsteinninn á gengislækkunina, og niðurstaðan hefur orðið sú, sem ég hef nú lýst. — Stjórnin hefur líka viðurkennt þetta í verki. Dagblaðið Vísir sagði nýlega: „Þjóðin vill ekki sætta sig við frekari gengislækkanir.“ Þjóðin hefur séð það, eins og ríkisstj., að þetta svo kallaða bjargráð hefur brugðizt. Þess vegna þorir hæstv. ríkisstj. ekki að halda áfram með þetta fyrra bjargráð, þ. e. a. s. ekki opinberlega. Það á að fela nýja gengislækkun, nefna hana öðru, fallegra nafni, og þetta nafn er „frjáls verzlun“! Það er verzlunin, sem á að bæta öll mein, — frjáls innflutningsverzlun, án skömmtunar, verðlagseftirlits eða gjaldeyristakmarkana er lækningin. Hún á að bjarga bátaútveginum, úr því að gengislækkunin brást. Vandinn er auðleystur. Hann er ekki annar en sá að gera útvegsmennina að kaupmönnum, láta þá fara að verzla í viðbót við alla hina kaupmennina, því að þá eiga þeir að geta grætt nóg til þess að greiða hallann, sem verður á útgerð bátanna, og þá telur hæstv. ríkisstj., að allt sé í stakasta lagi. En verður það svo í reyndinni? Er þetta ekki sýndargróði fyrir útgerðarmenn, og verður framtíðarlausn sjávarútvegsins tryggð með þessu? Hæstv. ríkisstj. játar það að vísu, að það sé alls ekki gert ráð fyrir því, að allir útvegsmenn geti farið að verzla með vörur; til þess skorti flesta þeirra bæði fé, bankalán og aðrar aðstæður. En útgerðarmenn eiga samt að geta verzlað, ekki með vörur, heldur með gjaldeyrisskírteini, þ. e. loforð bankanna um gjaldeyri.

Það er sem sé ljóst orðið af umr., að það er alls ekki tilætlunin, þrátt fyrir öll fögru orðin að verzlunin eigi að verða frjáls og haftalaus. Þvert á móti. Tilteknar vörur fyrir allt að 100 millj. kr. á að reyra í ný höft, nýja einokun og setja á sérstakan svartan lista. Þær vörur má enginn kaupa eða flytja inn nema sá, sem hefur B-listagjaldeyri. Hin „frjálsa verzlun“ verður þannig í framkvæmd, að innflutningnum til landsins verður skipt á lista.

A-listavörur eru allar helztu nauðsynjavörur, matvæli, útgerðarvörur o. þ. h. Þær á að borga með yfirdráttarláni og Marshallframlögum, og innflutningur á þeim á að vera frjáls meðan lánin og Marshallféð endist. Þessar vörur hafa þó fram til þessa fengizt viðstöðulítið, og því verður hér lítil breyting á hvað þær snertir. En hvað tekur við, þegar gjafaféð þrýtur? Engar till. í þá átt hafa komið frá hæstv. ríkisstj. Þetta er því sannkölluð glæfrapólitík og minnir á ummæli, sem höfð eru eftir Lúðvík XVL: „Það lafir, á meðan ég lifi“!

B-listavörurnar eru hinar svokölluðu „æskilegu vörur“, eins og sápur, hreinlætisvörur, rafmagnshlutir og rafmagnstæki, bifreiðahlutir o. fl. Enginn má kaupa þessar vörur eða flytja inn, sem ekki hefur útvegsmannagjaldeyri, en þessar vörur má selja án nokkurra afskipta verðlagsyfirvaldanna við hæsta fáanlegu verði. Þessi listi er almennt kallaður B-listi — Black list. þ. e. svarti listinn, en gárungarnir kenna hann við kosningalista Framsfl., sem jafnan er „Black“, og kalla hann Framsóknarlistann!

