19.01.1951
Sameinað þing: 31. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 294 í D-deild Alþingistíðinda. (4207)

149. mál, atvinnulífið í Flatey á Breiðafirði

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Hv. flm. gat þess hér í upphafi, að hann hefði ekki haft neitt tækifæri til þess að ræða við mig um þetta mál, vegna þess að ég hafi verið fjarverandi, þegar málið var borið fram. Og mér heyrðist á honum, að honum hefði þótt lakara, að svo hefði verið, án þess að það lægi í því afsökun hjá hv. þm., sem heldur þurfti ekki að vera. Hins vegar var ég hér á þingi, þegar málinu var útbýtt, en það er ekki ágreiningur neinn frá minni hendi því viðkomandi. Málið er gott, og ég hef ekki tekið það sem neina andúð gegn mér, þó að ekki væri beðið eftir mér um flutning þess. — En mér þykir rétt, eftir að hafa heyrt framsögu hv. flm., að gefa hér nokkrar upplýsingar um þetta mál. Hann lét þau orð falla hér, að sumpart þyrfti ekki mikið fé til þess að bæta úr því, sem um er talað í þáltill. og bæta þurfi úr, og jafnvel ekki meir en svo, að ástæða væri ekki til að hafa um þetta mál nema eina umr. og vísa málinu til allshn. Mér finnst, að ef málið er brotið til mergjar, þá þurfi ekki lítið fé til þessa. En það, sem verst er í þessu, er, að það þarf svo mikið fé til þessa, að það er vafasamt, hvort ekki mundi skapast hér fordæmi nokkurt, ef þetta yrði gert, sem í þáltill. er farið fram á, þ. e. ef þetta mál verður afgr. eins og það liggur fyrir á Alþ.

Hv. flm. hafði einnig gefið nokkrar upplýsingar um þetta mál, sem komu fram í þskj., og sagði að tölur um þær tekjur, sem upplýst er, að hafi verið hjá einstökum aðilum í Flatey þessa tvo mánuði, sem skýrslan er þar um, verða ekki vefengdar. Hins vegar er það ekki rétt hugmynd um árstekjur Flateyjarbúa, þannig að það, sem þar er um það sagt, þarf ekki að vera neinn mælikvarði um tekjur þeirra eða afkomu í heild. Og segi ég ekki þetta til þess að torvelda framgang þessa máls, síður en svo. En sannleikurinn í málinu er þessi, að þegar Flateyingar sjálfir tóku að sér að byggja frystihús, þá hugsuðu þeir sér að byggja aðeins frystihús, sem frysti um 5 smálestir af flökum á sólarhring. Þetta hús var áætlað að mundi kosta þá, alveg fullbúið, um 680 þús. kr. Það var ekki rætt við mig mikið um þau mál, aðrir höfðu þar forustu, sem töldu sig vera megnuga þess að gera það án þess að þurfa nokkuð fulltingi eða aðstoð frá öðrum eða leiðbeiningar í sambandi við samningagerð eða annað. En þetta fyrirtæki var ekki komið langt áleiðis, þegar reyndin varð sú, að álitið var, að húsið reyndist allt of lítið, og það var stækkað upp í það að geta fryst 10 eða jafnvel 16 smálestir á sólarhring. Og kostnaðurinn var þá líka orðinn allur annar en fyrst var áætlað, og þegar hann var kominn upp í 1100 þús. kr., var allt stöðvað í sambandi við framkvæmd þessa fiskiðjuvers, vegna þess að fjárhagurinn var, því miður, ekki grundvallaður á þann hátt sem hann þurfti að vera, þrátt fyrir stórkostlegar fórnir frá Flateyingum sjálfum. Þá var snúið sér til mín í sambandi við þessi mál, og ég átti þá þátt í því, að hlutaféð var aukið um 50% heima fyrir, gegn því, að viðkomandi lánsstofnanir hækkuðu einnig sín framlög sem svaraði 50% miðað við það, sem lofað var, til þess að ljúka þessu fyrirtæki, sem áætlað var, að hægt væri að ljúka fyrir allt að 1200 þús. kr. En þegar það fé var allt út runnið, kom enn á daginn, að þetta hús mundi kosta meira fé og mundi nú vanta ¼ millj. kr. til þess að ljúka því, svo að líklega er byggingarkostnaður hússins orðinn 1400 til 1500 þús. kr.

