08.01.1951
Sameinað þing: 29. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 288 í D-deild Alþingistíðinda. (4183)

130. mál, lánsfjárútvegun til iðnaðarins

Emil Jónsson:

Herra forseti. Ég þarf ekki að vera margorður í andsvörum til hv. síðasta ræðumanns. Ég hygg, að sá undirbúningur, sem iðnbankafrv. hefur hlotið, sé vandlegri og meiri en flest frv., sem hér eru lögð fyrir þingið, eiga að fagna, og afgreiðsla þess þurfi því ekki að tefjast af þeim sökum. Það er að vísu rétt, að ríkisstj. virðist þurfa að velta fyrir sér hverjum eyri, sem út er látinn til iðnaðarins sérstaklega. Ég hef nú ekki hér fjárlagafrv. nema eins og það var eftir 2. umr. En þar eru framlög til landbúnaðarins ákveðin 27.6 millj. kr., og 3.7 millj. til sjávarútvegsins, og eru þar þó ekki öll kurl komin til grafar; en til iðnaðarins eru aðeins veittar 740 þús. kr. Hér er farið fram á, að komið verði á fót lánsfjárstofnun til iðnaðarins með framlagi frá iðnaðarmönnunum sjálfum, sem nemur milljónum kr., og aðeins gert ráð fyrir, að ríkissjóður leggi þar á móti 2½ millj. kr. í eitt skipti fyrir öll. Og auðvitað þarf þá ríkisstj. að taka það alveð sérstaklega til athugunar(!). Það er ekki að ástæðulausu, að iðnaðarmönnum hefur löngum fundizt, að þeir væru olnbogabörn Alþingis, og ég tel, að ummæli hv. þm. gefi þeim ekki ástæðu til að draga úr þeirri skoðun.

Ég mun ekki orðlengja þetta. Málið gengur væntanlega sinn gang til n. og kemur svo til 2. umr., er n. hefur lokið störfum. En ég vil þó leyfa mér að æskja þess, að málið verði ekki tekið fyrir aftur í þessu formi fyrr en séð er, hvort frv. um iðnbankann nær fram að ganga eða ekki. En fyrir því eiga að vera nægir möguleikar á því þingi, er nú situr.