Þá eru eftir fjölmargar vörur, sem áfram verða látnar sæta sömu meðferð og undanfarið, þar á meðal byggingarefni, svo sem sement, járn og timbur. Fyrir þessum vörum þarf innflutnings- og gjaldeyrisleyfi. Þar gilda sömu höftin áfram og sama skriffinnskan. Það, sem gerist, er því í stuttu máli þetta: Um 1/6–1/5 hluta af andvirði útflutningsafurða okkar, allt að 100 millj. kr., á að nota til þess að kaupa fyrir vörur til landsins, sem ríkisstj. telur ekki nauðsynlegar vörur. En svo á að fá gjafa- eða Marshallframlög og yfirdráttarlán til þess að flytja inn nauðsynjavörurnar fyrir, matvæli og þess háttar. Síðan á að græða svo mikið á B-listavörunum, að það nægi til þess að standa undir halla útgerðarinnar og halda henni gangandi, en til þess er talið að þurfi a. m. k. um 50–60 millj. kr. Það er þó mjög ólíklegt, að útvegsmenn fái nema nokkurn hluta af þessum gróða, því að heildsalarnir, sem greiðsluskírteinin kaupa, munu áreiðanlega telja sig þurfa allríflega áhættuþóknun auk venjulegrar álagningar. En eitt er víst, og það er, að ætlun ríkisstj. er sú, að þessar vörur hækki stórkostlega. Hitt er vandséð, hverjir geta keypt, ef ríkisstj. tekst að lækka kaup alþýðunnar í landinu með hverjum mánuðinum sem líður. Þessi lausn hæstv. ríkisstj. er því engin lækning á erfiðleikum bátaútvegsins. Þetta er ekki frekari lækning en þegar hómópatarnir gömlu gáfu sjúklingum meðalaglös, merkt A, B og C, sem öll voru með sama innihaldinu. Munurinn á þessu og lækningaraðferðum hæstv. ríkisstj. er aðeins sá, að meðul hómópatanna eða skottulæknanna voru meinlaus, en hið sama er því miður ekki hægt að segja um þessar aðferðir hæstv. ríkisstjórnar.

Verzlunarfyrirkomulagið er þegar of dýrt; um það eru allir sammála. Hlutur milliliða er þegar allt of stór og vex stórkostlega við þessar aðgerðir. Þetta er okkar höfuðmein, og það, sem verður því að gera, er að draga úr milliliðagróðanum. Og það fyrirkomulag, sem hæstv. ríkisstj. býður upp á, er heldur ekki frjáls verzlun. Og svokölluð frjáls verzlun einstaklinga er ekkert markmið út af fyrir sig. Örugg atvinna og blómleg framleiðslustarfsemi er það markmið, sem okkur ber að stefna að. Verzlunin á að þjóna því markmiði. Hún á að afla sem ódýrastra vara til neyzlu og framleiðslu og dreifa þeim með sem minnstum kostnaði. Útflutningsafurðirnar á að selja fyrir hæsta fáanlegt verð og skila andvirðinu í hendur þeirra, sem hafa aflað verðmætanna. En verzlunin verður enn dýrari en hún hefur verið við þessar breytingar, sem nú verða gerðar.