Ég harma, að þessi mistök hafa átt sér stað, sem ég ásaka þó ekki neinn fyrir út af fyrir sig, en ég á ekki sök á því, því að til mín hafði ekki verið leitað um þessi mál í upphafi. En það er svo með þetta fyrirtæki eins og mörg önnur fyrirtæki hér á landi, að það hefur kostað miklu meira en upphaflega var gert ráð fyrir. En ef á að reka frystihús, sem kostar yfir 1½ millj. kr. og byggt er með mismunandi hagkvæmum lánum, þá verður að tryggja því nægilegt hráefni. En um þann þátt hefur aldrei verið hugsað á þessum stað, að öðru leyti en því, að einn bátur hefur verið keyptur, eins og hv. flm. till. minntist á, að hefur þó rekstur hans ekki verið bundinn við Flatey að öllu leyti, heldur hefur hann selt aflann líka til Stykkishólms. M. a. vegna þessa hefur frystihúsið ekki haft hinn rétta starfsgrundvöll.

Ég hefði því talið heppilegra á sínum tíma, að farið hefði verið hægar af stað, en þetta fyrirtæki látið þróast smátt og smátt. En ég ætla ekki að deila um það hér, heldur vildi ég láta þetta koma fram. — Jafnhliða þessu var keyptur einn Svíþjóðarbátur til Flateyjar, og rekstur hans hefur orðið fyrir töluverðum áföllum, eins og hv. flm. minntist á, og er mér fullkunnugt um þá erfiðleika, sem hann lenti í, því að ég hef oft greitt úr þeim málum, og er ég ekki að hæla mér af því. Sum óhöpp og áföll við rekstur þessa báts eru fólgin í því, að hann hefur orðið fyrir aflaleysi, en að nokkru leyti í byggingu skipsins og sérstaklega í sambandi við vél bátsins, og hefur í því sambandi kostað mjög mikla peninga á sínum tíma að fá þetta lagað, enda hafði þáverandi ríkisstjórn sýnt ákaflega mikinn skilning í sambandi við viðgerðarkostnað í þessu sambandi og gert allt sitt til þess að draga úr þeim erfiðleikum. Hins vegar hafa þeir, sem þennan bát hafa rekið, eins og aðrir, fengið stórkostleg áföll vegna meira taps, sem orsakazt hefur af aflaleysi.

Í þriðja lagi minntist hv. þm. á hafskipabryggju staðarins, sem Flateyingar hafa lagt í 300 þús. kr. Mér er nokkuð kunnugt um það mál og get lýst því hér, að Flateyjarhreppur hefur ekki lagt 300 þús. kr. í þetta enn sem komið er. Hitt er rétt, að hann ber ábyrgð á þeim 300 þús. kr., sem ríkissjóður hefur lagt fram að helmingi samkv. hafnarl., en hinn helmingurinn af kostnaði hefur verið tekinn að láni með mjög hagkvæmum lánskjörum til 40 ára með 3% vöxtum, sem mér hefur tekizt að afla fyrir Flateyjarhrepp. En það hefur ekki alltaf verið túlkað á hinn rétta veg í flokksblaði hv. flm. þessarar till. Og af þessu hefur Flateyjarhreppur aldrei byrði, því að þetta er eina fyrirtækið í hreppnum, sem frá upphafi hefur verið sett á öruggan fjárhagslegan grundvöll. Allir samningar um þetta verk voru upphaflega tryggilega gerðir, fyrir mína tilstuðlan og í samráði við vitamálastjórn. Og þetta verk var afhent fulltilbúið hreppnum og það þá komið á öruggan fjárhagslegan grundvöll, þannig að tekjur hafnarinnar, sem eru þannig, að gjöldin eru a. m. k. engan veginn fram yfir meðalhafnargjöld, virðast standa undir þessu mannvirki.

Ég vil minnast nokkuð á mál, sem í flokksblaði þessa hv. þm. hefur verið nokkuð afflutt á sínum tíma í sambandi við hafnarmannvirki í Flatey. En ég eignaðist sjálfur land þar við höfnina, sem ég hafði keypt fyrir 15 þús. kr., og seldi ég það aftur til hreppsins án álagningar. Það land hefur nú, í sambandi við þessa erfiðleika í Flatey, verið tekið gilt sem veð fyrir 150 þús. kr. Það er þessi hlið á málinu, sem ekki hefur verið túlkuð á þann hátt í því blaði, sem ég minntist á.

Hér er getið um, að ríkisstjórnin geri nú þegar nauðsynlegar ráðstafanir til þess, að hraðfrystihús Flateyjar h/f geti greitt áfallnar vinnuskuldir og hafið rekstur. Þetta er ákaflega viðtækt og ekki afmarkað hér í till., hve mikið eigi að leggja fram í þessu skyni. Og það er sannarlega ekki lítil fjárhæð, sem þarf í þessu skyni, ef á að taka þetta út í æsar, greiða vinnuskuldir, sem eru 120 þús. kr., og hafa til fé til þess að frystihúsið geti hafið rekstur. Nú eru eftir framkvæmdir, sem kosta um 200 þús. kr., til þess að hægt sé að starfrækja það að fullu og hægt sé að fá það fé að láni sem fiskveiðalán eftir löggjöf út á frystihúsið. Því það er gert að skilyrði, að það lánsfé verði ekki greitt út fyrr en húsið er að fullu byggt. En til þess vantar um 100 til 200 þús. kr., en það er eftir áliti þess manns, sem bankinn hefur sent til að athuga þetta mál. Auk þess vantar allt rekstrarfé fyrir húsið. Þegar vitað er, að húsið getur ekki fengið meir en 80% út á vöru, sem það framleiðir, þá þarf að leggja út a. m. k. 20% af því rekstrarfé, sem fyrirtækið þarf að hafa, sem verður ekki minna en 200 til 400 þús. kr. á ári. Svo vantar alveg það rekstrarfé, sem þarf til þess að fyrirtækið geti hafið rekstur, ef öruggt á að vera, að félagið geti keypt aflann og legið með hann og borgað vinnulaun jafnóðum. Svo mér virðist, að eftir þessu muni þurfa að leggja fram a. m. k. 500 þús. kr., og þá þarf að lána það með ákveðnum kjörum og þeim það vægum, að fyrirtækið þurfi ekki að stöðvast, jafnvel þó það fái einhver áföll.

Um 2. lið till., að útgerðarfélag þar á staðnum, Sigurfari h/f, geti þegar hafið útgerð, þá vil ég upplýsa, að sá bátur fellur undir nákvæmlega sömu ákvæði og aðrir bátar, sem hafa komizt í greiðsluþrot, sem sagt skuldaskil, og fyrr en þeim er lokið, er ákaflega erfitt að taka ákvörðun um það, hvernig því fyrirtæki verði hjálpað í framtíðinni, frekar en öðrum bátum. Það hefur tekizt fyrir atbeina þeirra aðila, sem hér hafa verið í bænum frá Flatey, að tryggja 100 þús. kr. lán til þess að þetta félag geti hafið starfrækslu.

Um 3. lið till., að Flateyingum verði kleift að fá tvo fiskibáta af heppilegri stærð leigða eða keypta, er það að segja, að það er ákaflega teygjanlegt. Það er náttúrlega allt annað, hvort á að leigja báta eða kaupa þá. Ég tel vafasamt, viðkomandi litlu hreppsfélagi eins og Flatey, að heppilegt sé að ýta undir það um að taka á sig ábyrgð, sem fylgir því að leigja skip. Hins vegar, ef á að kaupa tvo báta af líkri stærð og þann bát, sem fyrir er í Flatey, mundi það kosta 1½ millj. kr. En afkoma bátaútvegsins undanfarið er þannig, að það er ekki glæsilegt, hvorki fyrir ríkissjóð né aðra, að stuðla að því, að menn bindist fjárhagslegum böggum fyrir útgerð sérstaks sveitarfélags. Fulltrúar hreppsn. í Flatey hafa því horfið frá því að fara inn á þá leið. Þeir þykjast ekki hafa heimild til þess að binda aðra aðila í hreppnum, m. a. bændur, þeirri fjárhagslegu ábyrgð, sem því mundi vera samfara. Hitt hefur verið rætt mjög um, og er eðlilegt að fara þá leið, að Flateyingar fengju bát til þess að leggja upp í Flatey, ef veiði væri þar sæmileg. En stærstu óhöpp þessa árs fyrir Flateyjarbúa eru kannske þau, að þorskveiðar hafa brugðizt kringum Flatey, þannig að annað eins fiskileysi hefur kannske ekki verið þar í manna minnum. Og það hefur kannske gert allt útslagið á þetta ástand í atvinnulífinu, sem þar er nú.