Þá vil ég víkja að þeim meginrökum, sem hæstv. ríkisstj. hefur fært fram í sambandi við þetta síðasta „bjargráð“ sitt. Hún heldur því sem sé fram, að greiðsla vísitöluuppbótar, sem hæstv. fjmrh. (EystJ) — auðvitað ranglega — kallar hækkað kaup, sé þjóðinni til tjóns og bölvunar, en þó einkum og sér í lagi verkalýðnum og launastéttunum, sem uppbæturnar eiga að fá, því að af tekjuaukningu leiði aukna eftirspurn eftir vörum, sem aftur leiði til verðhækkana, kauphækkana og atvinnuleysis. Þetta er kenning hæstv. ríkisstj. Ég vil nú fyrst leiða athygli hæstv. fjmrh. að því, að hér er alls ekki verið að ræða um hækkun launa, heldur hitt, að koma í veg fyrir, að laun almennings lækki vegna verðlagshækkana. Mér er vel ljóst, að því eru takmörk sett, hve mikið verkalýðurinn geti bætt hag sinn með einhliða launahækkunum, enda kýs hann aðrar leiðir, sem sé lækkun dýrtíðarinnar. Hitt er fjarri öllum sanni, að eigna- og tekjuskipting landsmanna sé nú slík, að sú leið sé lokuð. Og meðan þúsundir manna — umfram nauðsyn — starfa að alls konar milliliðastarfsemi og sumir hverjir skammta sér sjálfir tekjur, eiga slík rök ekki rétt á sér. En setjum nú svo, að þessi kenning hæstv. fjmrh. væri rétt. Hvað er þá um tekjur annarra stétta þjóðfélagsins, ef það er rétt, að það sé verkalýðnum til tjóns og bölvunar, að tekjur hans hækki að krónutölu? Hvað er þá um tekjur bóndans? Gilda ekki sömu rökin um tekjur hans? Hæstv. fjmrh. hefur unnið mjög ötullega að því að hækka verð á afurðum bænda, sem seldar eru innanlands, og þar með tekjur framleiðenda. Þannig hefur hann aukið kaupgetu bænda og aukið þeirra eftirspurn eftir vörum. Og verður þetta ekki bændum þá líka til bölvunar og tjóns eftir kenningu hæstv. fjmrh.? Og hvað er um tekjuaukningu milliliðanna, sem nú eiga að stóraukast? Verður tekjuaukning ekki hreinasta hermdargjöf fyrir þessa ástvini hæstv. fjmrh.? Og hvaða vit er í því að veita á fjárl. 30 millj. kr. til bænda sem peningaframlög? Verður ekki þessi tekjuaukning bændanna þeim til hins mesta ógagns? Eða gildir þessi regla um bölvun tekjuaukningarinnar aðeins fyrir verkafólkið í kaupstöðum landsins, og gilda aðrar hagfræðireglur um tekjur annarra stétta og eyðslu þeirra? Nei, sannleikurinn er sá að þessi kenning hæstv. fjmrh. er ekki rétt, og það veit hann. Honum er það vissulega ljóst, að hér er um það deilt, hvernig tekjur þjóðarinnar í heild eigi að skiptast milli atvinnustéttanna, en hann lítur aðeins á þörf þeirra, sem hann telur sig forsvarsmann fyrir, þótt það verði til að þrengja hag annarra stétta þjóðfélagsins. Sannleikurinn er líka sá, að velmegun og efnahagslegt öryggi bænda byggist fyrst og fremst á kaupgetu fólksins í kaupstöðum og kauptúnum. Þess vegna hefur það, frá því að ég fór fyrst að hafa afskipti af landsmálum, verið von mín, að með flokki bænda og flokki verkamanna mætti takast og haldast samvinna. Ég átti minn þátt í, að slík samvinna tókst um nokkurt skeið. Framsfl. átti höfuðsök á, að sú samvinna rofnaði. Síðan hefur Framsfl. stöðugt færzt í íhaldsátt — og aldrei hraðar en nú, síðan hann tók upp fullkomið samstarf við íhaldsflokkinn til þess að skerða hag verkalýðsins og launastéttanna í landinu. Nú er svo komið, að sú ríkisstj., sem fer með völd og nýtur forsætis framsóknarmanns, er sama sinnis með sína stefnu og íhaldsstj., sem varð að láta af völdum fyrir 25 árum. Afstaða hennar til verkalýðs- og félagsmála er nákvæmlega hin sama og íhaldsstj. árið 1927. Hún virðist helzt hafa hug á að koma á svipuðu ástandi í þessum málum og þá var. En þetta tekst ekki. Í lýðfrjálsu landi er ekki hægt að kippa þróuninni 25 ár aftur á bak. Alþýða landsins lætur slíkt ekki viðgangast. Hún mun efla sinn flokk, Alþfl., og verkalýðssamtökin, svo að tilraunir hæstv. ríkisstj. til þess til frambúðar að hnekkja kjörum hennar og þroska mistakast. Það er hennar hlutverk í dægurbaráttu stjórnmálanna. — Góða nótt.