Það, sem því hefur skeð í þessum málum nú, er það, að þessir fulltrúar Flateyinga hafa komið hér suður og rætt við bankana og ríkisstjórn um, að þeim væri aðkallandi nauðsyn að fá hjálp í sambandi við 22. gr. fjárl., þar sem heimilað er að eyða allt að þremur millj. kr. til þess að aðstoða þau frystihús, sem ekki gátu fengið lán úr stofnlánadeild sjávarútvegsins, og hafa þeir fengið vilyrði hjá hæstv. ríkisstj. fyrir því, að þeir fái hluta úr þeirri upphæð. Að síðustu hefur skrifstofustjóri félmrn., sem er formaður fyrir bjargráðasjóði, það með höndum að athuga, hvort Flateyingar geti ekki fengið einhverja aðstoð eftir fyrirmælum l. um þann sjóð.

Hv. flm. þáltill. heyrir, að mér er kunnugt um þessi mál, en ég er ekkert að stæra mig af þeim. Svo getur hv. þm. sjálfur dæmt um, hvort ég hef stuðlað að þeim eða torveldað framgang þeirra.

Ég er samþykkur því, að þáltill. þessi fari til fjvn. Ég mun gefa fjvn. þær upplýsingar, sem ég hef hér lýst, og leggja gögn þar fram um þær. — Ég veit ekki, hvar hv. flm. þáltill. hefur heyrt þær raddir, að einhver telji rétt að leggja Flatey í eyði. (HV: Það er í leiðara eins stjórnmálablaðanna.) Má ég vita, hvaða blað það er1 (HV: Vísir.) Ég les ekki leiðara í því blaði eða leiðara blaðanna yfirleitt. Ég læt ekki áríðandi þingstörf víkja fyrir því að lesa blöðin, hvort sem það er Vísir eða Alþýðublaðið. En ég fullyrði, að þær raddir eiga yfirleitt ekki við neitt að styðjast. Flatey hefur verið byggð upp af fiskveiðum eins mikið og landbúnaði. Hitt er vitað, að það er stórkostlegur hagur fyrir Flatey, eins og önnur héruð, að geta haft sem fjölþættasta atvinnu. Og það hefur verið ósk Flateyinga um mörg ár að geta komið sér upp frystihúsi, eins og nú hefur verið gert. Og nú er búið að koma þar upp höfn, sem er frumskilyrði til þess að hafa blómlega atvinnu í Flatey. Sumir álitu, að ekki væri hægt að gera þar bryggju, en þar geta nú legið við bryggju bæði fiskiskip og flutningaskip. Þar að auki hafa verið gerðir samningar um, að þar væri komið upp olíugeymi, og olía hefur verið seld þar fyrir mína tilhlutun frá því í maí s. l. ár, á sama verði og hún er seld annars staðar við Breiðafjörð. Þetta er frumskilyrði fyrir því, að nokkurt atvinnulíf geti þróazt þarna. Auk þess hefur verið lagður grundvöllur fyrir því að koma upp bryggju á Barðaströnd, sem er mjög mikils virði fyrir Flatey vegna verzlunarafstöðu. Og það bendir ekkert til þess, að það sé a. m. k. hugsun þeirra manna, sem í Flatey búa, að hverfa frá Flatey, nema síður sé.

En annað vil ég benda hv. flm. till. á, að eitt af því, sem Flateyingar hafa mjög sótzt eftir á undanförnum árum, er, að þeir séu ekki hafðir læknislausir, en þeir hafa ekki fengið lækni þangað, sem stafar af því, að þar er enginn læknisbústaður. Og að þar er enginn læknisbústaður, er af því, að flokksmaður hv. flm., landlæknir, hefur staðið á móti því, að þar sé byggður læknisbústaður, og vill leggja þetta læknishérað niður sem slíkt, en vill skipta því læknishéraði, sem Flateyingar eru í, og leggja nokkuð af því undir Reykhólahérað og nokkuð undir Patreksfjarðarhérað. Þetta er steinninn, sem flokksmaður hv. flm. þessarar till. hefur lagt í þá byggingu að fullnægja þörf Flateyinga.

Ég vildi nú gjarnan mælast til þess, að hv. 6. landsk. þm., flm. þessarar þáltill., bæri fram aðra till. um að byggja læknisbústað í Flatey á næsta sumri, og skal ég fylgja þeirri till. og það alveg eins, þó að ég væri ekki meðflm. að henni. Mér fyndist það ekki nema eðlilegt framhald af þeirri umhyggju þessa hv. þm. fyrir héraðinu, sem komið hefur fram. — Að öðru leyti skal ég ekki ræða þetta mál meira nú, ég er sammála því, að till. fari til fjvn.